fimmtudagur, ágúst 03, 2006

Lýsing á degi vinnandi Önnu

Vinnudagurinn í dag byrjaði ekkert spes. Ég var á tuttugustu hæð í West, sem sagt Sky herbergi með flóknum míníbar (tveir vodka, tvö whiskey, tvö vín í svörtum umbúðum, eitt rauðvín, eitt hvítvín, tvær kókakóla, einn appelsínu Schweppes, einn öðruvísi Schweppes, tveir bjórar, ein dós salthnetur, ein dós kasjúhnetur, ein dós nammi, eitt kolsýrt vatn, tvö lítil áfengisglös, tvö venjuleg glös og tvö rauðvínsglös), flóknu baðherbergisdóti (tvö sjampó, tvær hárnæringar, tvö bodylotion, tvö skópúss, tvær sturtuhúfur, tveir pakkar með eyrnapinnum og bómull, tvö saumasett og tvær sápur) og í hverju herbergi á að finna morgunsloppa og inniskó, flösku af "himnesku vatni" og tvö Toblerone.

Dagurinn byrjaði sem sagt á því að ég fann hvergi hreinar skúringarmoppur. Slæmt mál, en ég nennti nú ekki að gera vesen út af því og ákvað því að nota moppur frá því deginum áður og bleyta upp í þeim með vatni. Þess má geta að daginn áður fór ég á næstum hverja einustu hæð á þessu blessaða hóteli til að finna hreinar moppur og fann eina.

Og síðan fann ég enga morgunsloppa. Ég fór niður á hæð 19, því þeir eru yfirleitt þar. En þar voru engir sloppar. En ég nennti nú ekki að gera veður út af því, heldur tók þá ákvörðun að setja hreinlega enga sloppa inn í herbergin, ekki nennti ég nú að eyða hálfum vinnudeginum í að leita að slíku dóti.

Og svo ætlaði ég að byrja að þrífa og bankaði voða pent á eitt herbergið. Enginn kom til dyra svo ég stakk lyklakortinu í kortaraufina, en ekkert gerðist. Ég prófaði næstu dyr, og ekkert gerðist. Þá tók ég eftir því að ég hafði fengið vitlausan lykil, svo ég var tilneydd til að fara alla leið niður á hæð núll og fá nýjan lykil.

Og fyrst ég var komin niður á annað borð, þá spurði ég hvar ég fyndi hreinar moppur. Húsfrúrnar (yfirmenn mínir kallast húsfrúr) komu alveg af fjöllum því enginn hafði tilkynnt þeim um skort á moppum, svo þær sögðu mér að fara á hæð 15, kannski væru einhverjar til þar. Ég spurði líka hvar ég fyndi morgunsloppana. Aftur komu þær af fjöllum, því enginn hafði tilkynnt um skort á morgunsloppum, en þær sögðu mér að fara á hæð 18 og tékka hvort ég fyndi einhverja þar.

Frá því er skemmst að segja að engar moppur voru á hæð 15 og engir morgunsloppar á hæð 18.

En allt þetta flakk tafði mig svo mikið að klukkan hálf ellefu var ég búin með eitt herbergi í stað þriggja og sá fram á að vera föst í vinnunni fram að jólum.

En þá ákváðu einhverjar elskur í tveimur herbergjum að vera sofandi í allan dag svo ég þurfti ekkert að þrífa herbergin þeirra og var búin með öll þrif klukkan fjögur, jahú! Og þá átti ég reyndar eftir að fylla á vagninn sem tók nú sinn tíma, sérstaklega þar sem ég fann þetta fína fína slúðurblað í ruslinu í einu herberginu sem ég þurfti að sjálfsögðu að lesa... tók það nú reyndar með mér heim til að geta lesið það ennþá betur!

En í vinnunni var ég búin klukkan fimm mínútur í fimm, svo dagurinn var nú ekkert svo slæmur eftir allt sem á undan var gengið.

Þetta var nú aldeilis skemmtileg saga.

Á morgun er ég svo í fríi en ætla að vakna klukkan sjö til að þvo þvott. Ó þetta líf!

En jæja, ég ætlaði að segja frá mörgu fleiri í dag, en ég veit ekki alveg hvað lesendur mínir höndla langar færslur, svo ég læt það bíða í bili. Kannski ég bloggi aftur í kvöld?

Ástarkveðjur úr rigningunni, Anna Björk

Engin ummæli: