Í gær fór ég í Liseberg að horfa á Ítalíu-Frakkland. Ég hélt með Frakklandi, ó svei. Reyndar get ég ekki sagt að athygli mín hafi öll verið á boltanum, því í Liseberg hitti ég heilt handboltalið af 14 ára guttum frá Seltjarnarnesi (sem er absolut ekki í Reykjavík, ekki frekar en silungur væri fiskur) og höfðu þeir mikinn áhuga á að spjalla við mig og Finnana. Það var reyndar þrælgaman og skemmtum við okkur konunglega.
Juuso, ég og Venla í Liseberg
Dagurinn í dag fór síðan í hreingerningar af öllu tagi. Ég var heppin og fékk aðeins 10 herbergi í vinnunni á meðan allir hinir fengu 13. Lucky bastard :D En ég var nú samt svo góð og bauðst til að hjálpa öðrum þegar ég var búin með mín herbergi, money money!
Síðan kom ég heim og þreif eldhúsið. Afgangurinn af íbúðinni átti síðan að þrífast í kjölfarið, en ekkert varð úr því sökum þess að ég fann mér nýjan uppáhaldsstað: þvottahúsið! Já kæra fólk, í kvöld var þvottakvöldið mikla, og loksins, eftir að hafa gengið um nærbuxnalaus í tvo daga (já, það var ALLT SEM ÉG ÁTTI skítugt þar sem ég gleymdi helmingnum af mínum þvengjum heima á Fróni... Mamma?), þá á ég hreina sokka og hreint mínípils.
En já. Aftur að þvottahúsinu. Ég hékk þar í allt kvöld, því þvottamálin mín eru ekki neitt óskaplega einföld. Ó nei. Ég þurfti að setja í fjórar þvottavélar, og aðeins tvær vélar eru á staðnum. Þetta þurfti ég sem sagt að þvo: Eina hvíta vél með forþvotti, eina venjulega hvíta, eina dökka og eina rauða. Og sumt mátti fara í þurrkarann og annað ekki og var ég því upptekin við að sortera og skella sumu í þurrkarann og öðru í þurrkuskápinn. Eins sá ég einhverja furðulega maskínu þarna sem hafði engan sjáanlegan tilgang, en að sjálfsögðu þurfti ég samt að prófa hana. Þetta var sem sagt nokkurs konar rafmagnspressurúllujárn (svona eins og við notuðum heima fyrir laufabrauðið, remember! Bara okkar var handknúin...) og fannst mér óskaplega sniðugt að skella koddaverinu mínu í maskínuna og athuga hvort ég fengi það pressað til baka. Frá því er skemmst að segja að það kom krumpað og alveg ógeðslega rykugt til baka út úr þessari annars frábæru maskínu. Stórkostlegt. En þá var bara að dusta smá, og whola! Koddaverið var aftur orðið hreint ;)
En þetta þvottakvöld mitt var alls ekki leiðinlegt, því ég komst nefnilega að því að þvottahúsið bíður upp á ansi marga möguleika! Það er nefnilega frekar stórt og hljóðbært og fannst mér því vel við hæfi að syngja "Oops I did it again" með Britney Spears fullum hálsi (var með mp3 spilarann með mér) og taka nokkur vel valin dansspor við. Þegar ég var búin að öskra úr mér röddina, þá fór ég að æfa púmse (taekwondo). Reyndar er einn galli á gjöf Njarðar og hann er sá að það eru ansi stórir gluggar á þvottahúsinu... En pff, ef fólk vill ekki sjá aðra dansa eggjandi dans við Britney Spears lag, þá á það bara ekkert að vera að glápa inn um glugga... ;) (og nú kemur tvöfalt enter sem vill ekki virka)
Ég hef ekki oft á ævinni brotið glas, en í gær tókst mér að brjóta tvö. Annað vægast sagt SMASSAÐIST á ganginum á fjórðu hæð í vinnunni (það var ekki gaman að ryksuga það upp, oj) og hitt braut ég hérna heima voða pent. Það var sem sagt tunnburstaglasið hennar Venlu sem brotnaði mjög fallega og fundum við alla bitana nema einn. En við hljótum að finna hann næst þegar við förum í sturtu, hehh... (og nú kemur aftur tvöfalt enter sem vill heldur ekki virka)
Og já. Lappirnar á mér eru allar útbitnar af einhverjum ljótum skordýrum, sennilega einhversskonar flóm. Ljótt er það! Og mig klæjar. Og þetta er ekki fallegt, það mætti halda að ég væri með sárasótt eða eitthvað þaðan af verra, því þetta er stórt, rautt og upphleypt. Ég vorkenni sjálfri mér, en dettur þó ekki í hug að fara að ganga í síðbuxum bara til að forðast einhverjar flær! Pff. (tvöfalt enter)
En jæja, best að fara að sofa í hreina rúminu mínu svo ég sofni ekki í einhverju herberginu í vinnunni á morgun... Haha, það væri samt húmor í því!
Kærar kveðjur héðan úr Gautaborg, AnnaBjorkHaraldsdottir
Engin ummæli:
Skrifa ummæli