Í dag skellti ég mér á flóamarkað. Þó vita allir sem við mig kannast að ég hef óbeit á hlutum sem maður kaupir á flóamörkuðum (ég er svo mikið snobb, sjáið til...), en mig langaði svo mikið í straujárn að ég lét mig hafa það að bíða eftir lestinni í nístingskulda og hagléli og ráfa svo lengi um í villu míns vegar, allt þar til ég fann þennan blessaða flóamarkað sem er einn sá stærsti í Danmörku.
"Einn sá stærsti" er kannski heldur vægt til orða tekið. Hann var miklu stærri en það! Yfir 500 básar í óupphitaðri íþróttahöll (ímyndið ykkur Bogann á Akureyri) og ég hélt ég myndi missa bæði líf mitt og limi og jafnvel vitið líka þá tvo klukkutíma sem það tók mig að strunsa um salinn.
Mér til mikillar gleði fann ég þó straujárn á spottprís, svo nú er ekki seinna vænna að prófa það. Þó á ég ekkert straubretti, en það hlýtur að vera hægt að redda sér með því að setja handklæði ofan á skrifborðið...
Ég er farin að strauja! Bestu kveðjur, Anna sem er kalin í gegn

Eins og þið sjáið er allt að "drukkna" í snjó, já það er svo mikill snjór að lestirnar geta ekki skipt um spor vandræðalaust og þess vegna er samgöngukerfið í rúst.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli