föstudagur, febrúar 23, 2007

Fönn fönn fönn fönn íslensk fönn

Davs!

Já, enn er snjór í Köben og lestarkerfið "runs like shit", svona svo ég sletti smá. Það er eins og aldrei hafi sést snjór í Danmörku áður. Hvað gera Danir eiginlega þegar það er vetur í marga mánuði?

Allavega, í dag var síðasti dagurinn á fyrsta þrepinu í dönskuskólanum (það eru samtals ellefu þrep). Dómsdagur. Hægt var að líkja þessu við lömb á leið til slátrunar og alls óvíst hverjir kæmust áfram og hverjir ekki. Það er nefnilega 67% fall á fyrsta þrepinu.

En ég að sjálfsögðu flaug í gegn, já það er ekki að spyrja að því. Kennarinn sagði að ég væri á alveg hárréttri leið með þetta allt saman, og ein af mjööög fáum Íslendingum sem virkilega tekst gera "glottal stop" í fyrstu tilraun og þarf ekki að endurtaka þrepið! Eins eiga Íslendingar í alltof miklum vandræðum með bókstafinn "a", en það virðist ekki hrjá mig. Sem sagt, ekkert út á mig að setja.

Hins vegar get ég ekki með nokkru einasta móti lært að segja orðið "undskyld" (afsakið). Þetta u í upphafi orðsins er með öllu óframburðarhæft! Ég er búin að reyna og reyna, en samt næ ég ekki þessu hljóði, sem er einhversstaðar á milli ó og ú og u. Samt er ég búin að prófa allar gerðir sérhljóða sem ég er fær um að framkvæma, en það er allt vitlaust. Kennarinn segir mér að hugsa um hljóð í líkingu við o-ið í orðinu "god", og tekst mér mjög vel að segja orðið "god". En þetta hljóð get ég ekki búið til í byrjun orðs. Kennarinn reynir þó að hughreysta mig og segist hafa fulla trú á mér, mér hljóti að takast þetta einhvern daginn...

Annars hef ég ekki ýkja margt krassandi að segja í dag, fyrir utan það að ég á engan morgunmat. Verð ég því að byrja morgundaginn á því að strunsa útí Netto í slabbi og skítakulda og sækja björg í búið. Ég hlakka ákaflega mikið til.

Nei, það væri öllum fyrir bestu að ég hætti þessu blaðri og færi beint í bólið, enda er ég búin að glata hæfileikanum til þess að geta skrifað fyndnar bloggfærslur. Vil ég þó biðja lesendur um að sýna þolinmæli, ég hlýt að endurheimta húmorinn fyrr en varir. Allavega vona ég það fyrir ykkar hönd.

Góða nótt, älsklingarnir mínir, og hættið að panta allan þennan snjó! Bestu kveðjur, Anna hin ófyndna

Engin ummæli: