fimmtudagur, nóvember 02, 2006

Nú er frost á Fróni

Í dag lá ég í sólbaði uppi á svölum í 28 stiga hita með tequila í annarri og sólarvörn í hinni.

Nei, nú er ég að ljúga. Í fyrsta lagi get ég ekki hugsað mér að tengja áfengisdrykkju við sólböð og í öðru lagi var bara 7 stiga hiti og ég fór ekki í neitt sólbað.

Þegar ég fór svo í bæinn í kvöld (allar búðir eru opnar til 21 á fimmtudögum), klædd í gellubuxur sem ná aðeins niður á miðja kálfa, þá voru bara 5 gráður.

En blessunarlega keypti ég mér þó úlpu í gær! Já, ég fór í bæinn í gær og hefði ekki komist heim aftur hefði ég ekki keypt eitthvað til þess að halda lífi og limum, svo ég splæsti í úlpu sem ég hef haft augastað á heillengi. Og þetta er ekki bara einhver úlpa, neinei. Þetta er sko ekta gelluúlpa! Húhú.

Hins vegar verð ég að lýsa yfir hneykslun minni á mæðrunum hérna í Hollandi! Ég sé oft mæður (sem eru allar á fertugsaldri því hér eignast ENGINN undir 32 ára aldri börn) hjóla með börnin sín hér í kring, og börnin eru ALDREI ALDREI ALDREI MEÐ HÚFUR!!! Ekki einu sinni börn sem eru bara eins árs! Og ég, sem þriggja barna móðir, verð að segja að ég er yfir mig hneyksluð, og ef ég vissi númerið hjá hinni hollensku barnaverndarnefnd, jah, þá myndi ég allavega íhuga að hringja þangað... Þetta er alveg rosalegt og mitt "móðurhjarta" brestur næstum því við svona sýn. Og ég stoppaði meira að segja alveg extra extra stutt úti á leikvelli í morgun, því vettlingarnir voru alltaf að detta af þeirri yngstu og ég vildi ekki að henni yrði kalt á puttunum... jeminn eini, mér hefði ALDREI dottið í hug að það væru til mæður sem gerðu börnunum sínum það að vera HÚFULAUS úti! Jadúddamía.

Og hey, það er búið að finna ofn sem hægt er að setja upp í herbergi til mín! Ég reyndar gleymdi að drösla honum upp í dag, svo ég verð víst að vakna aftur í 14,5 gráðum, eins og gerðist í morgun... En ofninn fer upp á morgun, og þá verður sko kynt í botn!

Nei úff, þessi færsla fjallaði öll sömul um veðrið. Reyni að skrifa eitthvað uppyggilegt næst! Já, svo á ég eftir að tilkynna úrslitin úr kommentakeppni októbermánaðar, en niðurstöður liggja fyrir nú þegar, þarf bara að skella því hingað inn :) Síðan á ég eftir að sýna ykkir fullt af myndum og svona...

En núna er best að koma sér í háttinn, m.ö.o. kappklæða sig í öll hugsanleg náttföt og leggjast undir þykka sæng og teppi... Góða nótt, elskið friðinn og kyssið á kviðinn og hagið ykkur skikkanlega! ;)

Engin ummæli: