Ég hef loksins fundið skipulagið og dugnaðinn í mínu lífi! Eða allavega smá hjálpartæki sem stuðlar að breyttum lífsháttum.
Listar. Listar af öllum stærðum og gerðum!
Ég get t.d. ekki lengur án innkaupalista verið, því ég gleymi alltaf öllum smáatriðum sem þarf að kaupa, á borð við póstkort, svitalyktareyði og lyklakippu. Þannig að um leið og ég man eftir einhverju sem ég þarf að kaupa, en þarf kannski ekki að kaupa akkúrat á stundinni, þá skrifa ég það niður á lista og kaupi það svo næst þegar ég rekst á það! Og svo um leið og hluturinn er keyptur, þá er gert áberandi strik yfir hann svo maður sjái nú hvað maður er duglegur. Reyndar hafa nokkrir hlutir verið á innkaupalistanum hjá mér allt frá því ég kom hingað til Hollands þann 24. ágúst, en þeir eru engu að síður á listanum sem þýðir að þeir verða keyptir svona einhvern daginn.
Fatainnkaupalistar eru líkar stór partur af mínu lífi. Til þess að halda eyðslu í skefjum kaupi ég ekkert annað en það sem er á listanum, og kem þannig í vef fyrir að ég kaupi mér fimm djammboli en enga úlpu. Ég er svo sneddí! Reyndar hafa nokkrar flíkur verið á listanum frá því 24. ágúst, en þær verða nú samt keyptar einhvern tímann því þær eru jú á listanum.
Listinn yfir það sem ég ætla að gera í jólafríinu lengist dag hvern. Já, það er margt sem þarf að huga að, skella sér í sjónmælingu (bara hálft ár síðan síðast, en ég vil auðvitað fá að vita um leið og sjónin versnar svo ég missi ekki af útsýninu í kringum mig), kaupa hitt og þetta sem fæst ekki í útlöndum (útlenskar vörur samt á borð við náttúrulegan sítrónusvitalyktareyði sem ég hef hvergi séð nema heima á Íslandi), skella sér til einhverra lækna (maður þarf nú að vita að það sé í lagi með mann) og fara í ýmsa hittinga og djömm.
Listinn yfir það sem ég ætla að gera áður en ég fer frá Hollandi er nú reyndar ekki ýkja langur. Það helsta sem á honum er, er samt að fara til Amsterdam og til útlanda.
Listinn með fjárhagsáætluninni minni er svo kapítuli út af fyrir sig. Því á honum tilgreini ég allt sem ég þarf að kaupa, set niður hámarksupphæð og lágmarksupphæð og skrái svo niður raunverð hlutarins þegar hann er keyptur. Með þessu spara ég mér háar fjárupphæðir, því ég reyni að sjálfsögðu alltaf að halda mig við lágmarksupphæðina...
Nýjasta nýtt er svo listinn yfir það sem ég ætla að gera yfir daginn. Sá listi er líka lang skemmtilegastur, því ég legg mig, grínlaust, alveg heilmikið fram við að gera hlutina sem standa á listanum svo ég fái að gera stórt og fallegt strik yfir þá að loknu verki. Og svo kemur maður svo miklu í verk! Dæmi um hluti sem eru á þessum dagslistum eru t.d. að ryksuga í herberginu mínu, skrifa hinum og þessum tölvupóst, skila spænskuverkefni, fara út að labba, þvo smá þvott, fara í sturtu, setja símann í hleðslu... Oftast kemur það nú reyndar fyrir að ég næ ekki að ljúka við allt sem ég ætla að gera, en það færist þá yfir á lista næsta dags. Og ekki vil ég að listinn lengist endalaust, svo ég legg mikið kapp við að klára sem mest... og strika svo fallega yfir það.
Þannig að þið kæru lesendur sjáið að það þarf lítið til að gleðja mig. Mér hafði ekki einu sinni dottið í hug að stór og falleg strik gætu glatt mig svona mikið! Ég mæli með því að allir latir taki upp þessa listaaðferð, þetta svínvirkar.
mánudagur, október 23, 2006
On the list
...sagði
Anna Bj.
-
mánudagur, október 23, 2006
Flokkur: Holland
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli