Garg, ég er með bit á bingóvöðva vinstri handar, hægra augnlokinu, þumalfingri hægri handar og á vinstra brjóstinu. Bara svo þið vitið. Gefum okkur 3 sekúndur í að vorkenna mér, byrja núna.
Takktakk. Já, hér í Hollandi eru pínulitar flugur á sveimi sem bíta. Ég hef reyndar aldrei séð þessar flugur, en efast svo sannarlega ekki um tilvist þeirra. Einhver ráðlagði mér að leita vel og vandlega í herberginu áður en ég fer að sofa og drepa þær allar, en þar sem ég á það til að vera svolítið löt, þá nenni ég því ekki. Ég hef tvisvar sinnum lent í því að elta risastórar hlussuflugur upp um alla veggi rétt fyrir svefninn og dúndra í þær skónum mínum (og vekja alla í húsinu í leiðinni, eða svona næstum því) og miðað við hvursu pirruð ég varð af þeirri iðju, þá ætla ég ekki að leggja geðheilsu mína í hættu við leit að ósýnilegum flugum. Svo hlýtur nú bráðlega að kólna aðeins í veðri, og þá drepast þær... Vetur, hvar ertu?
Já, veðrið hérna er alveg hreint ótrúlegt. Ég lenti á löngu spjalli í dag við konuna í föndurbúðinni um þetta mál og sagði hún þetta haust vera algjört einsdæmi hvað góðviðri varðar. Tjah, það er náttúrulega ekkert eðlilegt að 30. september sé ennþá 24 stiga hiti og sól! Svo segja má að ég hafi tæplega farið í síðbuxur í heila 4 mánuði! Gúlp.
Svo er nú planið fyrir október að finna mér líkamsræktarstöð og sundlaug og hrista spikið örlítið, ekki veitir af. Hmm, planið var nú reyndar að halda áfram í taekwondo, en þar sem klúbburinn vill ekki svara ímeilinu mínu, þá, tjah, er nokkuð augljóst að ég get ekki mætt á æfingu. Þannig að nú verð ég að finna mér einhversstaðar eróbik eða einhverja svona skemmtilega hóptíma, því ég veit af gamalli reynslu að sjálfsagi minn á hlaupabrettinu er nákvæmlega enginn. Ég get vel farið út að skokka í náttúrunni og sprett vel úr spori þar, en mér finnst líkamsræktarstöðvar bara svo ferlega niðurdrepandi að ég stend frekar og bora í nefið heldur en að taka vel á því í öllum tækjunum. Því er ég að vona að eróbik sé eitthvað fyrir mig, allavega fannst mér eróbikspólan sem var til heima á Grænavatni í gamla daga ekkert leiðinleg sko... Og sagði ég virkilega "í gamla daga"?
Annars minni ég á að í dag er síðasti dagur septembermánaðar (ap jún sept nóv þrjátíu hver), og fer því hver að verða síðastur í að láta til sín taka í kommentakeppni mánaðarins. Koma svo!
Jæja, best að fara og gera eitthvað ógáfulegt. Ástarkveðjur, Anna van Bosch.
laugardagur, september 30, 2006
Strax aftur kominn laugardagur, gúlp!
...sagði
Anna Bj.
-
laugardagur, september 30, 2006
Flokkur: Holland
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli