Dagurinn í dag hefur verið viðburðarlaus með eindæmum.
Reyndar afrekaði ég það að loka sænska bankareikningnum mínum, og þar sem að konan í símanum talaði ekki ensku fór þetta allt saman fram á sænsku. Jess maður, ég er ennþá alveg altalandi!
Síðan ætlaði ég að skella mér í búðir og svona, en þar sem mig vantar ekki neitt og er í fjárhagslegu aðhaldi, þá nennti ég því ekki. Eða reyndar vantar mig úlpu/kápu, sokka (hvar eru eiginlega allir sokkarnir mínir? Heima á Íslandi? Já, svei mér þá, ég held það barasta...) og sjampó.
Annars er nú varla að ég þori lengur að fara í búðirnar hérna! Í fyrradag fór ég nefnilega í íþróttavöruverslun og keypti eitt par af geggjuðum Nike-skóm til að nota í ræktinni. Ekkert athugavert við það svosem. Nema hvað að ég stend við búðarborðið og er að borga allar þessar 35 evrur (3026 íslenskar krónur, áttu að kosta 5101 krónur) og stend mig alveg óskaplega vel í að gera þetta alltsaman á hollensku (Ja, nee, dank U wel), og þá segir afgreiðslumaðurinn allt í einu eitthvað sem ég skyldi engan veginn og glotti svo. Ég ákvað að skipta yfir á ensku og sagði: "Sorry, my Dutsch speaking is not so good..." og hvað haldið þið að maðurinn hafi sagt? Jújú, hann sagði: "I know, I remember you!".
Humm, og ég sem hef bara einu sinni áður keypt eitthvað í þessari blessuðu búð og þá voru tvær konur að afgreiða mig! Mér varð svo mikið um að ég fattaði ekki að spyrja af hverju í ósköpunum þessi maður kannaðist við mig!!! En allavega, það sem maðurinn sagði sem ég skyldi engan veginn var nú bara: "Á ég að setja kvittunina í pokann?". Fúff...
föstudagur, október 06, 2006
Allt að gerast!
...sagði
Anna Bj.
-
föstudagur, október 06, 2006
Flokkur: Holland
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli