Jáhérnahér. Með þessu áframhaldi mun ég hreppa titilinn "letibloggari". En engar áhyggjur gott fólk, ég skal reyna að taka mig á! Maður er bara svo ferlega bissí...
Já, alltaf eitthvað að gerast hér í Danmörku. Ég var kölluð til vinnu í þvottahúsið á fimmtudaginn, og var það ósköp létt og löðurmannleg vinna. Reyndar kenndi ég mikillar þreytu í bakinu, enda standandi allan daginn við að brjóta saman handklæði og lök, en voðalega einfalt. Monní monní...
Reyndar mun skatturinn éta upp sorglega háa prósentu af laununum mínum, en ég reyni að líta á björtu hliðarnar og horfa á það sem Skattmann gefur mér í staðinn. Jú, ég fæ næstum því ókeypis dönskuskóla frá Kaupmannahafnarkommúnu (annars er fullt verð fyrir 3 vikur um 50.000 íslenskar krónur, ég slepp með 5.000 íslenskar), mér skilst að læknisþjónustan eigi að vera ókeypis og matvælaskattarnir slaga ekki upp í þá íslensku... Ég er samt í fýlu.
Á föstudaginn fór ég síðan í skólann, og eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir, þá hef ég lent í ýmsum pínlegum aðstæðum þar undanfarið. Föstudagurinn var engin undantekning þar á því mér tókst að krækja vettlinginn minn í hurðarhúninn á útidyrunum þegar ég var að strunsa inn í skólann, með þeim afleiðingum að vettlingurinn rykktist af mér, hurðin skelltist aftur og vettlingurinn lenti úti. Þegar ég áttaði mig á því hvað gerst hafði reif ég upp útidyrnar og ætlaði að ná vettlingnum áður en nokkur sæi aulaskapinn, en of seint, því fyrir utan stóð góður hópur fólks sem hló að mér. Sjitt.
En tíminn sjálfur var með allra besta móti, kennarinn var í hinu besta skapi og reytti af sér brandarana svoleiðis hægri-vinstri og ég var í hláturskrampa í gegnum allar framburðaræfingarnar. En auðvitað gekk þetta ekki allt slétt og fellt fyrir sig.
Jan: Anna, lestu setninguna og fylltu inn í eyðurnar.
Anna: Ókei. Hvar er hjólið mitt? Hjólið mitt er þarna.
(Þetta virtist ákaflega rökrétt á þessari stundu, því í fyrsta lagi voru engar gæsalappir sem gáfu til kynna hver væri að tala við hvern, og í öðru lagi á ég það til að spyrja sjálfa mig spurninga sem ég svara svo sjálf. Með öðrum orðum, ég tala ansi oft við sjálfa mig.)
Jan: Anna, aðeins fólk sem er með geðklofa talar við sjálft sig. Þetta gengur því ekki upp, nema náttúrulega að þú talir við sjálfa þig, HAHAHA!
Bekkurinn sprakk úr hlátri og ég ákvað að gera ekki illt verra með því að reyna að útskýra mál mitt. Sjitt.
Gærdagurinn (laugardagur) var síðan aldeilis ljómandi ágætur. Ég fór í bíó með FRUNTALEGA myndarlegum London-gæja, sem talaði svo hratt að ég skyldi ekki eitt einasta orð. Er ég hér með tilbúin til þess að endurskoða afstöðu mína til Englendinga, og ekki svo fráleitt að ég af einskærri góðmennsku minni leyfi þeim að komast í flokk með Íslendingum, Dönum, Svíum og Hollendingum... Jeminn eini allamalla. Maður kiknar í hnjánum!
Þó varð ekkert um pöbbarölt í gærkvöldi, þar sem Alex (gæjinn) var enn með flensu og var þar að auki þunnur eftir kvöldið áður. Sem voru eiginlega engar sorgarfréttir þar sem ég náði þá síðustu lestinni heim! Sjúkket, hefði sko ekki nennt að labba langar leiðir, enda í mínípilsi, þið skiljið...
Í dag (sunnudagur) er ég síðan búin að vera ákaflega húsmóðurleg. Ég er búin að setja í þrjár þvottavélar, laga til í herberginu mínu, baka fjórfalda uppskrift af pönnubökuðu speltbrauði (gæti brauðfætt heila Afríkuþjóð með því framtaki!) og ætla ég svo að þrífa baðherbergið á eftir. Svo er bara að sitja og bíða eftir því að eignast börn og kall. (Samt aðallega kall! Anyone?).
Nei nú verð ég að hætta. Kóngulærnar á baðherberginu bíða! Það er bara verst að engar innstungur eru í nánd við baðherbergið (þetta er afskaplega gamalt hús) og veit ég því ekki alveg hvernig ég ætla að ryksuga alla kónuglóarvefina í burtu. Hugsa þó að ég verði mér úti um nokkur fjöltengi, því snúran á ryksugunni sjálfri er ekki nema tveir metrar.
Bestu keðjur úr -0,5 gráðu skítakulda og hálfbiluðum ofni, Anna Björk Haraldsdóttir
sunnudagur, febrúar 11, 2007
Säg inte nej, säg kanske kanske kanske
...sagði
Anna Bj.
-
sunnudagur, febrúar 11, 2007
Flokkur: Danmark
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli