sunnudagur, ágúst 20, 2006

JESS JESS JESS!!!

JESS, ég er búin með síðasta daginn í vinnunni!

Ég ætlaði nú samt varla að komast í gegnum daginn. Sunnudagar eru alveg skelfilegir dagar, enda allir gestirnir að fara sem þýðir alþrif á öllum herbergjunum. Ó svei.

Síðustu 5 herbergin voru sérlega erfið, því þá fann ég virkilega hvernig öll vinnuþreyta sumarsins flæddi yfir mig: Endalaus hlaup fram og aftur um hótelgangana, þungir vagnar, rúmfataskiptingar á fleiri hundruð rúmum, stigahlaup þegar báðar lyfturnar voru í notkun, löng ganga í matsalinn, að þurfa að tala 2-4 tungumál á dag, þungir handklæðabunkar, að þurfa að ryksuga undan rúmunum, að þurfa að færa til húsgögn, að þurfa að bograst yfir baðkörunum, að þurfa að flýta sér óendanlega mikið, að leita að týndum hlutum s.s. baðsloppum og auka kaffibollum, að þurfa að eyða síðustu orkudropunum í að fylla á vagninn fyrir næsta dag...

Já, ég er alveg búin á því. Hef samt ekki fundið fyrir þessari þreytu fyrr en bara núna í dag, enda hefði ég ekki komist í gegnum sumarið hefði ég leyft mér að vorkenna sjálfri mér. Og margir á hótelinu hafa unnið við hótelherbergjaþrif í fleiri fleiri ár, hugsið ykkur!

En um Hotel Gothia Towers hef ég ekkert annað en gott að segja, öll vinnuaðstaða er til fyrirmyndar og yfirmennirnir síkátir, maturinn vandaður (bara verst hvað ég er matvönd) og andrúmsloftið létt og skemmtilegt. Þannig að ef fólk hefur áhuga á að hótelherbergjaþrifum, þá mæli ég með Turnunum.

Eins er ýmislegt sem hægt er að hlægja að, a.m.k. svona eftir á.

Stresstakkinn: Í lyftunum er takki, sem á að loka lyftudyrunum ef maður ýtir á hann. Það vita allir ósköp vel að þessi takki virkar ekki, en ef fólk er stressað, þá hann óspart notaður. Lyftudyrnar hlusta hins vegar ekki á skipanir af nokkru tagi og lokast þegar þeim sjálfum sýnist. Flottur takki!

Klósettdansinn hennar Hönnu: Við Nordjobbaranir vorum einu sinni að búa til dans með þrífingarhreyfingunum okkar. Hanna ákvað að búa til spor við klósettþrifin, en þau eru svona: Hægri hönd lyft upp í naflahæð og snúið í litla hringi (lárétt) á góðum hraða. Colgate-bros á meðan. Þetta dansspor var óspart notuð í sumar, þrátt fyrir að ég leggi ekki í vana minn að þrífa klósettin lárétt...

Óverdós á MTV: Það voru oft fjörugar umræður í hádeginu um myndböndin á MTV. Sérstaklega gerðum við mikið grín að Paris Hilton. Flott lag, en af hverju getur manneskjan ekki staðið kyrr?

Klaufaskapur: Vitlausubeinin voru alltaf á vitlausum stað þetta sumarið. Oftar en ekki kom fólk farlama niður í hádegismat, því það hafði rekið vitlausabeinið allhressilega í rúmstokk... Ég var líka flott á því einn daginn þegar ég var að flýta mér extra mikið. Jú, sjáið til, við vorum í stuttermaskyrtum í vinnunni. Ég var að strunsa út úr einu herberginu til að fara með glas fullt af einhverjum vökva fram í þrífingarvagninn, og vildi ekki betur til en svo að ég kræki hægri skyrtuerminni í hurðarhúninn á herberginu, hrasaði og ALLT innihald glassins sullaðist yfir skyrtuna mína... Einkar ánægjulegt!

Anna Ástralíubúi: Það ganga ennþá sögur þess efnis að ég sé frá Ástralíu... mér hreinlega tókst ekki að kveða þann orðróm niður, sama hvað ég reyndi!

Að ganga inn á nakið fólk: Sem betur fer gekk ég aldrei inn á fólk sem var alveg kviknakið, en ýmsir aðrir lentu þó í því. Fyndnasta innágangan mín var þó vafalaust þegar ég hafði bankað allhressilega á dyrnar á einu herberginu, því ég þóttist vita að það væri maður þar inni og vildi vita hvenær ég gæti komið og þrifið. Enginn kom til dyra og gekk ég því inn. Alltaf þegar ég kom inn í herbergi var mitt fyrsta verk að opna baðherbergisdyrnar, og rykti ég því allduglega í dyrnar og opnaði þær með látum (var eitthvað að flýta mér). Stendur þá ekki maðurinn þar inni og er að raka sig í rólegheitunum, vúps! Ég, algjörlega óviðbúin, gargaði upp fyrir mig: "URSÄKTA, JAG KOMMER TILLBAKA SENARE!!!" þrátt fyrir að vita mætavel að maðurinn var enskur og hljóp út. Ætlaði svo varla að þora að þrífa herbergið hans þegar hann loksins fór út úr því...

Jájá. En þetta hófst nú allt saman að lokum og ég táraðist næstum þegar ég þurfti að skila öllum mínum skrilljón lyklum. Ætlaði svo enganveginn að komast út úr hótelinu, enda lyklalaus með öllu, en tókst það þó með því að taka einhverja lyftu eitthvert og ganga síðan út um aðalinnganginn... Mér varð þá hugsað til þess að þetta var í bara annað skiptið sem ég kom þangað, en þangað hafði ég einmitt komið fyrsta daginn minn, allslaus og vitlaus með öllu og kunni ekki stakt orð í sænskri tungu. Í þetta skiptið gekk ég út, með tvö Toblerone að skilnaðargjöf, pró í hótelberbergjaþrifum og blaðrandi sænsku hægri vinstri :)

Þetta var sem sagt fín sumarvinna. En við skulum samt hafa það á hreinu að ég ætla að vinna mitt framtíðarstarf á skrifstofu. Ég nenni ekki svona púli ;)

Jæja, best að fara og læra hollensku! Það er ekki seinna vænna...

Ástarkveðjur älsklingarnir mínir :) Og ég þakka innlitið, það er gaman að sjá á fína fína teljaranum mínum hversu margir kíkja hingað :) Nú, og ef tölurnar á teljaranum skírast af því að það er alltaf sama fólkið sem kíkir hingað mörgum sinnum á dag, þá þakka ég kærlega fyrir forvitnina og hvet ykkur til að halda áfram uppteknum hætti :D Puss och kram, Anna Björk

Engin ummæli: