Í dag langaði mig allt í einu til þess að byrja í skóla í næstu viku. Ég meina, ég hef gert það á hverju einasta hausti í 13 ár, takk fyrir pent! Og alltaf hef ég hlakkað jafn mikið til!
Einmitt þess vegna sit ég núna og get ekki gert upp við mig: Hvort á að ég taka dönsku í fjarnámi frá VMA eða frönsku?
Danska
Kostir: Þarf svo sannarlega á upprifjun að halda, þar sem danskan mín er orðin óskaplega sænskublandin. Gæti líka verið skemmtilegt þar sem ég þarf að skila fullt af verkefnum og svona :) Og ekki má gleyma því að danska er mitt líf og yndi...
Gallar: Ég held að danskan mín jafni sig sjálfkrafa þegar ég fer til Danmerkur (því ég mun svo sannarlega flytja þangað einn daginn), enda mjög góður grunnur til staðar. Auk þess er ég búin að lesa aðra bókina sem á að lesa í DAN212 (áfanganum sem ég færi í), en það er Gule handsker sem ég las svoleiðis sundur og saman í DAN102 í MA... Ég get líka hreinlega reddað dönskunni minni sjálf með því að lesa danskar bækur, verð ábyggilega ekki lengi að ná þessu upp aftur! Fengi pottþétt 10 í áfanganum hvort sem er án þess að þurfa að hafa neitt fyrir því=tilgangslaust.
Franska
Kostir: Hefur alltaf langað til að læra frönsku, það er nefnilega enginn maður með mönnum nema hann kunni frönsku! En þegar ég ætlaði að byrja að læra frönsku í VMA, þá var hún ekki kennd lengur, takk fyrir pent! Spænskan hafði nefnilega tekið yfir frönskuna! (Og já, ég tók 3 áfanga í spænsku!).
Gallar: Að læra bæði frönsku og hollensku á sama tíma gæti orðið svolítið trikkí og ruglingslegt, eða hvað? Veit nú ekki heldur hvernig það verður að læra framburðinn í gegnum fjarnám, enda sýnist mér ekkert hlustunarefni fylgja námsefninu. En það skiptir kannski ekki svo miklu máli, ef maður lærir að lesa og skrifa, þá er ekki erfitt að læra framburðinn almennilega síðar meir :) Engin pressa á verkefnaskilum, því það er 100% lokapróf. Spurning hvort aðhaldið sé nógu gott með því móti?
En svei. Ég trúi ekki einu sinni að ég sé að pæla í þessu. Ég sem ætlaði ekki að koma nálægt neinu skólatengdu í að minnsta kosti ár! En ég sé það bara því miður ekki gerast, sorrí! Ég er strax komin með fráhvarfseinkenni því ég var ekki í neinu fjarnámi í sumar, og er eiginlega alveg miður mín út af því!
En haha, það eru eflaust margir að pæla: "Hvur fjandinn! Var hún ekki að útskrifast núna í vor á þremur árum með sprengdan einingafjölda?" (Og sem semídúx, þið munið! Já, mér finnst afskaplega mikilvægt að minna fólk á það svona af og til...).
En ég bara get ekki meira. Ég verð að fara í fjarnám. Ég sakna þess í raun alls ekki að fara í skólann sem slíkan, það er bara svo mikil stemning yfir því að sitja og læra heima! Er satt best að segja alveg óskaplega fegin því að vera ekki að fara í skóla í vetur... En langar samt til að læra heima ;)
Jæja, franska - danska, ef þið hafið einhverja skoðun á málinu, endilega látið vita :) Eins ef þið hafið einhverjar aðrar uppástungur að skemmtilegum áföngum, látið þá í ykkur heyra :)
Kærar kveðjur, hin skólasjúka Anna
þriðjudagur, ágúst 15, 2006
Jii minn eini!
...sagði
Anna Bj.
-
þriðjudagur, ágúst 15, 2006
Flokkur: Sverige
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli