þriðjudagur, janúar 16, 2007

Undskyld!

Goddag mine kære venner!

Ég er komin með lögheimili í Danmörku. Jahérnahér. Ég skellti mér á manntalsskrifstofuna í morgun og fékk mér danska kennitölu og þurfti þar af leiðandi að flytja lögheimilið mitt. Þetta tók aðeins 10 mínútur, og ég þurfti ekki að sanna það fyrir nokkrum manni með nokkrum hætti að ég virkilega byggi á Søndervigvej 47 og að ég væri hingað komin til þess að fá mér vinnu og þvíumlíkt. Nei, það eina sem gerðist var að vegabréfið mitt var ljósritað og ég þurfti að skrifa niður núverandi heimilisfang (Søndervigvej) og vúla! Málið var klárt og ég fékk kennitölu og heimilislækni upp í hendurnar. Jájá.

Annars hef ég það ósköp fínt, er farin að fatta lestarkerfið en þarf að læra á strætósamgöngur. Ég er búin að snakka dönsku villt og galið og skil flest það sem við mig er sagt, og sjá, flestir þykjast skilja mig!

Verkefni næstu daga eru þónokkur, ég ætla að skrá mig í dönskuskóla á morgun og helst kaupa danskt símanúmer líka (mælir einhver með einhverju símakerfi?). Síðan þarf ég að finna mér vinnu hið snarasta sem passar við tímatöflu dönskuskólans, er ekki of langt í burtu, krefst ekki of mikillar dönskukunnáttu, býður ekki upp á yfirvinnu af neinu tagi, er á skikkanlegum tíma sólarhrings og þarf starfsfólk eiginlega akkúrat núna. Að öðru leiti hef ég engar kröfur.

Ég bý á Søndervigvej í Vanløse sem er eiginlega í Rødovre. Hins vegar býður það upp á ýmis vandamál, þar sem ég hef lesið á öðrum bloggsíðum að það taki fólk allt upp undir ár að læra að bera fram orðið Rødovre! Æ-æ. En allavega, fyrstu kynni af götunni minni eru ljómandi fín. Þetta er mjög róleg íbúðargata með rólegu fjölskyldufólki og gömlum konum. Allt er mjög gamaldags og er gatan og gangstéttin mjög hlykkjótt og óslétt, ákaflega mikill smábæjarbragur á þessu. Ég er u.þ.b. 5 mínútur að ganga á næstu lestarstöð sem er rétt handan við horn götunnar. Þar má einnig finna hárgreiðslustofu, lágvöruverslunina Netto, uuunaðslegt bakarí (æ-æ, þurfti endilega að planta því þarna!), pitsustað og ýmislegt fleira sem ég hef ekki gefið mér tíma í að taka eftir.

Pabbi yfirgefur mig síðan á morgun, og þá tekur alvara lífsins við, með öðrum orðum: allasvaðalega window-shopping ferð! Ég gekk örlítið eftir Strikinu í dag, og ÚTSÖLUR eru í fullum gangi!!! Ó mæ gad! En ég ætla að halda aftur af mér fram að næsta launaseðli eða svo, nema þá að ég velji götuhornin... Neinei, ég hef fulla trú á að þetta reddist með einum hætti eða öðrum.

En jæja, best að halda vinnuflakkinu á internetinu áfram! Hilsen, Anna den danske

Engin ummæli: