fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Miðvikudagsdjamm

Þeir sem er ekki neitt óskaplega vel að sér í tölvuheiminum mega sleppa því að lesa næstu tvær klausur og hoppa yfir í þá þriðju.

Já, það er ýmislegt óvænt sem fylgir því að skipta svona um útgáfu! Jahérnahér. T.d. rak ég augun í það í dag að prófíllinn minn hafði opnast, og ekki nóg með það heldur gat maður þar séð tenglalista yfir öll bloggin sem ég hef búið til á blogspot-aðganginum mínum (maður getur gert óteljandi margar bloggsíður á einu notendanafni). Sem betur fer voru þau blogg ekki mörg, og vona ég að þessir tveir sem ráku augun í þennan tenglalista (það er teljari á prófílnum mínum) hafi ekki hlotið of mikinn skaða af. Eftir að hafa lesið yfir þessar bloggsíður núna áðan, þá sé ég að það er nákvæmlega ekkert merkilegt á þeim, flestar síðurnar stofnaði ég einfaldlega til þess að fikta mig áfram og læra á HTML-kóða (ég stofnaði fyrstu blogspot-síðuna mína árið 2003, svo það var ekki út í bláinn að ég skipti yfir í blogspot þegar ég ákvað að folk.is væru ekki lengur nóg til þess að uppfylla myndaþörfum mínum). En ég var samt snögg að loka prófílnum mínum, ég meina, hver þarf prófíl á bloggsíðu? Fyrir þá sem ekki vita, þá hafa prófílar í stuttu máli sagt þann eina tilgang að eigendur síðanna geti talið upp áhugamál sín. Eða eitthvað svoleiðis.

En síðan komst ég að einu mjög ánægjulegu. Ég þurfti að búa til einhvern google-aðgang, og viti menn, allt í einu stækkaði hotmail-innboxið mitt um jah, stjarnfræðilegar stærðir! Við erum að tala um að núna komast fyrir 1000 megabæt í innhólfinu mínu! Ég man ekki hvað það komust mörg megabæt fyrir, en fyrir breytinguna var innhólfið mitt 16% fullt, núna er það bara 1% fullt, því það getur náttúrulega ekki hægt að segja að það sé 0% fullt þegar það er alveg hellingur í því... Uss, þetta er nú skemmtilegt! Reyndar hef ég vanið mig á það að vera dugleg að henda tölvupóstum sem ég fæ (ekki persónulegum bréfum samt, bara svona forward-keðjubréfum og fleiru sem ég hef lagt í vana minn að svara ekki) og held ég að öll þessi aukamegabæt muni ekki breyta neinu þar um... Nema náttúrulega að þetta hafi ekkert með google-aðganginn að gera, kannski stækkuðu innhólfin líka hjá Gunna og Siggu úti í bæ?

En nóg um tölvuþvaður. Í gær fór ég á ákaflega forvitnilegt djamm. Það byrjaði hér í Geldersedam með ópal- og brennivínsskotum (maður er nú ekki Íslendingur fyrir ekki neitt, eller hur?), og síðan þegar búið var að kasta hjólinu mínu niður af svölunum (don't ask) hjólaði ég af stað með þýska skiptinemanum. Leiðin lá á stúdentagarðana þar sem ég hitti u.þ.b. 20 stelpur (allar í sitthvoru lagi) sem allar görguðu: "OH, YOU ARE THE ICELANDIC AU-PAIR!!!". Eftir að hafa borðað kex og kennt frönskum skiptinema muninn á framburðinum á orðunum "sheep" og "ship", þá lá leiðin niður í bæ. Þar læsti ég hjólið mitt saman við nokkur önnur hjól (já, maður verður að redda sér þegar engar hjólagrindur eru til staðar) og olnbogaði mig inn á einhvern agnarsmáan bar þar sem langflestir háskólaskiptinemar bæjarins, og nokkrir hollenskir gleðipinnar, drukku vatnsþynntan bjór af öllum kröftum og reyndu að dansa rússneska þjóðdansa við þýskt júrópopp, enda var þýskt þema í gangi þetta kvöld. Einkar áhugavert.

Það var líka gaman að vera ég þetta kvöld. Allir í háskólanum höfðu að sjálfsögðu heyrt um "The Icelandic au-pair", bæði fyrir tilstilli blaðagreinarinnar góðu og vegna Heiðu, Egils og Rakelar sem höfðu víst "aðeins" minnst á mig hér og þar í skólanum... Þannig að það fyrsta sem gerðist þegar ég gekk inn á barinn með þýska skiptinemanum var að ég þurfti að taka í höndina á svona 7 manns sem allir hrópuðu á háa c-inu "YES, YOU ARE THE AU-PAIR!!! HI, I'M JOHN". Og síðan hófst keðjuverkunin. Það var alltaf einhver John eða Frida sem tók mig undir sinn verndarvæng og kynnti mig fyrir öðru fólki. Það fólk kynnti mig síðan fyrir öðru fólki. Og svo koll af kolli. Að lokum var ég orðin alveg gjörsamlega klikk í hausnum og var hætt að reyna að muna nöfnin á nokkrum manni, en verð þó að segja að ég er orðin mjög atvinnumannsleg í að kyssa hollenska kossa! (Nei kjánaprikin mín, hollensku kossarnir eru þannig að fyrst kyssir maður til vinstri, svo til hægri og svo aftur til vinstri). Sumir voru þó alveg einstakir herramenn og tóku ekki annað í mál en að fá að kyssa á mér handarbakið, sumir jafnvel 13 kossa...

Og síðan setti ég hendurnar upp í loft og reyndi að dilla mjöðmunum í takt við þýsku tónlistina, en aðrir dansstílar komu eiginlega ekki til greina þar sem að það var alveg gjörsamlega troðið þarna inn af fólki! Ég verð þó að segja að ég kom ekki auga á einn einasta hamstur þetta kvöld, guði sé lof. En já, þarna stóð ég og dansaði með fullt af Davíðum og Jónum og Soffíum og Ingum og hver ein og einasta manneskja bauðst til þess að fara og kaupa handa mér bjór... Jahérnahér. Fyrir áhugasama verð ég þó að bæta því við að ég drakk aðeins um tvo desílítra, það er náttúrulega betra að vera með fulle femm þegar maður er svona í útlöndum!

Um hálftvö-leytuð var barnum þó lokað, við grátur og gnístran tanna háskólanemanna. Þá var farið út og reykt hass og svona. Neinei, ekkert allir, bara nokkrir! Eftir mikið japl, jaml og fuður var ákveðið að halda á annan bar. Einhvern veginn fór það svo að ég týndi öllum sem ég kannaðist við, en það var allt í lagi, ég fann mér bara nýtt fólk til að tala við! Reyndar var það fólk búið að rabba alveg heillengi við mig á hollensku áður en það fattaði að ég væri nú bara hreint ekkert hollensk! Og svo fattaði það að ég hafði hreint ekki talað neina hollensku við það, en það eina sem ég hafði sagt við var "Hey, have you seen Swanni around?". Humm, kannski voru sumir dálítið í glasi...

En svo fann ég aftur kunnugleg andlit (já, mörg kunnugleg andlit, en engin nöfn, haha) og læsti hjólið mitt við nokkur önnur hjól. Beið síðan fyrir utan barinn heillengi með þýsku stelpunni, en flestir skiptinemarnir sem ætluðu á barinn komust hreinlega ekki inn, því í síðustu viku voru einhverjir skiptinemar sem stálu alveg skrilljón vínflöskum og svona af barnum... Einn gaur var meira að segja settur í fangelsi og alles! Staðurinn er nefnilega vaktaður með myndavélum í hverju horni...

En eftir smá stund komumst við þýska stelpan þó inn, eftir að hafa logið því að við tilheyrðum alls ekki skiptinemahópnum. Þegar inn var komið var stefnan rakleitt tekin á dansgólfið þar sem sumir misstu sig aðeins í tjúttinu og sumir voru óþyrmilega mikið farnir að dansa viðreynsludans við mig... En ég var nú ekki lengi að losa mig svo svoleiðis! Isspiss. Um þrjúleytið ákváðu háskólanemarnir þó að það væri tími til kominn að leggja leið sína heim að sofa, enda skóli daginn eftir og svona... Svo var ég knúsuð í kaf og boðið að mæta á barinn á hverjum einasta miðvikudegi, og síðan brunaði ég heim á hvíta flotta Peugot (pusjó) hjólinu mínu, made in France.

Nei vá, þetta var nú löng færsla! Sjálf nenni ég aldrei að lesa svona djammlanglokur hjá öðrum, en vil ég þó benda á að allt er merkilegt í útlöndum og er þetta því vel prenthæft að mínu mati... Hoho!

Og kannski ég bæti því við, að þegar Heiða, Egill og Rakel mætti í skólann í morgun sagði hver einn og einasti maður "HEY, I DANCED WITH YOUR AU-PAIR LAST NIGHT!!!".

Puss och kram älsklingarnir mínir, koss til vinstri, koss til hægri, koss til vinstri!
Anna the Au-pair

Engin ummæli: