miðvikudagur, september 20, 2006

Jibbí jei!

Í gær fór ég í bæinn og kom, sá og sigraði. Ég FANN íþróttatopp!!! Reyndar var hann skítugur (meik eftir einhverja stelpuskjátu) en ég fékk á hann þvottaábyrgð sem þýðir að ég má skila honum ef það fer ekki úr í þvotti. Reyndar stórefast ég um að ég myndi skila honum, ég hef nefnilega engan sérstakan áhuga á að stofna geðheilsu minni aftur í hættu. Eins hef ég ekki lengur fordóma gagnvart Hollendingum. Þeir eru vænstu grey.

Annars gerði ég nú líka góða ferð í bæinn í dag. Já, ég keypti mér skó! Það tók ekki nema 4 klukkutíma að finna skó sem hægt er að skokka í (sem sagt mjúkbotna) og á viðráðanlegu verði. Ég giska samt á að það séu cirka 20-30 skóbúðir í miðbænum (og ábyggilega gott betur en það, grínlaust! Ætla að telja þær einhvern daginn...) og flestar eru jú á vel viðráðanlegu verði. En þær selja því miður ekki strigaskó, heldur bara stígvél og "venjulega" skó. Venjulegir skór eru "fínir skór" á mínum mælikvarða, maður fer ekki út að skokka í svoleiðis.

En þetta tókst. Og ég var svo dauðþreytt þegar ég kom heim eftir þessi ósköp að mér dettur ekki í hug að fara út og skokka einn hring í kringum vatnið. Geri það bara á morgun...

Svo þarf ég nú einhvern daginn að heimta trefilinn minn, sem hún Lilja gaf mér, úr helju. Með öðrum orðum: Ég þarf að hitta Spánverjann sem talar varla ensku og koma honum í skilning um að ég hafi gleymt treflinum heima hjá honum um daginn. (Neinei, ekki fara að ímynda ykkur neitt dónalegt!). Reyndar hitti ég Spánverjann í gær, en ég var að fara niður rúllutröppur og hann upp, svo ég taldi að þá væri ekki rétti tíminn til að garga á eftir honum "Hey, I forgot my scarf at your apartment!" svo það verður að bíða betri tíma.

Ég þarf svo endilega að fara að taka fleiri myndir til að sýna ykkur, þarf að sýna ykkur herbergið mitt og hjólið mitt og miðbæinn og brúnna yfir skurðinn sem fer alltaf upp þegar maður er að flýta sér og ýmislegt fleira. Stefni jafnvel á það verkefni núna á föstudaginn, en það verður 3 daga helgi hjá mér og ætla ég mér að reyna að koma einhverju gáfulegu í verk. Lofa samt engu.

Hafið það gott älsklingarnir mínir! Kærar kveðjur, Anna Björk

Engin ummæli: