miðvikudagur, september 13, 2006

Jag känner en bot...

Nei hættu nú alveg. Ég fer slíkum hamförum á þessu bloggi mínu að þið eruð eflaust í fullu starfi við að lesa þetta allt saman. Því ég geri að sjálfsögðu ráð fyrir að þið látið ekki eina einustu færslu framhjá ykkur fara, það væri nú synd og skömm.

Ég verð nú samt að segja ykkur eitt! Ég held ég sé nú aðeins meiri Svíi en ég vil vera láta. A.m.k. tekur mitt Svíahjarta allduglegan kipp í hvert sinn sem ég heyri "Boten Anna" spilað í búðunum hérna! Jii, ég vissi ekki að þetta væri svona agalega þekkt lag svona fyrir utan Svíþjóð og Danmörku! (Veit ekki hvernig vinsældum lagsins er háttað á Íslandi). En fyrir ykkur sem hafið ekki grænan grun um hvað í ósköpunum ég er að tala, þá getið þið kíkt hingað (virkar ekki í Opera), en hún Hrafnhildur Ýr sendi mér þennan link fyrir löngu síðan. Ég hélt reyndar að þessi þýðing á textanum myndi MURKA ÚR MÉR LÍFIÐ, en ég sem sænskumælandi veit hvursu fáránlega fyndið þetta er. En allavega, þetta lag er eitt af mínum uppáhaldslögum, þrátt fyrir að hafa fyrir löngu fengið ógeð á því (mistök að setja það í mp3 spilarann!) enda langbestu minningar sumarsins beintengdar þessu lagi... Sjæse hvað ég ég skemmti mér fáránlega vel í sumar :)

En kannski ég fari að tygja mig í háttinn, ef ég nenni að ganga upp stigana það er að segja. Herbergið mitt er nefnilega uppi á fjórðu hæð! Ég er reyndar á annarri hæð núna svo þetta er kannski engin órafjarlægð, en miðað við hvað ég er búin að borða mikið í dag þá er ég ansi þungstíg. Allavega ætla ég ekki að hlaupa upp eins og ég gerði í gær, því ég var nú farlama í lengri tíma eftir það tröpppuhlaup! Stigarnir hér í húsinu er nefnilega svona svakalega brattir að mér tókst að dúndra hnénu á mér í eina tröppuna, ótrúlegt en satt! Í gær var líka dagurinn sem ég skar mig allsvaðalega á brauðhnífnum og fékk flís úr hárburstanum mínum sem er nú annars úr plasti...

Nei nú er ég hætt. Ætla að vakna klukkan 8 í fyrramálið og drífa mig svo út í sólina með krakkana klukkan 9 eða svo. Spurning um að vera samt ekki í of flegnum bol þar sem nýjasta áhugamál þeirrar yngstu er að troða vallhumlum ofan í hálsmálið á mér... Og ég sem ætlaði nú bara að kenna henni að finna lyktina af blómunum...

Góða nótt og hagið ykkur skikkanlega, Anna Björk

Engin ummæli: