Hahaha! Fyrir þá sem ekki vita, þá er ég í óðaönn þessa dagana að skoða leigumarkaðinn í Kaupmannahöfn. Ég rakst á eina alveg bráðfyndna auglýsingu sem ég barasta verð að snara yfir á íslensku og birta hér:
Hæhæ! Ef þig vantar hlýjan og huggulegan stað til að búa á núna í kuldanum, þá er þetta kannski eitthvað fyrir þig. Íbúðin er í Glostrup við Kaupmannahöfn. Þú getur flutt inn akkúrat núna ef þið bráðvantar stað til að búa á, en annars eftir samkomulagi á milli 15. nóvember og 1. desember 2006, eða bara þegar þér hentar.
Ég er sætur og góður maður á miðjum þrítugsaldri með hjartað á réttum stað, sem leitar að einhverjum til þess að deila 55 fermetra íbúð með. Ég leita að sætri og góðri stelpu, því að fyrri meðleigjandi minn var stelpa sem ég á alveg rosalega góðan vinskap með í dag. Húsaleigan mun vera 1.500 (danskar) krónur á mánuði, allt innifalið, sem sagt rafmagn, hiti, kapalsjónvarp og líka internet ef þú óskar eftir því. Ég er auðveldur í umgengni og er ekki með miklar kröfur, bara ef þú ert róleg og góð, en annars er ég mjög góður og vinalegur strákur sem metur heiðarleika mikils og býst að sjálfsögðu við því sama af þér. Það er mikilvægt að þér líði eins og heima hjá þér, heimili mitt er líka þitt heimili, og þrátt fyrir að ég auglýsi eitt herbergi til leigu, þá færð þú samt bara stofuna því ég þarf oftast að nota herbergið sjálfur. Þannig að við notum stofuna eiginlega saman og það er sameiginlegt baðherbergi og eldhús þannig að ef þú ert stelpa sem vilt kannski búa nær kærastanum þínum eða Kaupmannahöfn er þér velkomið að hafa samband við mig. Ef þú reykir ekki er það í lagi, en ef þú reykir ekki þarftu samt að þola reyk, því ég reyki.
Ef þú getur ímyndað þér huggulega sambúð þar sem við eldum mat og horfum á myndir á kvöldin eða höfum það alveg rosalega notalegt saman, þá ertu hjartanlega velkomin. Íbúðin er öll útbúin húsgögnum, bæði herbergið og stofan, svo þú þarft bara að hafa föt og svoleiðis með. Þú getur leigt hér í stuttan eða langan tíma, allt eftir þínum þörfum, og ef þú þarft stað til að vera smá ein, kannski með kærastanum þínum, sem sagt bara um helgar, þá getum við líka fundið eitthvað út úr því, ef ég hef möguleika á að búa einhversstaðar annarsstaðar akkúrat þá helgi. En annars er að bara að hafa samband við mig.
Íbúðin mín er ca. 10 kílómetra frá miðbæ Kaupmannahafnar og það eru góð strætó- og lestarnet til Kaupmannahanfar. Það er heldur ekki svo langt að fara til að kaupa í matinn.
Ef þú hefur annars konar þörf fyrir að nota íbúðina mína, spurðu þá bara. Næstum allt er mögulegt og ef þú átt alls engan pening þegar þú flytur inn þá hljótum við að geta fundið út úr því. Þetta er mjög langur texti, en mér finnst mikilvægt að þú fáir að vita eins mikið og mögulegt er þar sem að þú munt búa í ákveðnum ramma. Ef það er eitthvað sem ég hef gleymt, eða eitthvað sem þér finnst vanta í auglýsinguna, þá er þér meira en velkomið að hafa samband við mig. Þú getur haft samband í gegnum tölvupóst eða msn eða beint í gemsann þar sem þú getur líka sent mér sms.
Húsnæðisknús frá Sven.
Hvað segið þið, er ég búin að finna draumahúsnæðið? BWAHAHA!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli