laugardagur, desember 23, 2006

Ég fæ jólagjöf, búmm, jólajóla, jólajólagjöf, búmm, jólajóla

Jæja ástarpungar og aðrir pungar!

Dagurinn í dag hefur verið vægast sagt nokkuð þéttskipaður. Strictly Come Dancing búið, búhú. Síðan fórum við út í Reykjahlíð að heimsækja skyldmenni. Þegar heim var komið tók við jólagjafainnpökkun, en hún tók mettíma hjá okkur systkinunum í ár, við vorum ekki nema klukkutíma að þessu. Og akkúrat í þessum töluðu orðum sitja mútta og pápi í eldhúsinu og pakka inn í gríð og erg. Jájá. Allt við sama heygarðshornið.

Annars finnst mér blátt áfram hlægilegt að það séu að koma jól á morgun. Mér finnst ég ekki hafa verið lengur en eina viku í útlöndum, og nú sé tími til kominn að halda áfram þar sem frá var horfið og halda upp á gleðilegt sumarfrí. Mjög spes tilfinning get ég sagt ykkur. En ég er nú samt með smá svona jólafiðring, því er ekki að neita...

Og þar sem ég ætla ekki að eyða morgundeginum í tölvuhangs, heldur búa til súkkulaðimús og lesa hörkuspennandi skáldsögu á dönsku á milli Yatsi-spila, þá mun ég ekki blogga á morgun.

Óska ég því ykkur öllum, lesendum góðum, sama hvort um er að ræða fólk sem þekkir mig eða fólk sem þekkir mig alls ekki neitt, gleðilegra jóla.

Ástarkveðja, Anna a.k.a. snillingur í að dúlla pakka.


PS. Að dúlla pakka er vinsælt orðatiltæki hér á Grænavatni 1 þessi jólin, þar sem við mamma dúllum alla pakka sem við komum höndunum yfir. Dúlla pakka þýðir með öðrum orðum að skreyta pakka.

Engin ummæli: