"Nej men hej mamma! Har du? Vilken affär? Nej vad fint![...]" Vodafone har blivit Telenor!
Hahahahaha... ég hlæ mig vitlausa í hvert skipti sem ég sé þessa auglýsingu, og samt hef ég séð hana svona sjö sinnum á dag síðustu fimm vikurnar. En það er að sjálfsögðu ekkert gaman fyrir ykkur að lesa hana, enda skiljið þið ekki hvernig aðstæðurnar eru, en næst þegar ég hitti ykkur skal ég útksýra þetta allt saman og segja ykkur með hvernig málrómi karlinn talar... Hahahaha...
Annars gerði ég mér margt til dundurs í dag. Ég fór m.a. í klippingu (engar dramatískar breytingar, bara stytta toppinn og laga stytturnar og svona) og sæti gaurinn sem klippti mig var ósköp næs. Þegar ég sagði honum frá því að ég væri að fara til Hollands, þá tók hann djúp andköf og spurði hvort ég gæti ekki tekið hann með. Í kjölfarið spurði hann síðan hvernig mér litist á sænsku strákana. Áhugaverðar samræður á þeim bænum!
Og síðan fór ég á fataráp, móður minni til mikillar gleði! Hún er nefnilega grínlaust búin að tala um það síðustu 5 árin eða svo að ég þurfi nú að fara að kaupa mér föt... En alltaf hef ég þráast við og heimtað að nota gamlar buxur af litla bróður mínum eða eitthvað ámóta praktískt.
En í dag keypti ég fullt af fötum. Satt best að segja missti ég mig algjörlega og keypti mér
- geggjaðan hvítan bol (hvítur með svörtum og gylltum stöfum og doppum framan á, nær niður fyrir rass, ermalaus með reimar á ermunum sem bundnar eru í nettar slaufur),
- hvítt gellubelti (hef aldrei átt gellubelti á allri minni ævi, þetta belti er hvítt og svona 7-8 cm þykkt og einhvern veginn fléttað svo það er ekki bara heilstykki),
- hvíta skó (svona töfflur með ballerínuböndum sem maður bindur upp leggina, ekkert smá flottir og óþægilegir skór),
- hvíta sokka (geggjaðir úr H&M með ballerínuböndum, mamma, svona eins og ég pantaði mér (og kom aldrei) nema bara með svona blúndumunstri allsstaðar)
- OG! TATATATA! FULLKOMINN BRJÓSTAHALDARA!!! Já, hann er svartur. Hann er push-up laus. Hann er með klikkað flott snið. Og svei mér þá, hann minnkar á mér brjóstin sem er aðal plúsinn :D:D:D Hann er meira að segja ekki í neinni stærð, hann er bara x-small og passar svo fullkomlega að ég hef bara ekki séð annað eins! Vúhú, núna á ég tvo brjóstahaldara...
Og já. Í þessu fatakasti mínu eyddi ég heilum 568 SEK sem samsvarar u.þ.b. 5700 IKR. Ég vona að ég fari ekki á hausinn. Haha. Djók.
Áðan var ég á tungumálanámskeiði. Það var gaman! Mig langar að verða tungumálakennari.
Planið fyrir morgundaginn? Vinna. Fara á tungumálanámskeið. Komast að því hvernig ég kemst í ódýrari kantinum frá Svíþjóð til Hollands. Fara í sturtu. Sofa.
Annars er allt frábært að frétta hér í Gautaborg! Vá, hvað lífið er yndislegt! Reyndar eru greinilega ekki allir að fíla þetta Nordjobbdæmi. Í júní kom ein stelpa frá Noregi. Hún entist einn dag og tók síðan fyrsta flug heim aftur til Noregs. Fyrir tveimur vikum síðan kom ein stelpa frá Danmörku. Hún entist líka einn dag, og tók síðan fyrsta flug aftur heim. Sem mér þykir reyndar mjög leitt, því hún skyldi dönskuna mína og ég ætlaði svoleiðis að nýta mér það og æfa það tungumál. Svo nú eru bara eftir 3 Íslendingar og nokkrir tugir af Finnum.
En já, lífið er frábært. 9 dagar í Köpenhamn baby, og sú ferð kostar 1000 SEK (10.000 IKR), allt innifalið! Allt þýðir lestarferðin báðar leiðir, fullt fæði (fyrir utan hádegismat tvo daga), Kaupmannahafnarpassi sem gefur frían aðgang í Tívolíið og fleira skemmtilegt, gisting og hvað veit ég. I'm in heaven!
Annars er nú planið að flytja til Danmerkur í febrúar... Ég meina, hvernig gæti ég annað? Danmörk er mitt stærsta áhugamál EVER! Ég meina, sumir elska að tefla og verða stórmeistarar. Aðrir hafa mikla tónlistarhæfileika (ekki það að ég hafi þá ekki líka hehe, en áhuginn greinilega ekki nægur til að gera eitthvað alvarlegt úr því) og verða konsertmeistarar eða hljómsveitarmeðlimir, sumir helga lífi sínu taekwondo og aðrir verða eins og David Attenborough... En ég, ég elska Danmörku. Og þá ætla ég að verða dönsk, vúhú :D Eða já, "dönsk", ég verð að sjálfsögðu alltaf Íslendingur í hug og hjarta, en það er allt í lagi að vera smá dönsk líka ;)
Jæja, nóg af blaðri í kvöld, ég er farin að sofa! Góða nótt rúsínur, Anna den danske
Engin ummæli:
Skrifa ummæli