laugardagur, október 14, 2006

Passipass

Já hér sit ég á barnapíuvaktinni á laugardagskvöldi með börnin þrjú, fimm kíló af nammi til að gúffa í þau og pening sem myndi duga fyrir 7 pitsum. Og að sjálfsögðu er kveikt á barnaefninu. Hver segir svo að það sé erfitt að passa börn?

Já, talandi um sætindi! Ég uppgötvaði mér (og öðrum heimilismeðlimum) til mikillar skelfingar um daginn að það eru 5 grömm af sykri í hverjum 100 grömmum af mjólkinni sem við drekkum!!! Oj bara, ég myndi kæra þetta ef Hollendingar væru ekki allir svona grannir... hvernig fara þeir eiginlega að þessu?

Ég fór að sofa klukkan hálftólf í gær eftir að hafa klárað æsispennandi söguverkefni. En það leið ekki nema klukkutími þar til ég var rifin á fætur aftur með harðri hendi og á dregin djammið... Nei nú er ég að ýkja smá. Það var bankað ofurblítt á dyrnar á herberginu mínu og mér boðið að kíkja með í bæinn. Sem ég og gerði, og það tók mig ekki nema 40 mínútur að skella á mig andlitinu, geri aðrir betur! Fátt náði ég þó að afreka að þessu sinni, en hér kemur ferðasagan í megindráttum:

- Náði að svolgra í mig hálfum bjór með miklum erfiðismunum... Já, reynið að drekka bjór klukkutíma eftir að þið vaknið! Oj bara, ég verð aldrei almennilegur alki...
- Fór á geggjaðan skemmtistað sem var TROÐINN, og ALLIR gaurarnir voru fallegir, ó svo fallegir...
- Lét benda á mig... humm. Það reyndar tengist myndinni sem kom af mér í háskólablaðið á svæðinu, er ég orðin þekkt eða hvað?
- Labbaði hratt framhjá gellunni sem var á klósettvaktinni og þurfti þess vegna ekki að 50 sent fyrir að pissa í skítugt klósett
- Fór á, tjah, skíðabar? Og 90% allra þar inni voru gaurar á mínum aldri, og þetta var ekki hommabar! Enda var svolítið fyndið þegar allir stilltu sér upp í kringum mann og störðu bara og drukku bjór...
- Reynt var að plata mig til að dansa uppi á barborði... Eh, kannski eftir nokkra bjóra í viðbót, hahaha
- Sá gaur í loðnu vesti með dalmatíuhundamunstri... hahaha
- Fór á tóman bar og lét éta mig með augnarráðinu
- Lét kalla mig flesk
- Fékk tvær sneiðar af geggjað góðri pitsu, namminamm
- Brilleraði í að tala ÞÝSKU, já, þýsku! Gaurinn talaði ekki ensku og spurði hvort ég talaði þýsku og áttum við langt og innihaldsríkt samtal á því ágæta tungumáli, og sjá! Gaurinn skyldi allt sem ég sagði!

Í dag fór ég í upplýsingamiðstöðina í bænum og spurðist fyrir um sundlaugar í bænum. ÞAÐ ER BARA EIN SUNDLAUG Í ÖLLUM BÆNUM, og þó inniheldur bærinn 125.000 íbúa! Og sú sundlaug er svo rándýr að það kostar milljón og tvær að dýfa litlu tánni þar ofan í... Í framtíðinni mun ég ávallt velju búsetu með tilliti til nálægðar við sundlaugar.

Já, svo er ég búin að fara á pósthúsið og spyrjast yfir um hvað það kostar að senda dót heim með pósti... 10-20 kíló á 3.500 íslenskar krónur telst óneitanlega nokkuð gott og mega því mútta og pápi eiga von á því að fá tvo 20 kílóa pakka senda heim svona þegar nær dregur desember...

Og að tilefni þess að það er svo ódýrt að senda dót heim, þá fór ég í bæinn í gær og spanderaði fullt af peningi í allskonar fegrunarvörur, reiknast mér svo til að ég hafi keypt um tvö kíló eða svo af allskonar kremum...

Nei, best að komast að því hvernig maður kveikir eiginlega ljósið í stofunni, kveikirofinn hefur aldrei viljað hlýða mér! Já, ég held að ljós sé alveg nauðsynlegt, svona ef litið er á þá staðreynd að yngsta skvísan er eitthvað að brasa þar inni og kannski betra að sjá hvað það er ;)

Kærar kveðjur, Anna Björk

Engin ummæli: