miðvikudagur, ágúst 23, 2006

Ó svei

Klukkan er rétt tæplega tvö að nóttu til og mér er eigi svefns vant. Hefur það hugsanlega eitthvað með það að gera, að ég legg af stað til Hollands eftir svona 29 tíma.

Já, ég hlakka svo til að ég get ekki legið kyrr! Hélt að ég væri orðin alveg ofboðslega þreytt eftir lítinn svefn undanfarið (sem hefur einmitt orsakast af tilhlökkun) og fór því í bjartsýniskasti í rúmið um tólfleytið. Æ-æ. Og ég sem ætlaði svona eiginlega að vakna aftur klukkan fjögur til að gera allt sem ég þarf að gera. Æ-æ.

En eigi skal gráta Björn bónda heldur safna liði! Með öðrum orðum, nú get ég nýtt nóttina í eitthvað skynsamlegt, á borð við að læra meiri hollensku (ég er orðin algjör snillingur í því hrognamáli skal ég ykkur segja!) og kíkja einu sinni enn á flugmiðann minn, sem er ekki til á pappírsformi heldur bara sem viðhengi í tölvupóstinum mínum, og athuga hvort ég sé ekki alveg örugglega að fara út á fimmtudaginn en ekki í dag (miðvikudag)... Það væri nú ljóta klúðrið að ruglast á dögum!

Og áhyggjur líðandi stundar eru eftirfarandi:

- Að mér takist að missa af lestinni til Kaupmannahafnar. Veit nú reyndar ekki alveg hvernig það á að vera hægt...
- Að ég komi ekki öllu draslinu mínu ofan í ferðatöskurnar mínar. Þetta lítur vel út eins og er, en þó er alltaf eitthvað sem maður gleymdi að gera ráð fyrir og þá þarf að taka allt upp úr aftur og raða upp á nýtt... ojoj.
- Að ég verði eins og algjör asni með risastóru ferðatöskurnar mínar tvær (sem munu samtals vega um, tjah, meira en tuttugu kíló...), fartölvutöskuna, handfarangurstöskuna mína (sem er nú ekkert af minnstu gerðinni), myndavélatöskuna mína og stóra pokann með línuskautunum mínum í. Jii, hvar er hann Ingi minn núna?
- Að mér verði ekki hleypt um borð í vélina því ég á ekki miðann minn á pappírsformi, auk þess sem yfirleitt er gert ráð fyrir hjá SAS að sá sem borgi miðann ferðist með honum... Hmm, eitthvað þurfti ég að komast í kreditkortið hans pabba til að borga miðann (ég, eða réttara sagt hann, fær það samt allt endurgreitt seinna), vúps! Reyndar á þetta að reddast ef ég hef vegabréfið mitt (sem er by the way hvar?) og önnur skilríki með, en það er engu að treysta nú til dags!
- Að ég geti ekki borgað yfirvigtina mína því íslenska debetkortið mitt virki ekki á Kastrup. (Það á nú samt ekki að gerast, en hvað veit maður?). Hmm, hvort á ég að skilja stóru ferðatöskuna með fötunum í eða stóru ferðatöskuna með öllu snyrtidraslinu mínu í eftir?
- Að einhver steli draslinu mínu því ég verði svo þreytt vegna svefnleysis að ég taki ekki eftir þótt ein, tvær töskur hverfi...

Já, áhyggjum lokið. Því einhvern veginn held ég að þegar ég verð komin til Hollands, þá sé þetta leikur einn. Lestarmiðinn minn þar er nefnilega opinn, sem þýðir að ég hef tíma alveg til 11. október að koma mér um borð í lestina... hah! Reyndar gæti ég hugsanlega óvart farið úr á vitlausum stað, en það ætti nú samt ekki að gerast, því ég veit að lestarferðin tekur akkúrat einn klukkutíma og tvær mínútur... verð sem sagt með skeiðklukkuna tilbúna!

Nei, nú verð ég að fara að sofa! Ætla nefnilega að vakna klukkan fjögur sama hvað tautar og raular, læra smá meiri hollensku áður en ég skila disknum á bókasafnið, fara í sturtu, fara á pósthúsið, kaupa mér nesti fyrir ferðalagið, þvo þvott, klára að pakka, þrífa íbúðina, hitta Ylvu (sem kemur í bæinn spes á morgun til að hitta mig! Við vorum reyndar búnar að kveðjast og svona, en það er nú eiginlega alveg ómögulegt að hittast ekkert fyrr en ég veit ekki hvenær), þrífa meira og þrífa meira, blogga smá, taka óvart kæruleysiskast (ég get ekkert að því gert, það gerist bara), verða alveg ofboðslega stressuð því ég á enn eftir að þrífa svo mikið, hitta Ragnar (eiganda íbúðarinnar) sem ætlar að kíkja á íbúðina og athuga hvort hún sé nokkuð alvarlega skemmd (held að allt sé í heilu lagi, fyrir utan að ég held að eitt blómið sé dáið og ég braut einu sinni eitt glas...), blogga meira, fara að sofa.

Jæja, góða nótt! Ætla að skella Indjánadisknum mínum ferðageislaspilarann og hugsa um árnið (ár-nið, sem sagt nið í á) og sexí Indjána... Kærar kveðjur, Anna Björk

Engin ummæli: