Humm, kannski er kominn tími á það að ég segi ykkur pínulítið frá Hollandi. Það er að segja hvernig ég upplifi Holland.
Holland er algjört æði. Fyrst ber að sjálfsögðu að nefna veðrið. Þetta árið er veðrið svolítið undarlegt, því yfirleitt á þessum tíma árs er hitinn frá -5 gráðum og upp í 5 gráður. Núna er hitinn hins vegar alltaf á milli 8 gráða og 15 gráða. Ekki amalegt það! Hollendingar eru alveg bit yfir þessu og segja mér í sífellu að þetta eigi EKKI að vera svona! En þetta er mjög spes. Sérstaklega þegar ég fer í garðinn að skokka með jólalög í mp3-spilaranum mínum, ég meina, grasið er ennþá grænt og trén eru ennþá græn! Það er, jah, spes tilfinning.
Ég dýrka fólkið hérna. Það eru alltaf ALLIR tilbúnir til þess að hjálpa manni með hvað sem er! Hollendingar tala líka í flestum tilfellum alveg brilljant ensku, enda telur þjóðin ekki nema 16 milljón manns og viðhorfið í þjóðfélaginu er þannig að fyrst það búi svona fáir í landinu, þá sé nauðsynlegt að kunna góða ensku!
Hjólin eru svo kapítuli út af fyrir sig. Hollensk börn eignast í mörgum tilfellum sitt fyrsta þríhjól áður en þau byrja að ganga, sem sagt fyrir eins árs aldurinn. Svo það er ekkert skrítið þótt ég, sem hef aldrei verið haldin miklum hjólaáhuga, hafi til að byrja með verið eilítið smeik við að hjóla á miðjum umferðargötunum! Á mörgum stöðum eru reyndar hjólreiðarstígar, en stundum þá er ætlast til þess að hjólreiðarmennirnir hjóli á sömu götum og bílarnir. Þá er ég ekki að meina bara úti í kantinum, nei. Maður hjólar bara eins og maður sé á bíl! Og þá er nú best að vera ekkert að dunda sér...
"Eftir einn ei aki neinn" er ströng regla heima á Íslandi. Þess vegna finnst mér fyndið að hér í Hollandi megi maður drekka tvö glös áður en maður sest upp í fararskjóta. Sama hvort það er hjól eða bíll. Og það er ekki tilgreint hvað má vera í þessum tveimur glösum. Og hérna missir maður ekki bílprófið við að hjóla fullur. Reyndar held ég að það eigi að vera þannig að maður fái sekt ef maður drekkur meira en tvö glös og hjólar svo, en ég held að það sé nákvæmlega enginn að fylgjast með því, því það er skömminni skárra að hjóla fullur heim heldur en að labba og eiga það á hættu að verða fyrir barðinum á einhverjum óprúttnum náungum...
Hér máttu byrja að reykja 16 ára. Enda eru líka gjörsamlega ALLIR sem reykja hérna! Eða kannski ekki alveg allir, en alveg rosalega margir. Stundum sér maður krakka á fermingaraldri hópa sig saman í garðinum og kveikja í nokkrum rettum og það þykir hið allra eðlilegasta mál...
Ég held ég fari með rétt mál þegar ég segi að dóp sé löglegt í Hollandi. Enda er, að ég held, ekki mikið mál að verða sér úti um dóp hérna. Ég þarf t.d. ekki að fara lengra en í garðinn hérna hinum megin við götuna til þess að hitta dópdílera. En þeir eru samt mjög friðsamir og láta mann alveg í friði. Í gær fór ég á háskólabar bæjarins. Þýsk stelpa, sem heitir Swanni, kom og náði í mig og við þurftum að fara aðra leið ein venjulega því að brúin ógurlega ákvað að fara upp akkúrat þegar við komum að henni. Á leiðinni að stúdentagörðunum sagði hún við mig: "And there is the coffie-shop that everyone goes to" og benti á eitthvert hús. Ég bara já ókei og hélt áfram að hjóla. Svo spurði ég: "Do you go there often?". "Me??? No, I don't smoke." Þá mundi ég eftir því að "coffie-shop" hér í Hollandi eru ekki venjuleg kaffihús, heldur eru það sérstakir staðir þar sem hægt er að kaupa dóp!!!
Síðan á barnum í gær hoppaði og skoppaði ein spænsk stelpa af gleði, því vinur hennar hafði fundið hass að andvirði 40 evrur á þessari "coffie-shop" og gefið henni. Síðan rauk hún beint út að reykja ásamt hópi af Frökkum.
Verðlagið hérna er einn stór brandari. Reyndar eru leikskólagjöld og svoleiðis dýrara en heima á Íslandi, en maturinn og fötin og annað dót, maður minn sko! Þetta er eiginlega alveg ferlegt!
Strákarnir hérna eru svo krúttlegir. Þeir eru líka svo miklar dramadrottningar að það hálfa væri hellingur! Það eru fleiri en einn búnir að segjast elska mig. Ég hef líka alveg látið gæjana heyra það! En mig grunar samt að sennilega sé þetta ekki þeim að kenna, þetta er ábyggilega eitthvert menningartengt atriði... Annað mjög áberandi er, að þegar maður fer á skemmtistaði, þá er alltaf einhver sem "á" mann. Um leið og einhver gaur er búinn að eigna sér mann, þá má enginn annars gefa manni undir fótinn því þá er farið út að slást!!! Reyndar hefur mér með klókindum alltaf tekist að halda "mínum" gæjum frá slagsmálum, thank God! En það er óneitanlega nokkuð spes að lenda í svona aðstöðu...
Allir hollenskir strákar eru með krullað hár. Algjör rassgöt!
Þegar ég var úti í Svíþjóð fannst mér það MJÖG slæmt að fá alltaf eitt langt auglýsingarhlé inni í öllum þáttum. En vitið þið hvað? Ég myndi gefa MIKIÐ fyrir að fá sænska sjónvarpið hingað til Hollands! Því að hér í Hollandi er þetta miklu verra! Í þáttum sem eru 45 mínútur eru tvö sjö og hálfs mínútna auglýsingarhlé! Það fyrsta kemur þegar tíu mínútur eru búnar af þættinum. Hið síðara kemur þegar tíu mínútur eru eftir af þættinum. Með öðrum orðum: Það tekur klukkutíma að horfa á 45 mínútna þátt. Það eru engar auglýsingar á milli þátta, nei o nei. Þær eru bara inni í miðjum þáttunum!!! Margar hollenskar auglýsingar pirra mig líka óstjórnlega mikið. Því að þegar auglýsing X er búin, þá koma tvær auglýsingar á eftir henni. Síðan birtist AFTUR hluti af auglýsingu X, svona til þess að troða þessu alveg örugglega inn í hausinn á fólki! Ég segi nú bara fyrir mína parta: Ef ég hef ekki áhuga á vörunni í fyrsta skipti, þá hef ég heldur engan áhuga á henni seinna skiptið.
En annars er auðveldlega hægt að líta á björtu hliðarnar með þetta. T.d. þá endist ánægjan af því að horfa á sjónvarpsþættina mun lengur en ella, m.ö.o. ég get notið Gilmore Girls í lengri tíma í hvert skipti! :D Það er nú ekki amalegt.
En núna verð ég að drífa mig út að skokka, kannski ég ræði við nokkra dópdílara í leiðinni...
fimmtudagur, nóvember 30, 2006
Holland, fagra Holland
...sagði
Anna Bj.
-
fimmtudagur, nóvember 30, 2006
Flokkur: Holland
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli