mánudagur, september 18, 2006

Fatalufsur

Held ég skelli inn einni bloggfærslu svona á milli tungumála. Var að læra í spænsku403 og þarf núna að kíkja pínu á frönsku103 :)

Ég á ennþá mínar 50 evrur. Ég fór í bæinn á laugardaginn og keypti ekki neitt. Markmið dagsins var að kaupa mér íþróttatopp, en þegar slíkt fæst ekki í íþróttavöruverslunum, nærfataverslunum, almennum fatabúðum og búðum með blönduðu drasli (á reyndar eftir að leita í matvöruverslunum, en þar sem matvöruverslanir hér eru ekki með drasl líkt og Hagkaup, Nettó og Bónus þá er ég ekki bjartsýn), þá hreinlega veit ég ekki hvar ég á að leita. Neyðist sennilega á endanum til að kaupa þann EINA sem ég fann, en hann var því miður allt of allt of þröngur þrátt fyrir brjóstasmæð mína. Reyndar var brjóstmálið fínt, en hann er gerður fyrir eitthvað aðeins fíngerðari rifbein en mín, og þó eru mín ekkert huges. Held að Hollendingar ættu að skammast sín fyrir að stuðla að óþarfa sliti á brjóstum. En eitt er víst: Ég hreyfi mig ekki eitt hænufet fyrr en ég fæ íþróttatopp. Og hananú. Verð sennilega svona 10 kílóum þyngri þegar ég kem heim í jólafríinu, en það er óneitanlegra auðveldara í meðhöndlun en slit á brjóstum...

Já, biturleiki minn er mikill. Reyndar stórefast ég um að ég fengi slit af því að hoppa pínu um íþróttatoppalaus (eins og áður segir er ég blessunarlega brjóstasmá), en þar sem útlitsdýrkun mín er meiri en góðu hófi gegnir, þá tek ég að sjálfsögðu enga sénsa!

Eins ákvað ég að nú yrði ég að láta slag standa og kaupa mér stígvél og vera þar með komin einu skrefi nær því að breytast í gellu. En þegar ég var búin að máta hver ein og einustu stígvél í allri búðinni (sem er nú ekkert lítil), og ALLIR botnarnir voru harðir, nú eða það var hæll á stígvélunum sem stuðlaði að óþarfa sársaukafullu álagi á tábergið, þá hætti ég snarlega við. Ég skal svo sem láta mig hafa það að ganga í óþægilegum efripörtum og alltof þröngum buxum, en óþægilega skó skal ég aldrei nota á djammið. Hrmpf.

Núnú, fyrst ég fann engan íþróttatopp og engin mjúkbotna stígvél, þá ákvað ég að eyða mínum 50 evrum bara í einhverja bölvaða vitleysu, enda búin að lofa móður minni því að eyða þeim öllum í föt og fara ekki aftur heim í Geldersedam fyrr en því verkefni væri lokið. En svei, ég er bara svo nísk að ég tími ekki peningunum mínum í einhver gelluföt, þegar ég á eitthvað af þeim fyrir! Eins tímdi ég ekki að kaupa mér sokka (vantar eiginlega sokka en frekar tilgangslaust að kaupa fleiri þegar maður á nokkur pör fyrir), g-strengi (vantar eiginlega fleiri en frekar tilgangslaust að kaupa fleiri þegar ég á slatta fyrir) og hlíraboli (því ég á nokkra fyrir).

En sjá, ég er eiginlega alveg guðslifandi fegin að ég eyddi þessum 50 evrum mínum ekki í sokka, g-strengi og hlíraboli! Því ég fór nefnilega heim og í þunglyndiskasti mínu fór að ég vafra um á netinu, og vitið þið hvað! Ég rakst á bestu grein allra tíma (að mínu mati allavega) sem segir manni allt um það hvernig maður á að búa til hinn fullkomna "grunnfataskáp", eða "basisgarderob" (greinin er á dönsku). Þessi grein er ætluð þeim sem eiga aldrei neitt til að fara í á mánudagsmorgnum þrátt fyrir að kaupa býsnin öll af fötum reglulega. Og þegar maður á svona grunnfataskáp, þá er ódýrara en allt að tolla í tískunni, því það eina sem þarf eru aukahlutir og svo kannski bolir og hálsklútar, og þá er maður svo svakalega móðins að það hálfa væri nóg! Svo nú er ég hætt að spandera mínum peningum í bölvaða vitleysu, ég er farin að búa til basisgarderob... Minn mun sennilega koma til með að kosta 40.000 þegar allt er komið í hann. Ég komst nefnilega að því að það er ekkert skrítið þótt ég eigi aldrei nein föt. Ég á nefnilega EKKERT sem er á þessum lista... vúps!

Og nei, ég ætla ekki setja linkinn að þessari grein hingað á netið. Þið getið sent mér e-mail ef þið viljið fá hann, skrifað það í komment hjá mér (ásamt e-maili), nú eða sent mér sms ;) Ég veit nefnilega ekki hvaða fólk kíkir hingað inn á síðuna (nema náttúrulega þeir sem kommenta) og ég vil nú ekkert að einhver Gunna úti í bæ njóti góðs af... nema náttúrulega að Gunna úti í bæ kommenti, þá er henni það guðvelkomið... ;)

En allavega, fyrir þá sem eru löngu búnir að gleyma um hvað þessi færsla er, þá á ég ekki ennþá íþróttatopp og stígvél, er nísk og hef séð ljósið. Merkilegra var það nú ekki.

Bið að heilsa ykkur öllum! Ástarkveðjur, Anna Björk

Engin ummæli: