Jæja liebe Leute,
Enn gengur allt vel í Danaveldi. Pabbi fór til Íslands í morgun og er ég því ein eftir. Ég ákvað að reyna að nota daginn í eitthvað skynsamlegt og hringdi því í KISS, dönskuskólann sem ég ætla í. Símatíminn var frá 11-13, en ég komst ekki að fyrr en rétt fyrir klukkan 13, mörgum krónum fátækari því ég þurfti að hringja svo oft og bíða og bíða.
Allavega, gellan sem ég talaði við í KISS spurði hvort ég gæti ekki komið í viðtal klukkan 14:30 í Nørrebrogade þar sem skólinn er. Ég bara "Eh, jújú" og stökk snarlega fram úr rúminu og hljóp út á lestarstöðina, meiköpplaus og með úfið hár og með gleraugun á nefinu. Ég get ekki ímyndað mér að ég hafi litið vel út, og stingur það í stúf við öll mín plön sem í stuttu máli sagt ganga út á að vera algjör gella við allar hugsanlegar kringumstæður.
En já, þarna hljóp ég og tók smá panikkskast með lestarkortið á lofti, hvurnig í ósköpunum átti ég eiginlega að koma mér á Nørrebrogade! En Anna snillingur reddar öllu og eftir allnokkur hlaup á brautarpöllunum á skiptistöðinni komst ég að lokum á leiðarenda. Eða já, "leiðarenda". Þegar ég steig út úr lestinni blasti við mér Nørrebrogade 230, og ég þurfti að fara í Nørrebrogade 32! Og þar sem ég hef nákvæmlega ekkert kynnt mér strætómál á svæðinu þorði ég ekki fyrir mitt litla líf að stökkva upp í næsta strætó, svo ég tók Íslendinginn á þetta og strunsaði sem mest ég mátti í u.þ.b. hálftíma. Já, þetta er engin smá gata, gott fólk!
En já, svo ég segi ykkur aðeins frá þessum skóla mínum, þá er þetta besti dönskuskólinn í Danmörku!!! Hvorki meira né minna! Hann er sá eini í Danmörku sem stenst ákveðna gæðastaðla og í honum er besta meðaleinkunnin í landinu. Í honum lærir maður námsefni fyrir 6 mánuði á aðeins 6 vikum og þetta er vinna vinna vinna. Ég þarf að mæta í skólann þrisvar sinnum í viku í þrjá og hálfan tíma í senn. Fyrir hvern einasta skóladag þarf ég að eyða minnst 3-4 klukkustundum í heimalærdóm.
Dönskuskólar í Danmörku skiptast í 6 þrep. Í öllum dönskuskólum er svo tekið viðtal við nemendurna og þeir settir á það þrep sem hæfir þeirra dönskugrunni hverju sinni. En ekki í KISS. Í KISS skiptir engu máli þótt þú sért búin að læra dönsku á Íslandi eða sért búinn að búa í þrjú ár í Danmörku. Í KISS eru nefnilega ALLIR settir á fyrsta þrepið þar sem byrjað er alveg frá grunni, og er það gert til þess að ná framburðinum alveg fullkomlega rétt. Enda gengur skólinn út á það að fólki náum fullkomnum tökum á dönskum framburði og tali eins og innfæddur og geti tekið þátt í öllum athöfnum daglegs lífs í Danmörku. Skilyrði þess að komast í skólann er að vera búinn með a.m.k. 12 ár í skóla (þannig að það er ekki nóg að vera bara búinn með grunnskóla) og maður verður að tala reiprennandi ensku. Ef maður missir tvisvar sinnum af tíma í þrepi þarf maður að taka allt þrepið aftur. Engin miskunn, sama hvaða afsökun maður hefur. Þetta er gert til þess að allir séu á sama róli svo allir geti fengið 100% kennslu út úr öllum þrepunum. Ef maður lærir ekki heima, þá er það sama og að hafa ekki mætt. Í hverjum einasta tíma er tékkað á því hvort nemendurnir hafi lært heima og er það gert með allskonar prófum og spurningum. Og jafnvel þótt maður mæti 100% og læri alltaf heima og nái prófinu í lok hvers þreps getur vel verið að maður þurfi að taka allt þrepið aftur, einfaldlega vegna þess að kennararnir vilja að maður hefði náð betri tökum á framburðinum eða einhverjum málfræðiatriðum
Það tekur 9 mánuði til eitt ár að fara í gegnum þennan skóla, og eftir það útskrifast maður með "studieprøve" (ef maður nær lokaprófinu) og fær skírteini upp á það að hafa lokið skólanum og þá eru manni allir vegir færir í hvaða háskóla sem er því studieprøven er viðurkenning upp á mjööög góða dönskukunnáttu.
Spennandi, ekki satt? :D Fyrsti skóladagurinn minn er 29. janúar, ég get ekki beðið!!!
Ég skráði mig í kvöldkúrsa frá 17:15 til 20:45 á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum. Sem þýðir að ég verð að finna mér vinnu sem er á morgnana. Sem er fínt, því ég myndi ALDREI nenna að vinna á kvöldin, oj bara.
Allavega, þá ætla ég að skella mér í rúmið núna, ég þarf að brasa allskonar á morgun og betra að vera nokkurn veginn með fulde fem!
Góða nótt älsklingarnir mínir, Anna Bjørk (já dönskukallinn skrifaði nafnið mitt svona í dag!).
miðvikudagur, janúar 17, 2007
Skal vi snakke dansk?
...sagði
Anna Bj.
-
miðvikudagur, janúar 17, 2007
Flokkur: Danmark
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli