sunnudagur, desember 03, 2006

I'm in love with Holland

Já, það er alltaf eitthvað um að vera hjá manni hér í Hollandi.

Í gærkvöldi var ég í mínum mestu rólegheitum að taka mig til fyrir djamm og svona, og allt í einu heyri hina íbúa hússins tala um gas og gaslykt. Ég fór að sjálfsögðu fram til þess að tékka á því um hvað málið snérist, og þá var komin þessi svakalega gaslykt komin í húsið! Við að sjálfsögðum gerðum hið eina rétta í málinu, dúðuðum okkur og fórum út, hringdum í eigandann sem hringdi í gashjálparfyrirtæki og við létum einn nágranna okkar fara inn og athuga hvort hann finndi upptök gaslekans, en hann fann ekkert frekar en við. Við reyndum þá að hringja dyrabjöllunni frá öðrum nágranna okkar sem býr akkúrat undir íbúðinni okkar, en enginn svaraði. En seinna sáum við konuna samt í gegnum glugga og bönkuðum eins og óð værum á gluggann, enda algjör óþarfi að láta fólk springa í loft upp vegna gasleka. Og sjá, þegar kellan loksins kom út, þá tjáði hún okkur það að hún væri nú bara að prófa nýja fondú-pottinn sinn sem gengi fyrir gasi! Og þar sem að gas leitar upp, þá fór það allt saman upp til okkar í gegnum holur sem er á veggjunum... Þannig að við afpöntuðum gashjálparfólkið og fórum upp aftur. Þetta kostaði nú samt nokkur hjartaslög.

En allavega. Mér tókst að mæta tímanlega á djammið í þetta skiptið, nánar tiltekið klukkan rétt tæplega tíu!!! Nei, ég er ekki að ljúga. Fyrst lá leiðin á skíðabarinn, sem heitir nú reyndar Þrjár systur, þar sem við skelltum okkur á barinn. Mér fannst ég nú samt vera svolítið undarleg í hausnum og hélt að gasið fyrr um kvöldið hefði haft einhver áhrif. Eftir að ég var búin með hálfan bjór fór mig að svima og skyldi ekki af hverju, hélt kannski að ég hefði skyndilega breyst í algjöran hænuhaus og væri orðin full af hálfum bjór!!! Hahaha. Og síðan fór barborðið að hringsnúast fyrir augunum á mér. Ég var komin á fremsta hlunn með að fara bara heim, það gengi ekki að vera svona á djamminu. En loksins fattaði ég þetta! Það var þá raunverulega barborðið sem snérist í hringi!!! En barþjónninn sem stóð inni í miðjunni á barnum hreyfðist ekki neitt! Mér fannst þetta nú frekar furðulegt allt saman, og það sem ég skyldi engan veginn var hvernig ég færi eiginlega að því að fylgja bjórnum mínum á borðinu eftir án þess að taka eftir því að ég væri eitthvað að labba á eftir honum! Ég vakti til máls á þessu við Hollendingana sem voru með mér, en þeir hlógu og bentu mér á að horfa niður fyrir lappirnar á mér, haha, þá hreyfðumst við með borðinu því við stóðum á risastórum snúningsdiski! Ég hef nú bara aldrei séð þetta né heyrt áður.

En allavega. Eftir að hafa staðið þarna um stund og snúist, þá ákváðum við að fara á Lalalaa sem er dálítinn spöl frá skíðabarnum. Og þar sem að jakkarnir okkar voru allir saman í geymslu, þá fórum við út í kuldann á bolunum. Oj bara, hvað það var kalt. Eftirfarandi samtal átti sér stað:

Anna: It's sooooo cold outside!!! Why don't we run?
Hollendingarnir allir í kór: BWAHAHAHAHAHA!!! Run??? Where are you from??? People don't run when they go out!!!

Þannig að við hlupum ekki.

Við vorum mætt á Lalala um ellefu-leytið, og var staðurinn alveg gjörsamlega troðinn. Já, ég sagði klukkan ellefu!!! Við skelltum okkur að sjálfsögðu á gólfið og dönsuðum eins og við áttum lífið að leysa. En vá, fólk var alltaf að sulla áfengi út um allt, því fólk sest að sjálfsögðu ekki niður á meðan það fær sér í glas, nei, Hollendingar eru svo miklar dansfríkur að það hálfa væri hellingur. Ég fékk meðal annars minnst 10 bjórgusur á ökklana á mér, eina stóra á bringuna á mér og aðra álíka stór á bakið á mér... Oj bara.

En já, ég var komin heim um þrjúleytið eftir að hafa farið á Ali Baba og horft á hina borða Kebab.

Allavega. Ég segi þetta nóg í bili. Og hver veit, kannski blogga ég næst frá Íslandi? Sjáum til :)
Ástarkveðjur og knús til ykkar allra, Anna van Bosch, Hollendingur í húð og hár :)

Engin ummæli: