Ég er orðin ansi góð í að hugsa á þremur til fjórum tungumálum í einu (sænsku, ensku, íslensku og jafnvel dönsku).
En stundum get ég farið algjörlega út í öfgar í þessari snilld minni og farið aðeins fram úr sjálfri mér. Eins og t.d. í morgun.
Ég var uppi á 14. hæð að þrífa hótelherbergi. Í næsta herbergi við mig var Tero, Finni sem talar ekki sænsku, á fullum gangi með að þrífa hótelherbergi. Til þess að þrífa baðherbergin notum við venjulega gula svampa. Allt í einu tók ég eftir að ég var með tvo svampa í þrífingarfötunni minni, þrátt fyrir að hafa bara tekið einn með mér um morguninn, og gekk ég því inn til Teros og var næstum því búin að spyrja: "Is this mushroom yours?"
Já, kæra fólk! Þessa setningu bjó ég til í algjöru hugsunarleysi, og sem betur fer æfði ég hana rétt áður en ég ætlaði að segja hana.
Fyrir þá sem ekki skilja af hverju ég var næstum búin að kalla svampinn svepp, þá er sagan sú að "svamp" á bæði dönsku og sænsku þýðir "sveppur" ("svamp" þýðir reyndar líka svampur á sænsku). Og því beinþýddi ég "Är den här svamp din?" sem "Is this mushroom yours?".Og í dag ætlaði ég á bóksafnið (sjá mynd hér til hliðar), sem lokaði að sjálfsögðu klukkan fimm. Bömmer! En ég fer þá bara á mánudaginn (lokað á sunnudögum). Annars er planið að liggja í sólbaði á mánudaginn og þriðjudaginn, aðeins að lífga brúnkuna við aftur. Hins vegar nenni ég ekki að fara í Saltholmen (ströndina) til þess, enda tekur það 40 mínútur að fara þangað með sporvagni. Held því að ég skelli mér bara í Kungsparken í staðinn. En þá er spurningin: Er nekt bönnuð á almannafæri hér í Svíaveldi? Því mér dettur að sjálfsögðu ekki í hug að vera í neinu sem hylur efripartinn, langar nefnilega ekkert sérstaklega til að fá bikinífarið aftur (sem hvarf blessunarlega um daginn í öllum sólböðunum mínum í Slatholmen). Ha ha, mikið held ég að foreldrar mínir myndu hlægja í mörg ár ef ég hringdi í þá og segði: "Hey hæ! Heyrðu, ég var tekin föst fyrir nekt á almannafæri... nennið þið nokkuð að redda mér?".
Þessi var ekki tekinn fastur fyrir nekt á almannafæri
Annars er nú fátt að frétta. Ég er svo gott sem búin að plana ferðina mína til Hollands, ódýra og þægilega, þarf bara aðeins að ræða við gellurnar á Aðalbrautarstöðinni hér í Svíþjóð og tékka á hvenær dags farnar eru lestarferðir frá Amsterdam til 's-Hertogenbosch. Flugmiðann ætla ég að panta á mánudaginn. Vúhú :D
Í kvöld á ég síðan að vera stödd einhversstaðar í bænum með öðru góðu fólki, en sökum mikillar þreytu og vinnu í fyrramálið ætla ég að vera félagsskítur og hanga heima með góðvini mínum honum Imbakassa. Jahú.
Bið að heilsa öllum, knús og kram, Anna Be (já, ég heiti Anna Be í vinnunni)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli