þriðjudagur, janúar 02, 2007

København - PAS PÅ!!!

Jæja, flugmiðinn er keyptur! Ég flýg til Kaupmannahafnar frá Keflavík þann 15. janúar klukkan 7:15. Jíha!


Það er líka búið að bóka miðana hans pabba, sem ætlar að fljúga með mér út og passa að ég fái ekki of mikið panikkskast í flughöfninni. Hann ætlar sem sagt að vera 2 daga með mér í Kaupmannahöfn, sem er nú aldeilis ágætt því ég kann ekki sjitt á hvernig maður borgar í lestarnar og hvernig maður reddar sér leigubíl á Kastrup. En pabbi er nokkuð sjóaður í þessu öllu saman, og auk þess fær hann ferðina tæknilega séð frítt! Því sjáið til, ég er með svo mikla yfirvigt, að það kostar jafnmikið að borga miða fram og til baka fyrir pabba og það kostar fyrir mig að borga yfirvigtina eina og sér. Þannig að með því að taka hann með fæ ég auka 28 kíló, sem er akkúrat yfirvigtin sem ég hafði hugsað mér að taka með. Og þar sem hvert kíló af yfirvigt kostar um 1.000 ISK, þá er þetta einfalt reikningsdæmi, því flugið hans kostar um það bil 27.640 krónur. Plús það að ég fæ ókeypis burðarmann. Jahú!




Við pabbi í Kaupmannahöfn í sumar

Já, undirbúningur er hafinn af fullum krafti. Ég er vissulega örlítið taugaveikluð yfir þeirri staðreynd að ég get ekki sótt um vinnu fyrr en ég er komin út, og hef ég því setið sem fastast fyrir framan tölvuskjáinn í allan dag og kynnt mér hvernig maður skrifar danskar ferilskrár og umsóknarbréf. Auk þess kann ég núna að fara í atvinnuviðtal, og það er nú ekki lítið mál skal ég ykkur segja! Maður má t.d. ekki fá sér einn sjúss áður til þess að minnka stressið, því það gæti fundist á lytkinni. Ó boj. Og síðan er ég náttúrulega útlendingur, og hef satt best að segja ekki hugmynd um á hvaða stigi danskan mín er. Miðað við aðra Íslendinga er danskan mín á hæsta stigi. Miðað við Dani er hún að sjálfsögðu á allt öðru stigi. Ráða Danir útlendinga til vinnu?



Eins er ég byrjuð að pakka, og er þegar komin með hálfa ferðatösku. Já, nú er gaman að pakka, því samtals má ég hafa með mér 28+28 kíló, eða 56 kíló! Reyndar þarf pabbi kannski að hafa eitthvað smá dót líka, en iss...



Síðan er ég að sjálfsögðu í fullum gangi í að æfa dönskusnakkeríið! Ég á mörg djúp og grafalvarleg samtöl við sjálfa mig dag hvern um veðrið og sæta stráka. Þarf maður að kunna eitthvað meira?



Fyrir þá sem eitthvað vit hafa á Kaupmannahöfn, þá mun ég búa í Rødovre. Þaðan tekur 15 mínútur fyrir mig að fara í miðbæinn, en til þess þarf ég að taka bæði S-tog og Metro. Ég veit fátt um húsakynni mín, annað en að ég bý á fyrstu hæð í húsi hjá kalli sem er vel menntaður og hefur breytt fyrstu hæðinni í húsinu sínu í nokkur herbergi sem hann leigir síðan út. Herbergið sem ég verð í er 12 fermetrar og búið húsgögnum og ég hef að sjálfsögðu aðgang að eldhúsi, baðherbergi og þvottahúsi ásamt stað til þess að geyma hjól. Rétt fyrir utan húsið er garður sem tengist öðrum garði með litlu vatni og er þetta tilvalið fyrir þá sem vilja fara út að skokka.



Einnig er að ýmsu öðru að huga. Ég hugsa að ég kasti bunka af fötum í mömmu sem þarf aðeins að gera við (fötin alltså, ekki mömmu, og að sjálfsögðu mun ég biðja móður mína undurblítt um þennan greiða í stað þess að heimta líkt og setningin gæti gefið til kynna), og síðan á ég leið inn á Akureyri á föstudaginn að vesenast hingað og þangað í ýmsu sem gera þarf áður en ég fer af landi brott.



Síðan hef ég sökkt mér vel og vandlega í Kaupmannahafnarbókina mína til þess að læra sem mest um sögu svæðisins og Nikolaj og Julie eru góðir vinir mínir þessa dagana. Eins les ég danskar skáldsögur af miklum móð og skrifa langa pistla fyrir sjálfa mig á dönsku.

Ég verð allavega ekki illa undirbúin þegar allt kemur til alls.



Danmark, pas på, I'M ON MY WAY!!!



Venlig hilsen, Anna Björk

Engin ummæli: