laugardagur, október 28, 2006

Jeremías minn

Skrifað á laugardagsmorgni

Nennir einhver að fletta því upp í orðabók fyrir mig hvað orðið "jæja" þýðir eiginlega? Einkar asnalegt orð, og áðan fór ég skyndilega að efast um tilvist þess. En svo mundi ég eftir því að það væri til, og væri meira að segja mjög mikilvægt orð. En ég hef ekki hugmynd um hvað það þýðir! Anyone?

Jæja (ég bara varð að nota þetta), klukkan er ekki nema korter í níu á laugardagsmorgni og ég er strax komin á stjá. Það er þó engan veginn af fúsum og frjálsum vilja, það get ég sagt ykkur!

Sagan er sem sagt sú, að í morgun um sjö-leytið vaknaði ég við eitthvert undarlegt píp-hljóð. Ég slökkti á vekjaraklukkunni minni og bölvaði í hljóði, því auðvitað á ég ekkert að stilla vekjaraklukkuna á laugardögum. En áfram hélt hljóðið. Ég stökk þá á símann minn (sem var nú annars á silent), en hann var ekki sökudólgurinn. Og áfram hélt pípið. Ég grunaði þá hátæknivigtina mína um græsku, en fannst þetta þó í meiralagi undarlegt, því hljóðið var mjög óreglulegt og stundum liðu alveg 4 sekúndur á milli pípa. Ég gramsaði um stund í náttborðsskúffunni minni (sem inniheldur ekkert annað en snyrtivörur og skartgripi og engin píptæki), því eftir miklar pælingar komst ég að því að sennilega kæmi hljóðið þaðan. (Og nei, ég gat ekki kveikt á lampa því ég á engan lampa, haha). En ég fann ingenting. Datt mér þá í hug að þetta væri kannski vekjaraklukkan nágrannanna, en það á nú samt ekki að heyrast svona hátt í henni yfir til mín, og ekki var þetta vekjaraklukka úr hjónaherberginu á þriðju hæð. Og áfram hélt pípið. Ég stóð þá á fætur og kveikti ljósið, og gramsaði aðeins betur í náttborðsskúffunni minni. En ég sá engin líklega píptæki þar, nema kannski þráðlausa netkortið mitt, en uhh, það á nú varla að taka upp á því að pípa! Og áfram hélt pípið og ég var að verða geðbiluð þarna, fálmandi eitthvað út í loftið í leit að einhverju sem ég vissi ekki hvað var. Allt í einu fattaði ég hvað þetta var! Þetta var þá skrefamælirinn, sem ég fékk ókeypis í einhverri búð um daginn, að verða batteríslaus... Og mælinn geymdi ég einmitt ofan í náttborðsskúffunni. Hoho, þetta var nú skemmtileg saga!

En bölvaður skrefamælirinn vakti mig greinilega svo mjög að mér varð eigi svefns vant aftur og skakklappaðist því niður á klósettið. Sótti að mér þorsta og ég ákvað að fá mér vatnssopa, svona eins og ég geri alltaf þegar leið mín liggur inn á bað. En einhverra hluta vegna var mér svo ferlega óglatt að ég kom ekki vatnsdropa niður, og pældi ég vel og lengi í því hverju þetta sætti. Fór ég aftur upp í rúm með svima mikinn og lagðist fyrir og pældi í þessu um stund. Og þá fattaði ég það!

Ég hef aldrei áður vaknað klukkan sjö hérna í Hollandi, því ég vakna alltaf klukkan rúmlega átta á virkum dögum og er þá tekið að birta allverulega úti. En klukkan sjö er greinilega alveg kolniðamyrkur úti, og ég hef ekki vaknað í myrkri síðan, tjah, í febrúar eða svo, þannig að ég vaknaði með jólaspenning í maganum!!! Staldrið aðeins við og pælið í því! Jæja, ég reyndar sönglaði "Jóóólin, jóóólin aaallstaðar" úti á leikvelli núna í vikunni, en ákvað að líta ekki á það sem alvarlegan hlut. En núna þegar ég vaknaði í myrkrinu fann ég jólaandann hellast yfir mig og væri nú alveg til í að það væri kominn desember og að ég væri heima á Grænavatni í jólastemningu! Jah, fyrir þá sem ekki vita, þá ríkir alltaf gífurlegt stress heima hjá mér fyrir jólin. Pabbi situr og ræður krossgátur eins og vitlaus maður og betra að vera ekki fyrir honum þegar hann stendur á fætur og nær í meira Toblerone! Mamma náttúrulega alveg að tapa sér og púslar í tölvunni eins og hún eigi lífið að leysa... Bræður mínir alveg að ganga af göflunum þar sem þeir sitja við tölvurnar og lana af miklum móð þegar þeir eru ekki of uppteknir við að lesa Andrésblöð á milli leikja...! Og ég spái og spekúlera allan daginn í því hvernig best sé að nýta fríið sem best, og enda svo í allsherjarsjónvarpsglápi. Juu, 47 dagar í að ég komi heim, og ég kem heim á besta tíma, sem sagt beint í jólastemninguna! :D Mamma, ertu ekki örugglega byrjuð að baka...?

Engin ummæli: