sunnudagur, mars 04, 2007

Fastelavn er mit navn, boller vil jeg have

Góðan daginn ástarpungar og aðrir pungar!

Í morgun reis ég úr rekkju stundvíslega klukkan fimm, ég verð jú að halda svefnrútínunni í skorðum. Jájájá. Ég bið ykkur enn og aftur um að afsaka hve langt líður á milli færsla hjá mér, ég er bara svo ferlega tímabundin því það tekur svo langan tíma að ferðast til og frá vinnu. Ætla að fá mér nýja vinnu við fyrsta tækifæri.

Eins og kannski flestir vita, þá hafa miklar óeirðir verið hér í bænum frá því fimmtudaginn, en þá var Ungdómshúsið svokallaða rýmt. Voru því þónokkur átök milli lögreglu og ungmenna áNörrebrogade á fimmtudag og föstudag; Kantsteinar, bál, táragas, bensínsprengjur, þúsundir af aukalöggum, nokkur hundruð handteknir, brotist inn í skóla, veggjakrot, skemmdir, drykkja, kveikt í einkabílum... Og skólinn minn liggur á Nörrebrogade. Mætti ég þó galvösk í skólann á föstudagskvöldið og ætlaði aldeilis að verða vitni að smá átökum! Þurfa að hlaupa undan kantsteini, vera óvart tekin föst af flottum löggukalli og komast svo kannski á mynd á forsíðuna á MetroXpressen þar sem ég væri að hlaupa undan táragassprengju... En það gerist aldrei neitt svo spennandi í mínu lífi og það var allt í ljúfa löð þegar ég fór í skólann. Kennarinn fór á 10 mínútna fresti út í glugga til að athuga hvort það færu ekki alveg örugglega einhver átök að byrja, svo við gætum slúttað þessu og farið heim... Seinna kvöldið afþakkaði ég svo öll tvö djömmin sem mér var boðið á, því öllum fannst svakalega spennandi að sitja að sumbli öldurhúsum á Nörrebrogade, en ég vildi helst ekki lenda í neinum átökum um miðja nótt og fá kantstein í hausinn. Og sjá, seinna um kvöldið varð allt gjörsamlega brjálað í bænum og ég hefði sennilega ekki komist heim aftur fyrr en undir morgun hefði ég skellt mér á átakasvæðið.

Annars hef ég þungar áhyggjur af sjálfri mér þessa dagana. Ég er orðin svo húsmóðurleg! Ég svoleiðis þvæ þvott villt og galið, laga til á hverjum degi og í gærkvöldi bakaði ég vatnsdeigsbollur. Geri aðrir betur! Reyndar verð ég seint talin góð eldabuska. Ég er viss um að heimilsfræðikennararnir frá því í grunnskóla fá enn martraðir út af mér, því ég var svo hrikalega ósjálfstæði í eldhúsinu að ég vildi ekki einu sinni vigta hveitið, hvað þá að fylgjast með kökunni í ofninum! Einmitt þess vegna er ég svo ferlega góð í uppvaskinu enn þann dag í dag... En ég skellti sem sagt í bolludagsbollur í gær og var í beinni við mömmu allan tímann, Guð blessi gemsann. Reyndar var ofninn ekki alveg upp á tíu fiska, því það er enginn hitamælir á honum! Þannig að ég þurfti að gjöra svo vel og giska og skella síðan bollunum inn í óvissuna. Frá því er skemmst að segja að ég þurfti að hafa bollurnar inni í 45 mínútur í stað 20 mínútna, og voru þær afskaplega stökkar að utan og hálfhráar að innan. Samt bauð ég Þjóðverjanum sem býr hérna í bollur með hindberjasultu, rjóma og glassúr, og hafði hann sjaldan á ævi sinni smakkað nokkuð jafn undursamlegt. Svo stakk hann upp á að við prófuðum hinar ýmsu samsetningar á bolluinnihaldi, hafið þið smakkað með banana, jarðarberjasultu, rjóma og glassúr? Það er himnaríki! Svo þegar ég vaknaði í morgun voru afgangssbollurnar orðnar mjúkar og góðar, ekki amalegur morgunmatur skal ég ykkur segja...

Danskan er öll að smella saman hjá mér, og get ég meira að segja skeggrætt í síma um daginn og veginn. Er það heilmikil framför, því yfirleitt finnst mér best að horfa á munninn á manneskjunni sem er að tala. Danskan hjá mér er þó ekkert alltaf að gera góða hluti. Í lestinni um daginn lenti ég til dæmis á spjallið við einhvern mann, og hann spurði hvort ég væri frá Borgundarhólmi. Borgundarhólmi!?! Ef einhver lesandi getur frætt mig um mállýskuna sem töluð er í Borgundarhólmi, þá má sá hinn sami kommenta hið snarasta... Annars er ég nú yfirleitt spurð að því hvort ég komi frá Noregi.

Eins get ég stundum verið alveg glær. Ég gríp annað slagið íslenska Nyhedsavisen með mér á lestarstöðvunum og les blaðið á leiðinni í vinnuna. Hef ég aldrei skilið þennan óskapa áhuga sem fréttamenn hafa á Indlandi í því blaði, enda er stór hluti blaðsins tileinkaður Indlandi. Þess vegna hef ég alltaf flett hratt og vel í gegnum þær síður sem merktar eru Indlandi og hugsað í hvert skipti að það hljóti að vera einkar mikið af indverskum innflytjendum í Kaupmannahöfn, annars væri varla lögð svona mikið áhersla á þetta efni. Það var ekki fyrr en í gær þegar ég var að skoða fréttir á Politiken á netinu, að það rann upp fyrir mér að "indland" þýði hreint ekki "Indland", heldur þýðir það "innanlands"!!! Ég held ég fari bara aftur heim til Íslands. Og síðan þýðir peber ekki pipar heldur paprika. Sjitt.

En í dag er sunnudagur, klukkan er rétt rúmlega níu og fuglarnir syngja. Held ég skelli mér í föt, skutli Britney á fóninn og nái rjómabollunum af mér aftur með nýstárlegum dönsum fyrir framan risaspegilinn minn. Síðan ætla ég í eitt allsherjar "windowshopping" í dag, og hugsa um allt sem ég ætla að kaupa þegar ég verð alveg ferlega rík. Sem mun sennilega aldrei gerast, því skatturinn stelur öllum peningunum mínum.

Ætla að þjóta! Bestu kveðjur, Anna sem á ekki pening því skatturinn stelur honum öllum og bankinn klúðraði öllu sem hægt var að klúðra þannig að Anna á hvorki heimabanka né debetkort og því verða launin að standa óhreifð á bankareikningnum þar til eftir margar vikur því það gerist allt svo hægt í Danmörku.


Muna: Kynna mér mállýskur í Borgundarhólmi.

Engin ummæli: