sunnudagur, desember 31, 2006

Annáll 2006

Árið 2006 var viðburðarríkt með eindæmum.

Fátt man ég frá fyrri hluta ársins, en var ég þó upptekin allan sólarhringinn við lærdóm, taekwondoæfingar og hangs. Ég eignaðist nýjan meðleigjanda þegar hann Ingi ákvað að það væri gaman að búa með mér og flutti í HrafnaSex, með þeim samningum að hann fengi stærra herbergið og ég fengi afnot af bílnum hans. Í janúar tók ég appelsínugula beltið í taekwondo og í maí tók ég græna beltið. Mér tókst síðan að útskrifast sem semídúx frá VMA þann 20. maí, þar sem ég gjörsamlega rakaði að mér verðlaununum og stóð síðan í klukkutíma í allskonar myndatökum. Það fannst mér engan veginn leiðinlegt.

Svo var komið að stóru stundinni. Þann 4. júní flaug ég af landi brott og kom ekki heim aftur fyrr en eftir 6 mánuði og 1 dag. Hojhoj!

Fyrst lá leið mín til Svíþjóðar þar sem ég dvaldi í 2 mánuði og 20 daga. Ég bjó í miðbæ Gautaborgar og leigði íbúð með Venlu frá Finnlandi. Við urðum góðar vinkonur og húmorinn oft á tíðum að fara með okkur. En það er Venlu að kenna. Brandararnir renna áreynslulaust út úr henni. Allavega. Í Gautaborg vann ég á Hotel Gothia Towers sem städerska, öðru nafni cleaning-lady eða house-keeping.

Þetta sumar var algjört æði frá A-Ö. Ég lenti í mestu hitabylgju sem sést hefur á þessum slóðum í fleiri áratugi, sem lýsti sér einfaldlega þannig að það var 26-33 stiga hiti á hverjum einasta degi í allt sumar. Sem varð að sjálfsögðu til þess að ég sprangaði um á bikiníinu einum fata við hvert einasta tækifæri, og gilti þá litlu hvort ég var í tívolíinu Liseberg eða í almenningsgörðum. Og sjá, ég varð brún!

Ég var dugleg við það að taka mér frí frá vinnu (sem var mjög einfalt, bara krassa á eitthvað blað) og gera eitthvað skemmtilegt í staðinn. Ég fór oft í Kungsparken þar sem ég flatmagaði með góða bók, í Liseberg þar sem ég tók góðar sallíbunur í rússíbönunum, á kaffihús með hinum Nordjobburunum, í verslunarferðir í Nordstan (fremstu verslunarmiðstöð Skandinavíu skammt frá íbúðinni minni) og á ströndina í Saltholmen.

Ég fór í einsdagsferð til Óslóar, helgarferð til Kaupmannahafnar og einsdagsferð til Kaupmannahafnar. Af öllum ferðalögum þetta sumar stendur þó ferðin til Hunnebostrand á Vesturströnd Svíþjóðar mest upp úr. Hunnebostrand er paradís á jörð! Þar eyddi ég tveimur yndislegum dögum með fjölskyldu gaursins sem leigði mér íbúðina í Gautaborg. Ég ferðaðist um á spíttbát fjölskyldunnar, synti um í sjónum með sundgleraugu og öndunarpípu, kynntist fullt af fólki sem ég held ennþá sambandi við, lá á ströndinni, sat á sænskum skerjagarði og hlustaði á angurværa munnhörputónlist við sólsetrið og upplifði sænska drauminn eins og hann leggur sig. Verð ég fjölskyldunni alltaf þakklát fyrir að hafa boðið mér í heimsókn.

Fleira gerði ég þetta sumar. Ég tók virkan þátt í skipulagðri tómstundadagskrá Nordjobb, og fór meðal annars í bráðskemmtilega kanóferð þar sem ég synti í vatninu í blíðskaparveðri. Ég tók þátt í kräftskiva (sem er einhverskonar krabbadagur). Ég mætti alltaf galvösk í Slottskogen og spilaði “kubb” af miklum móð. Ég fór í heimsókn í norsku sjómannakirkjuna. Ég fór á söfn og í bátaskoðunarferð og naut lífsins í botn.

Ekki er hægt að telja upp allt sem ég gerði í sumar, en fleira má þó nefna. T.d. fór ég og heimsótti sænska vinkonu mína í Lerum, bæ rétt fyrir utan Gautaborg. Þar synti ég í ferskvatni og hélt á frosk. Ég fór í ýmsar skoðunarferðir á eigin spýtur um Gautaborg. Ég borðaði óhóflega mikið af snúðum á næstum því hverjum einasta degi. Ég fór á opnunarhátíð EM í frjálsum og var fremst af öllum í 100.000 manna þvögu.

Og síðan var sænska ævintýrið búið, og ég fór sem leið lá til s’Hertogen-bosch (Den Bosch) í Hollandi og passaði börn á milli þess sem ég naut Hollands sem mest ég mátti.

Ég fór í ófáar verslunarferðir í miðbæinn, hjólaði um, djammaði tvisvar sinnum í viku, lærði að spila póker, kynntist fullt af fólki, fór í vatnagarð, skokkaði á hverjum degi, fór í Gospel-messu og var næstum étin upp til agna af ofsatrúarfólki, braut nokkur hjörtu, fór loksins að íhuga að breytast í gellu, upplifði hitabylgjur og var árið 2006 heitasta árið í Hollandi síðan mælingar hófust ári 1706, lærði að lesa hollensku og margt margt fleira skrítið og skemmtilegt bar á góma.

Ég elska Holland.

6. desember hélt ég síðan heim á leið og hélt jólin heima á Grænavatni.

Já, viðburðarríkt ár að baki. Samt er undarlegt að þegar ég lít til baka, þá finnst mér eins og þetta hafi aldrei gerst. Mér finnst eiginlega eins og ég hafi aldrei farið neitt. Hugsa ég þó að sú tilfinning sé tilkomin af þeirri staðreynd að ég virkilega bjó þarna í útlöndum, ég var ekki bara í vikufríi. Þetta er kannski merki um það hversu vel mér tókst að aðlagast, og ég fékk aldrei heimþrá, ekki einu sinni pínulítinn vott. Ekki þó misskilja þessi orð mín, því það er vissulega gott að koma heim í jólafrí og hitti fjölskyldu og vini. En útlandabrölti mínu er hvergi nærri lokið, og nú bíður mín spennandi ár 2007 sem verður fullt af ævintýrum og upplifunum. Það er svo auðvelt að vera sjálfur sinnar gæfusmiður.

Ég þakka öllum lesendum mínum fyrir samfylgnina á árinu og vona að þið hafið haft gaman af. Óska ég ykkur öllum gleðilegs nýs árs!

Hamingju- og heillakveðjur, Anna Björk Haraldsdóttir

Engin ummæli: