Jæja, nýr dagur og ný gelgjufærsla. Í þetta skiptið fjallar færslan um sund. Þrátt fyrir yfirlýsingar mínar í færslunni um að ég þoli ekki sund, þá er mér ekki jafn meinilla við sund og ætla mætti. Og mér var heldur ekki meinilla við sund árið 2003. Það var bara skólasund sem fór í taugarnar á mér, því mér finnst svo leiðinlegt að fara í sund á morgnana í myrkri og kulda og þurfa að græja mig aftur í gelluútlitið eftir sundtíma í miklu stresskasti. Annars finnst mér ekki leiðinlegt að synda.
Já, eins og áður hefur komið fram, þá skipti útlitið öllu máli á þessum tíma. Í 10. bekk fór ég alltaf í sund í öðrum tíma á þriðjudögum, en samt málaði ég mig alltaf á morgnana áður en ég fór í skólann, því að sjálfsögðu gat ég ekki verið ómáluð í fyrsta tímanum! Var það oft alveg hellings vesen, því það var erfitt verk að ná allri málningunni af sér í sturtunni (ég var ekkert að spara maskarann) því ekki vildi ég vera með svarta bauga niður á bringu! Og eftir tímann dreif ég mig alltaf sem mest ég mátti í fötin og hljóp út í skóla og málaði mig svo fyrir framan spegilinn í skólastofunni. Og mætti þar af leiðandi aldrei of seint í tíma, þótt oft hefði ég staðið fyrir framan spegilinn þar til löngu eftir að tíminn var byrjaður...
Það var aðeins einu sinni sem ég mætti ómáluð í skólann áður en ég fór í sund, því ég ætlaði að prófa hvernig það væri. Það var versti dagur lífs míns og ég gat ekki einu sinni horft framan í fólk. Gerði þetta aldrei aftur! Og aðeins einu sinni skrópaði ég í sundi. Það var þegar við vorum að fara til Akureyrar að skoða VMA seinna um daginn, og ég laug því að kennaranum ég væri á túr, því útlitið þurfti að vera alveg fullkomið þennan dag... Frá því er skemmst að segja að ég fékk alveg brjálað samviskubit og laug ekki aftur. (Og já, ég fór alltaf í sund þótt ég væri á túr, fannst það ekki nógu góð ástæða til að sleppa sundi! Sé eftir því núna að hafa ekki verið duglegri við að nýta mér það, haha. Æh, ég var svo samviskusöm...).
Miðvikudagur, 5. mars 2003
Í gær vaknaði ég klukkan 4:30. Og af engri ástæðu! Ég bara lá í hlýja og góða rúminu mínu og hlustaði á tónlist. Það var mjög notalegt, alveg þar til klukkan 7:00. Þá sofnaði ég. Og ég þurfti að fara á fætur klukkan 7:20. Það var ekki notalegt.
Í gær var sundtími klukkan 9:25. Því miður fyrir mig, því ég þoli ekki að synda! Og alls ekki svona snemma á morgnana! 9:25 er næstum því nótt, og á veturna er dimmt úti og oft undir frostmarki. Brrrrr...... En sundtíminn var verulega slæmur. Kennarinn sagði þegar við komum í laugina “Í dag er sundpróf! Þið verðið að synda 600 metra á 15 mínútum, annars fallið þið!” Það varð skyndilega þögn í bekknum. Allir horfðu á hvern annan og voru augljóslega að hugsa “Hvað í fjandanum er hann að reyna að gera, drepa okkur? Við getum ekki verið SVONA leiðinleg…!” En við vorum augljóslega svona leiðinleg, því kennarinn var ekki að grínast! Svo við byrjuðum að synda. Og við syntum mjög hratt, eða fannst okkur allavega. Að lokum voru allir búnir með 600 metrana. Ég var reyndar mjög fljót, ég var fjórða af ellefu. Allir voru eldrauðir í framan. Andlitið á mér var svo heitt að sundlaugin sem var 31°C var eins og fata full af ís. Kennarinn byrjaði að tala, mjög hægt. ”Jæja, slæmu fréttirnar eru þær, að þið félluð öll á prófinu. Besti tíminn var 15 mínútur og 40 sekúndur.” Allir urðu niðurlútir, og ef þú hlustaðir vel gastu heyrt bekkjarfélaga mína muldra ”Andskotinn hafi það...” Tíminn minn var 16 mínútur og 45 sekúndur. Ég hafði aldrei áður fallið á sundprófi! Ég byrjaði að hugsa ”Hvað gerði ég eiginlega vitlaust? Af hverju í ósköpunum féll ég?” Mig svimaði. Þá byrjaði kennarinn að tala aftur, og nú brosti hann út að eyrum. “Góðu fréttirnar eru þær, að ég var bara að plata! Þið höfðuð í rauninni 20 mínútur til þess að synda þessa 600 metra! Ég var bara að reyna að láta ykkur ná prófinu!” Allir náðu prófinu.
Já, þannig var nú það! Hafið það gott og njótið sunnudagsins :) Bestu kveðjur, Anna sem þarf að laga til
sunnudagur, mars 18, 2007
Þröstur minn góður, það er stúlkan mín
...sagði
Anna Bj.
-
sunnudagur, mars 18, 2007
Flokkur: Danmark
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli