Skrifað á sunnudagsmorgni
Löng færsla?
Í gær fór ég í sakleysi mínu í bæinn með það markmið að kaupa mér einhver flott föt. Þegar ég kom inn í miðbæinn var allsstaðar líf og fjör, og það fyrsta sem ég sá var kall í bláum gallabuxnasmekkstuttbuxum, með grænan hætt, í grænni skyrtu, í grænum sokkum og í grænum tréklossum. Þarna stóð hann og lét öllum illum látum á meðan hann spilaði á gítarinn sinn og söng, tjah, fagurlega með. Mér fannst þetta fyndinn kall og stóð þarna um stund og horfði á. Þá fór hann að tala eitthvað, og ég skyldi nú lítið af því sem hann sagði, fyrir utan "rounde vrouw" sem útleggst sem bollulegar konur. Hann var þá að tala um kvennamál sín, og óskaði einskis frekar en að eignast eina Rounde Vrouw. Og svo fór hann að spila og syngja, og í hvert sinn sem kona gekk fram hjá honum elti hann hana og urraði, eh, getnaðarlega á eftir henni. Og svo dansaði hann mjög eggjandi dans. Og alltaf þegar hann sá manneskju í grænum fötum hætti hann að spila og hrópaði "GROEN, GROEN!" sem útleggst sem grænn, grænn. Ég stóð þarna ásamt hóp af fólki og var næstum búin að hljóta bráðan bana, svo fyndið var þetta.
En obbobb, það var nú gott að ég hlaut ekki bráðan bana, því þá hefði ég farið straight to hell! Gúlp! Já, lesið lengra, og komist að því af hverju ég hefði endað þar...
Eftir að kallinn var búinn að urra á þónokkuð margar konur og dansað af miklum móð missti hann óvart gítarnöglina sína og komst þá að því að hann hafði slitið streng á gítarnum í öllum hamaganginum. Ég ákvað þá að fara og kíkja í nokkrar búðir og koma svo kannski aftur þegar hann væri búinn að laga gítarinn sinn.
En ég komst ekki nema 20 metra, því þá sá ég þennan fína flokk af fólki sem var að syngja gospel-lög. Ég að sjálfsögðu staldraði við og hlustaði, enda gospel-tónlist oft á tíðum mjög flott. Síðan var eitthvað fólk að rétta vegfarendum miða þar sem auglýstir voru ókeypis gospel-tónleikar þá um kvöldið. Ég tók við einum slíkum miða með hálfum hug, því ég var svo upptekin við að hlusta. Og allt í einu segir stelpan sem rétti mér miðann eitthvað. Og ég bara "Eh, sorrí, I don't speak Dutch..." Og hún skipti þá yfir á ensku. "Do you believe in God?" Og ég bara "No, not really, I just love the music so that's why I'm standing here..." Og í óspurðum fréttum sagði stelpan (sem var 26 ára) mér allt um hvernig allir á jörðinni væru fæddir syndugir vegna þess að Adam og Eva borðuðu eplið forðum daga, að Jesú hefði fórnað sínu lífi fyrir okkur og að okkur bæri að biðja Guð um aflausn synda okkar.
Það þarf nú varla að taka það fram, að ég er ekki mjög móttækileg gagnvart svona hlutum, og fór að spyrja meira út í þetta, bara svona upp á forvitnissakir. Komst ég þá að ýmsu, eins og að allir þeir sem eru í öðrum trúarbrögðum fara til Helvítis, því að þeir trúa ekki á hinn rétta Guð, því að sjálfsögðu er bara til einn Guð, og allir aðrir "Guðir" hafa orðið til vegna sjálfselsku annarra. Ekki einu sinni kristnir menn komist í Himnaríki, því þeir hafa ekki gefið Guði allt sitt líf og hjarta, því það er nottla ekkert nóg að fara í kirkju einu sinni í viku og biðja bænir... Ég spurði þá út í "Survival of the fittest" kenningu, það væri nú ekkert hægt að kollvarpa henni, þar sem að það væru jú vísindi sem hægt væri að sanna með auðveldum hætti. Þá fékk ég spurninguna "Who made your watch?" sem sagt, hver bjó til úrið þitt. Ég fór samstundis að leita að merki framleiðandans, en áður en mér gafst tími til að finna það sagði önnur kona sem var þarna komin "You don't know! And you don't know who made the world! So do you really believe in the Big Bang?". Ég bara "Jah, það á enn eftir að sanna það mál, en það er það skásta sem hægt er að trúa á allavega..."
Og þannig hélt þetta áfram í einn og hálfan klukkutíma. Ég kom með öll hugsanleg mótrök, eins og hver skapaði Guð, af hverju ættu lítil börn að fara til Helvítis bara út af þessu eina epli, hverjar eru sannanirnar fyrir því að Guð sé til, hvernig bjó hann til sólina á bara einum degi, af hverju eru þetta og þetta syndir, af hverju ættum við að gjalda fyrir syndir Evu og Adam því þetta var jú ekkert okkur að kenna, af hverju er þetta hin eina rétta trú, og så videre og så videre... (Ég tek það samt fram að þetta eru ekki trúarbrögð, þessi trú gengur aðeins út á einlæga trú á Guði og Jesú). Og svörin sem ég fékk voru flest á þá leið "Þú verður bara að prófa, og þá kemur Guð til þín og þá veistu að það er bara til þessi eini Guð. Þú getur prófað Islam, þú getur prófað Búddatrú, þú getur prófað að gerast kaþólikki, en þú munt komast að því að það er tímasóun! Viltu biðja bænina um syndaaflausn núna? Við getum beðið með þér!"
Huhuhumm, ég var nú ekki alveg tilbúin til þess að játa syndir mínir (enda tel ég mig vera ákaflega syndlausa manneskju, sama hvað öllum eplum líður), en lofaði þó að mæta á tónleikana þarna um kvöldið, bara upp á forvitnissakir.
Og svo mætti ég þarna um kvöldið, rétt fyrir klukkan átta. Og það var heil móttökunefnd sem beið eftir mér! Jii, mér leið eins og ég væri fræg eða eitthvað! Og ég bjóst við einhverri svaka kirkju (í venjulegum skilningi), en þá var þetta samkomusalur sem er kirkjan þeirra. Frekar spes og annað en maður hefur vanist... Og þarna var fullt af fólki sem allt var súperforvitið um hagi Íslands og menningu og þjóð. Og svo byrjaði dagsskráin. Tónlistaratriðin samanstóðu af lögum sem allir kannast við, en það er bara búið að breyta textunum örlítið og skjóta orðum eins og "Jesus" og "God" inn í. En þetta var alveg ótrúlega skemmtilegt. Svo inn á milli kom fólk og talaði um af hverju það hefði ákveðið að gerast trúað. Sumir voru langt leiddir í fíkniefnum áður en þeir frelsuðust, og aðrir voru þarna til að fylla tómarúmið í lífi sínu. (Það var alltaf einhver að túlka fyrir mig, svo ég fékk alveg að vita um hvað málin snérust).
Og svo var sýnt sýnt leikrit inn á milli, sem öllum fannst alveg ferlega fyndið. Það gekk í megindráttum út á það að nunnan komst ekki til himna, biskupinn komst ekki til himna, búddatrúarmaðurinn komst ekki til himna, karlinn sem lenti í bílslysi komst ekki til himna... En töffarinn sem hafði beðið syndaaflausnarbæn daginn áður með einhverjum trúboða, hann komst til himna. Þótti þetta leikrit hin mesta skemmtun!
Þegar líða fór að lokum formlegrar dagskrár, þá var spiluð tónlist og allir sungu með, og þeir sem trúa á Guð, nú eða þeir sem vildu byrja að trúa þetta kvöld (og þá var litið á mig), þeir áttu að sýna Guði hendurnar á sér. Jah, frá því er skemmst að segja, að mig byrjaði að klæja í nefið akkúrat á þessari stundu, en ég þorði að sjálfsögðu ekki að klóra mér ef það skyldi vera tekið sem merki um að ég vildi frelsast, svo ég gretti mig bara sitt á hvað til að reyna að minnka kláðann... hahaha, það hefur ábyggilega verið alveg kostulegt að sjá mig!
Eftir formlega dagskrá hópaðist fólk í kringum mig og rökræddi við mig um Guð. En ég nenni nú ekki að trúa á þann Guð sem sendir alla til Helvítis út af einu epli, svo ég gaf mig hvergi. Svo finnst mér líka einkar þægileg tilhugsun að maðurinn hafi einu sinni verið api, já, það er langeinfaldast að hafa það bara þannig. Ég hefði eflaust getað verið þarna í marga klukkutíma, en ég þurfti nú samt að drífa mig heim og spila póker (sem var nú alveg satt, það voru allir að bíða eftir mér heima). Áður en ég fór var mér samt boðið að mæta til kirkju morguninn eftir og skoða þetta mál aðeins betur, athöfnin myndi að sjálfsögðu verða þýdd fyrir mig. Ég bara "Eh, jah, sjáum til..." og gerði mig líklega til þess að fara. En áður en ég komst lönd eða strönd, lenti á ég spjalli við eitthvað fólk úr "GreenPeace", og segið þið mér, ó kæru Íslendingar, erum við byrjuð að veiða hvali aftur? Jii, ég vissi það ekki, og gat þess vegna ekki varið land og þjóð sem skyldi. Held ég verði að fara að lesa fréttir!
Já, svo hélt ég að ég væri loksins sloppin, en þá sagði ein konan við mig "Remember your watch!" og ég bara "Jájájá..." og hélt hún væri að skírskota til þess að ég ætti að muna hver hefði búið til úrið mitt... En það var nú aldeilis ekki svoleiðis, því hún var bara að minna mig á að sumartíminn myndin breytast yfir í vetrartíma þá um nóttina! Já, gott að hún sagði mér það, því við í Geldersedam vissum ekki af því!
Og svo fór ég heim að spila Póker, og tapaði, samt eiginlega viljandi, því ég var orðin dulítið þreytt í hausnum af öllu þessu trúarspjalli. (Þess má geta að um síðustu helgi vann ÉG!).
Já, kannski ég skjóti því að, að ég er með engum hætti að gera lítið úr trú, hvorki gospel né annarri. Þetta var bara svona lítil saga til að sýna ykkur muninn á menningu fólks, og mun ég sko bera miklu meiri virðingu fyrir trú fólks núna en ég gerði áður. Já, alltaf er maður að læra!
En þetta er orðin dágóð klausa, vona samt að flestir hafi komið sér í gegnum hana, þetta var nú smá svona upplifun!
Kveðja, Anna the Monkey
sunnudagur, október 29, 2006
Hjálpi mér allir heilagir!
...sagði
Anna Bj.
-
sunnudagur, október 29, 2006
Flokkur: Holland
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli