Ég lýsi yfir hungursneið á heimilinu. Ég er nefnilega farin í megrun og get þar af leiðandi ekki borðað snúða, óhóflegt magn af brauði eða skyndibitapitsur á 7 krónur úr Netto. Nei, ég er þess í stað búin að borða eintómt grænfóður í allan dag og verð hreinlega svangari (svengri? Er aðeins farin að ryðga...) með hverjum bitanum sem líður. Ó svei.
Ástæða megrunar? Jú, allt þetta spengilega íþróttafólk sem vappar hér út um allan bæ! EM byrjar á morgun og bærinn er orðinn pakkfullur af fólki. Og ég þarf að ganga fram hjá Ullevi (íþróttaleikvanginum) á hverjum degi til að komast í vinnuna. Einn kostur er reyndar við þetta allt saman og hann er sá að umferð hefur að mestu leyti verið stoppuð á þessu svæði (sem er annars heilmikið umferðarsvæði) og þarf ég því ekki að bíða eftir 5 grænum körlum á leiðinni, heldur get ég bara gengið beint yfir göturnar. Á leiðinni heim úr vinnunni í dag lenti ég hins vegar í stökustu vandræðum, þar sem einhverjir amatörar í 3 kílómetra skokki voru að hlaupa yfir á Ullevi-leikvanginn og hlupu þeir allir þvert yfir veginn sem ég þarf að komast yfir til að komast heim. Tafði þetta mig því um heilar 10 mínútur (en þá ákvað ég að láta slag standa og hljóp sem mest ég mátti yfir veginn til að enginn myndi klessa á mig) og var ég því komin heim klukkan hálffjögur í stað tuttugu mínútna yfir fjögur. Hrmpf.
Í gær átti ég hins vegar frí og gerði mér margt (ó)nytsamlegt til dundurs. Byrjaði á að vakna klukkan 7 og skellti í fjórar vélar eða svo. Á milli véla lagaði ég síðan til, og viti menn! Ég fann peninga! Já, ég fann heilar 540 sænskar krónur inn í einhverri bók sem ég á. Pening þennan hafði ég ætlað að eiga sem "varasjóð" fyrstu dagana hér úti, svona ef að debetkortið mitt skyldi klikka. Debetkortið klikkaði greinilega ekki. Og dreif ég mig því samstundis niður í bæ, svona áður en skynsemin næði yfirhöndinni, og fagnaði nýfundnu ríkidæmi mínu með því að eyða peningunum í eitthvað fallegt...
...kom síðan heim fjórum tímum síðar, dressuð í ný föt frá toppi til táar og með alls konar fylgihluti af öllum stærðum og gerðum. Og með eina vekjaraklukku. Já, það er ódýrt að kaupa föt í Gautaborg, jahú!
Já, nauðsynlegt var að kaupa vekjaraklukku, því síminn minn er ennþá alveg á síðasta snúningi. Hann yngist víst ekkert héðan í frá, blessaður ljúflingurinn. Ég lýsti því samt yfir í vor að mitt fyrsta verk þegar ég lenti í Gautaborg væri að kaupa mér nýjan síma. En hvað get ég gert? Mér finnst bara svo miklu miklu MIKLU skemmtilegra (og nytsamlegra) að kaupa mér föt og snyrtivörur og fylgihluti í stað þess að spandera peningunum í nýjan síma. Pff. Og síminn minn er meðal annars farinn að taka uppá því að taka ekki á móti smsum. Ó svei. En ég verð víst að una við það ástand að minnsta kosti fram að næsta launaseðli...
Og já. Í gær fór ég líka á bókasafnið og náði í hollenskutungumálanámskeiðið sem ég er búin að bíða eftir í tvær vikur. Eyddi síðan gærkvöldinu í að læra hollensku hægri vinstri. Þetta getur t.d. verið gott að kunna: "Een jongen en een vrouw in een boot." Einn strákur og ein frú í bát. Jájá. Og "een" berist fram sem "un". Bara svo þið vitið.
En ég má eiginlega ekki vera að þessu blaðri, ég ætla nefnilega að sauma smá út...
Hafið það gott og farið ykkur nú ekki að voða um helgina älsklingarnir mínir! Puss og kram, Anna Björk
laugardagur, ágúst 05, 2006
Svo svöng...
...sagði
Anna Bj.
-
laugardagur, ágúst 05, 2006
Flokkur: Sverige
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli