Í dag var ég búin í vinnunni klukkan tvö vegna þess að margir gestanna voru sofandi og ég gat ekkert gert. Sweet! Hins vegar held ég að það sé klárt mál að ég ríði ekki feitum hesti peningalega séð eftir sumarið... En mér er samt eiginlega alveg sama, því ég þarf náttúrulega ekkert að safna fyrir skóla eða einhverju slíku, og finnst mér því tilvalið að njóta þess að vera til í staðinn :)
Í dag stendur mælirinn í 27,7 gráðum og í stað þess að njóta sólarinnar ætla ég að njóta tölvunnar minnar. Neinei, ég er ekkert búin að missa vitið. En hins vegar er staðreyndin sú að ég ætla annað hvort á ströndina á morgun ("ströndin" samanstendur af klöppum og engum sandi) eða í einhvern listigarð og liggja í sólinni allan daginn með Britney Spears í eyrunum og nesti í hönd. Og þar sem ég er með frekar viðkvæma húð, þá er ég nokkuð viss um að ég þoli ekki sólbað í marga daga í röð, og því ætla ég að halda mig að mestu leyti innandyra í dag.
Og já, þið heyrðuð rétt. Britney Spears! En ég meina, halló! Ég hlusta/horfi á MTV allan daginn í vinnunni og er þetta sjálfkrafa afleiðing þess. Ég á t.d. ansi bágt með að grípa mér ekki klósettrúllu í hönd (hljóðneminn, þið skiljið) og dansa og syngja "Oops I did it again" eins hátt og ég get fyrir framan stóru speglana í herbergjunum. Mig grunar nefnilega að einhver gestanna myndi kvarta.
Hey, í dag í fjórði júlí. Sem þýðir að akkúrat í dag lenti ég í Gautaborg fyrir fjórum tímum síðan fyrir akkúrat mánuði síðan. Með öðrum orðum: ÉG ER BÚIN AÐ VERA HÉR Í HEILAN MÁNUÐ!!! Heill mánuður bara fokinn út í buskann! Og án þess að ég tæki eftir því! Ó svei. Og ég er ekki búin að koma neinu í verk! Ég er t.d. ekki búin að kaupa mér push-up-lausan brjóstahaldara í stærð 70A (þó úir allt og grúir hér af þeim, annað en heima á Fróni!), ég er ekkert búin að fara út að skokka, ég er ekki einu sinni búin að tékka á verðinu á lestarferðum til Osló, ég er ekkert búin að fara í heimsfrægan listigarð með 3000 tegundum af rósum sem er hérna hinum megin við götuna, ég er ekkert búin að kaupa mér föt (fyrir utan eina peysu, eitt pils og einn bol... og fyrir ykkur sem ekki vissuð, þá átti ég engin föt fyrir... ein að missa sig í kaupæðinu, ha?) og ég hef barasta ekki gert nokkurn skapaðan hlut!
Hins vegar er það klárt mál að ef ég væri heima á Fróni, þá væri ennþá tuttugasti júní og ég væri ALLTAF í vinnunni, skituhvít af sólarleysi! Ha ha.
Og já. Hún móðir mín er himinlifandi yfir að ég skuli loksins vera farin að taka smá lit. Hún var nefnilega farin að örvænta að ég yrði yfirhöfuð brún! En svei, það eina sem þurfti til var smá sól og útlönd :P
Hvað fleira? Jújú, 17 dagar í Köbenhavn baby :D Vá, hvað ég hlakka viðbjóðslega mikið til! Ég held reyndar að það standi til að eyða hluta af þeirri helgi með öðrum Núrjobburum sem vinna í Köben baby, en mér dettur eiginlega ekki í hug að eyða mínum tíma í svoleiðis rugl! Pff nei, ég ætla sko að ganga um og njóta lífsins og snakka dönsku (sem er gjörsamlega eyðilögð núna vegna sænskunnar)! Reyndar er hálffurðulegt að vera að fara til útlanda þegar maður sjálfur býr í útlöndum... Ef ég væri heima á Fróni væri ég löngu búin að gera foreldra mína geðbilaða því ég hlakkaði svo mikið til. Og þó, þau höndluðu mig og mína tilhlökkun fyrir Sverige baby með stakri prýði, en Svíþjóð er auðvitað ekki Danmörk svo það er ekkert skrítið þótt ég hafi verið temmilega hófsöm í tilhlökkuninni fyrir Svíþjóð (sem var þó brjálæðislega mikil). Eða já. Þið skiljið.
Veckoträff (vikulegur fundur Núrjobbaranna í Gautaborg) er í kvöld og ég nenni engan veginn. Reyndar verður finnskt þemakvöld, en þar sem að hér í bæ eru aðeins fjórir Núrjobbarar sem ekki eru frá Finnlandi, þá hefur metnaður Finnanna í að finna eitthvað að gera á þessu þemakvöldi ekki verið nema svona tveggja fiska virði. Eða með öðrum orðum: Þau hafa ekki planað neitt. Og þó, kannski maður skelli sér og dragi síðan einhverja með sér á kaffihús :) Já, ég held að það sé málið.
Jæja, best að tékka á hvort að það finnist ætur matarbiti hér á heimilinu... annars lýsi ég yfir hungursneið því ég nenni ekki út í búð!
Knús og kossar, Anna Björk
þriðjudagur, júlí 04, 2006
Hún öskra, ég glápa!
...sagði
Anna Bj.
-
þriðjudagur, júlí 04, 2006
Flokkur: Sverige
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli