föstudagur, mars 23, 2007

Afar upplífgandi færsla

Já, best að skella inn einni færslu fyrir svefninn.

Þó hef ég alls ekkert spennandi að segja, ég er bara að æfa mig því það eru aðeins eftir u.þ.b. fimm birtingarhæfar gelgjufærslur og það væri nú verra að vera alveg kolryðgaður í að skrifa ferskar færslur þegar þau ósköp verða búin...

Af mér er allt fínt að frétta. Ég er ennþá atvinnulaus, en ástandið er samt ekki kolsvart. Ég get nefnilega farið hvenær sem er á ráðningarskrifstofuna sem skaffaði mér þvottahúsvinnuna og fengið vinnu við einhver íhlaupastörf. Já, hæstráðendur á þvottahúsinu voru nefnilega svo hæstánægðir með mig sem starfskraft, að ráðningarskrifstofan blátt áfram neitaði að leyfa mér að segja endanlega upp og er ég því skráð sem "óvirk tímabundið" í skránum hjá skrifstofunni. Mikil ósköp. Þó ætla ég að þrauka aðeins lengur atvinnulaus (jah, get nú kannski ekki að ég sé búin að vera alveg ofvirk í atvinnuleitinni) og skella mér í málið af fullum krafti í næstu viku. Nú, annars er það bara þvottahúsið...

Skólinn gengur svo ljómandi vel að jafnvel elstu menn muna ekki eftir jafn áhugasömum nemanda. Þarna sit ég og brillera í hverjum tímanum á fætur öðrum og er orðin alveg ferlega góð í öllum glottal-stoppum og áherslupunktum. Svo ekki sé minnst á að LOKSINS eftir að hafa lært dönsku í fleiri fleiri ár, þá fann ég einhvern sem getur útskýrt almennilega fyrir mér muninn á "som" og "der". Það var ákaflega gleðilegur dagur.

Hvað fleira? Jah, harla fátt sussum... Held ég nenni ekki að hugsa meira í kvöld, svo ég ætla að slútta þessari færslu og fara að sofa. Ætla svo að rísa úr rekkju við fyrsta hanagal á morgun og þvo þvott og ryksuga. Hugsa að ég skelli líka í fjórfalda uppskrift af pönnubökuðu speltbrauði, og hver veit nema ég kíki í bæinn og fari í smá window-shopping... Óþarfi samt að ætla sér of mikið í fang (ég er handviss um að þetta er bandvitlaus notkun á orðatiltækinu! Einhver sem veit betur?) því ég þarf jú líka að hafa tíma til þess að hanga allrækilega fyrir framan imbakassann...

Bestu kveðjur frá Kaupinhavn, Anna "Glottal Stop" Haraldsdóttir


PS. Ef þið eigið leið um Köben og heyrið allt í einu hávaðasamt bölv og ragn á íslensku, þá eru 90% líkur á að Pólverjarnir úr bekknum mínum séu þar á ferð. Ég ber alls enga ábyrgð á þeim ósköpum, sussu nei...

Engin ummæli: