mánudagur, mars 19, 2007

Öxar við ána, títuprjón í tánna...

Þema dagsins er íþróttir. Já, ég hef ætíð verið mikill antisportisti og hef aldrei í mínu lífi þolað íþróttir. Og þó, mig minnir að ég hafi ekki kvartað svo mikið yfir íþróttatímunum þegar ég var í Skútustaðaskóla og við fengum að sitja á pallinum á prumpubílnum alla leið út í Skjólbrekku... (Sénsinn að maður sæi það gert í dag!). En annars frá fjórða bekk og uppúr hef ég ætíð kvartað og kveinað mikið yfir því óréttlæti heimsins að þurfa að fara í íþróttir.Ég held ég vaxi aldrei upp úr þessari óbeit minni á íþróttum, og er eftirfarandi færsla lýsandi fyrir ástand mitt enn þann dag í dag.


Þriðjudagur, 6. mars 2003

Handbolti. Það er ein af þessum íþróttagreinum sem ég skil ekki. Í dag í íþróttum vorum við í handbolta. Mér líkar ekki við boltann sem fólk notar í handbolta. Þetta er svo skrítið, ég drippla boltanum niður á gólfið, og auðvitað býst ég við að hann boppi aftur til mín. En nei, auðvitað gerist það ekki. Boltinn ákveður skyndilega að skoppa nokkra metra til vinstri, eða til hægri, ég veit aldrei á hvaða átt hann fer! Ég þoli ekki íþróttir. Í dag var íþróttakennarinn að reyna að kenna okkur einhverja nýja tækni með því að láta okkur standa í röð, og svo áttum við eitt í einu að kasta boltanum til hans og hann átti svo að kasta honum aftur til okkar og við áttum áttum að reyna að hitta í markið. Eða það var allavega það sem ég hélt að við ættum að gera eftir að kennarinn hafði útskýrt þrisvar sinnum fyrir mér hvað við ættum að gera. En ég gerði samt eitthvað vitlaust. ”Jæja, mér tekst þetta bara næst” hugsaði ég með sjálfri mér og fór aftast í röðina. Eftir mínútu var röðin aftur komin að mér. Ó nei! Ég tók eftir því að bekkurinn var að gera eitthvað allt annað núna! Ég hafði gleymt að hlusta á kennarann! “Afsakið, en hvað erum við að gera núna?” spurði ég kurteisislega. Kennarinn horfði á mig og hristi hausinn hægt. Svo kastaði hann boltanum til mín og sagði “Hittu bara fjandans markið!”. Úúúúps... Í næsta skipti hlustaði ég á hann. Hann þurfti að útskýra tvisvar sinnum fyrir mér hvað við værum að fara að gera.

Eftir nokkrar mínútur byrjuðum við að spila alvöru handbolta. Það eru ellefu nemendur í bekknum mínum, svo við spilum alltaf fimm á móti fimm og hálfum. Ég hreyfi mig aldrei neitt, svo ég er alltaf kölluð hálf. En það er bara eitt sem ég skil alls ekki. Það eru allar þessar línur á gólfinu! Ég veit að þær rauðu eru fyrir handbolta, þær hvítu fyrir badminton, og þær gulu fyrir fótbolta. Ég hef ekki hugmynd um hvenær fólk notar bláu línurnar. EN! Við eigum líka að nota gulu línurnar í handbolta, bara ekki allar af þeim. Hvernig á ég eiginlega að vita hvaða gulu línur við erum að nota og hvaða ekki? Ég reyni stundum að spyrja, en þá hlægja allir og segja “Æh, þú ert svo vitlaus!” Það eru átta strákar í bekknum, og bara þrjár stelpur. Næstum allir í bekknum eru með stórar hendur. Nema ég. Svo boltinn sem við notum er alltaf svo stór, að ef það allt í einu gerist að ég virkilega grípi boltann, þá missi ég hann aftur. Ég er minnst í bekknum. Ég er 164 centimetrar. Það er ekki mjög lítið, en of lítið fyrir strákana í bekknum. Þeir kasta boltanum alltaf marga metra fyrir ofan hausinn á mér svo ég næ aldrei að grípa hann. “Anna, þú átt að GRÍPA boltann!” “Hversu stór haldið þið eiginlega að ég sé?” “Nú, hoppaðu þá!” “Ég er að reyna!” “Reyndu betur!” AAAARRRGHHHHH...

Það þarf ekki að taka það fram að ég var sú sem var alltaf kosin seinust. Og þótt grunnskólaíþróttir hafi verið leiðinlegar, þá voru þær sannkölluð hátíð miðað við íþróttatímana í framhaldsskóla! Þeir tímar gátu gert hvern mann þunglyndan og skrópsjúkan... (Skrópsjúkur=illt í löppinni, hálsinum, með túrverki (ég hef aldrei í mínu lífi fengið túrverki, nema þegar ég átti að fara í íþróttir í framhaldsskóla, en sú tilviljun), með auma öxl og tognuð í náranum...).

Og nú vil ég ekki fá nein komment frá taekwondo-fólki, mér finnst samt leiðinlegt í íþróttum ;)

Bestu kveðjur, Anna sem er að fara út að skokka til að ná af sér 600 grömmunum sem hún bætti á sig í þvottahúsvinnunni vegna þess að líkamsklukkan fór í kerfi og brenndi ekki neinu

Engin ummæli: