Hér í Geldersedam 42 hefur allsvaðalegu heilsuátaki verið startað. Sem þýðir ekkert annað en í kjólinn fyrir jólin, ekkert brauð, ekkert kjöt og ekkert sukk... bara no nothing!
Já, Heiða og Rakel fóru í tíma til einkaþjálfara áðan og komu heim fullar af allskonar visku. Spurning samt hvað hafa eigi í kvöldmatinn, fyrst hvorki má hafa kjúklingafajitas né spakk og hagettí? Og svo ætla ég að panta mér tíma hjá þessum flotta einkaþjálfara, hann er nefnilega ókeypis...
Annars gerði ég nú nokkuð góðan túr í bæinn í dag. Þar sem ég hef ákveðið að kaupa mér ekki fleiri föt fyrr en líkamlegt ástand er orðið aðeins, tjah, grennra, þá fór ég bara og spanderaði í ýmsa aðra flotta hluti. Ber þar m.a. að nefna geheggjaða tösku (litla gula handveskið mitt sem ég fékk á 500 kall í Centro fyrir nokkrum árum síðan hefur nú samt staðið sig með prýði sl. fjóra og hálfan mánuð) og þunna fitness-dýnu sem mun þjóna þeim tilgangi að sjá til þess að ég geri maga-og bakæfingar á kvöldin.
En þar með er það ekki allt upptalið, því ég keypti mér líka vigt. Já, vigt! Mig hefur lengi langað í svoleiðis græki (sorrí mamma og pabbi, en ég held að þessi sem er heima sýni ekki aaalveg réttar tölur lengur...) og vita hvað ég er þung!
En þið skuluð ekki halda að ég hafi látið mér nægja að kaupa bara venjulega vigt, nei þá þekkið þið mig ekki rétt. Heldur fór ég og keypti mér alvöru flókna vigt! Hún virkar svona:
- Settu mælingarfjarstýringarskjáinn með innrauða ljósinu ofan á vigtina sem er annars glær og ekki með neinum skjá.
- Veldu númer frá 1-10. (Það er sem sagt hægt að vista 10 manneskjur í vigtinni).
- Skráðu inn hæð, aldur, kyn, símanúmer og nafn föðurömmu þinnar. (Nei, nú er ég smá að ýkja, en ekki mikið. Maður þarf allavega að skrá inn hæð, aldur og kyn).
- Potaðu laust með tánni í vigtina þar til þú sérð 0,0 á skjánum.
- Stígðu á vigtina og bíddu smá.
- Nú sérðu þyngd, fituprósentu líkamans og vatnsmagn.
Já, ég sagði fituprósentu og vatnsmagn, og það eru sko engar ýkjur! Það er líka klukka og hitamælir á vigtinni, og hvað þarf maður meira í þessu lífi? Og að sjálfsögðu var þetta á alveg hreint spottprís, eða eins og gengið er í dag: 2.565 íslenskar krónur.
Reyndar finnst mér þessi fitumælir alls ekki sniðugur lengur, svona eftir að ég prófaði hann. Sé ég því aðeins tvennt í stöðunni. A) Að skila vigtinni. B) Að fara út að labba.
Er þetta erfitt líf eða hvað?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli