Kæru hálsar og aðrir líkamspartar!
Hér sit ég í fyrirheitna landinu mínu í geggjað flotna herberginu mínu sem er með þrjúþúsund skápum. Ég er ekki að ýkja mikið með skápafjöldann. Allavega er ég með risastóran fataskáp sem er með fullt af hillum og herðatréshengiplássi og þremur risastórum skúffum. Svo er ég með einhverskonar tvöfalda hillusamstæðu með hillum og glerskápum og stórum lokuðum skápum. Yfir rúminu mínu eru fjögur stór hilluhólf inn í vegginn, hlið við hlið. Á einum stað er svo skápur/geymsla sem er tæplega einn fermetri í ummál og um 1,8 metri á hæð. Þar inni er hægt að geyma allt sem hugurinn girnist, auk þess sem þar er slá til þess að hengja herðatré á.
Rúmið mitt er 1,2 metri á breidd, sem er mun stærra en ég hafði vonast til. Ég er líka með heilan vegg þakinn stórum speglaflísum og sjónvarp sem er svolítið gengið til ára sinna. Allavega er það eitthvað bilað, því það er allt gult í því. Það er nokkuð skondið að sjá gula fréttamenn og Marge Simpson með gult hár... En í þessu fína fína sjónvarpi er samt fullt af sjónvarpsstöðum og allskonar fínerí. Sjónvarpið stendur á glerborði, og fyrir framan það er þessi fíni fíni leðurstóll. Ekki amalegt líf, onei. Að sjálfsögðu er ég með skrifborð með tveimur dásamlegum skúffum, og fyrir framan skrifborðið er korktafla sem er rúmlega fermetri að stærð! Dásamlegt.
Auk þess eru lampar og ljós út um allt og mjög auðvelt að gera kósí stemningu. Auk þess fylgir þvottakarfa, skrifborðsstóll, ruslakarfa og vatnsofn, sem þýðir það að ég má þurrka föt á honum! Já, þetta er ekki amalegt, það get ég sagt ykkur.
Reyndar er einn galli á gjöf Njarðar, og hann er sá að bæði eldhúsið og baðherbergið eru svo skítug, að mér (sem er ekki snyrtipinni) hefði ofboðið fyrir 9 vikum síðan. Ég hugsa að ég boði til húsfundar så snart som muligt með gaurunum tveimur sem búa í herbergjum hér einhversstaðar í húsinu og hafa aðgang að sama eldhúsi og baðherbergi og ég. Ég hef ekki hitt þá enn, en ég vona að þeir séu vænstu grey og vilji ekki fyrir nokkurn mun hafa það á samviskunni að ég bókstaflega deyi úr hungri því ég geti ekki hugsað mér að opna ísskápinn, hvað þá að nota "hreina" leirtauið. Ef þeir láta ekki til segjast, þá mun ég grínlaust flytja út eins fljótt og auðið er.
Og ég hef aðgang að þvottaaðstöðu, en má þó helst ekki þvo eina og eina flík í einu. Það eyðir svo miklu vatni. Held ég verði í alvöru talað að kaupa mér fleiri föt svo ég geti sett í allavega hálfa vél í hvert sinn...
En vegna þess að ég svaf bara í korter í nótt og 5 tíma nóttina þar áður, þá ætla ég að fara í rúmið núna, klukkan hálf ellefu að staðartíma, en hálf tíu á íslenskum tíma. Ég blogga aftur á morgun, ég er nefnilega með þetta yndislega internet í herberginu mínu. Myndir af herberginu koma síðar þegar ég er búin að ganga frá öllu dótinu.
Hej hej! Anna í Kaupinhavn
mánudagur, janúar 15, 2007
Danmörk Baby!
...sagði
Anna Bj.
-
mánudagur, janúar 15, 2007
Flokkur: Danmark
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli