Úff, afar annasamur dagur að baki! Reddaði allskonar drasli sem þurfti að redda (sendi einhverja bankapappíra, virkjaði debetkortið mitt, fór á skattaskrifstofuna og fékk mér skattkort, fór á lestarstöðina og keypti mér klippikort því mánaðarkortið mitt dekkar ekki staðinn sem ég mun vinna á í næstu viku, keypti mér inneign á símann), eyddi löngum tíma í heimalærdóm, horfði á tvo sjónvarpsþætti, sendi nokkra mikilvæga tölvupósta, fór í skólann... Er sem sagt búin að vera á fullu frá því klukkan átta í morgun. Ó mig auma.
Já, góðir hálsar, ég er ekki lengur mjög atvinnulaus! Ég fór í viðtalið ógurlega á þriðjudaginn og brilleraði þvílíkt að annað eins hefur varla sést. Og allt á dönsku, að sjálfsögðu, og er ég því skráð sem dönskumælandi á vinnupappírana. Hósthóst, sjáum til hversu vel mér gengur að standa undir því nafni. Allavega. Ég er sem sagt ráðin hjá afleysingarráðningarskrifstofu, og verð ég því send hingað og þangað eftir þörfum og eftirspurn á starfsfólki. Alla næstu viku mun ég t.d. vinna í þvottahúsi sem sér um að þvo þvott fyrir gamalt fólk og mun mitt hlutverk vera að brjóta saman þvottinn og setja það á rétta staði eftir númerum (sama kerfi og á heimavistinni á Akureyri) og allt mun þetta gerast á þeim hæstu launum sem ég hef nokkurn tímann haft (athugið að launin þurfa ekki að vera há til að ná titlinum sem hæstu launin!). Og mikið óskaplega er ég fegin að ég bað mömmu um að kenna mér að brjóta saman þvott núna í janúar rétt áður en ég fór til Danmerkur.
Síðan ætlaði gellan sem sér um að koma mér í vinnu að athuga hvort hún kæmi mér í lagerstarf í IKEA núna um helgina, það er ekki víst en ég fæ að vita það á morgun. Hoho. Síðan eftir þvottahúsastarfið verð ég send eitthvert annað og síðan eitthvert annað og þar fram eftir götunum, allt eftir þörf og eftirspurn. Mest eru þetta lagerstörf sem eru í boði, og þurfti ég meðal annars að taka "lagerpróf" sem fólst í því að leysa fullt af verkefnum á 8 mínútum, og verkefnin voru ekkert nema tölur og stafir, sem sagt verið að athuga hvort maður sé les- eða talnablindur. Ég gerði ekki eina einustu villu, júhú!
Og þegar allt kemur til alls, þá er vinna er vinna og peningar eru peningar, og mér líst mjög vel á þetta allt saman, og get ég því leitað að draumastarfinu í rólegheitunum án þess að eiga það á hættu að fara á götuna. Sjúkket.
Hey, ég var ekki búin að segja ykkur frá dönskukennaranum mínum, honum Jan? Jan er sá sem skaut á mig með hjólin í síðustu færslu. Jan er ákaflega danskur. Hann talar ensku með afar dönsku tónfalli og byrjar hvern tíma á að kasta sígarettupakkanum sínum upp á borð. Hann er hinn besti maður og laumar lúmskum bröndurum og skotum á nemendur sína hér og þar. Hann er alltaf með tvo vatnsglös á borðinu, en stundum grunar mig þó að ef til vill sé smá vodkasletta í öðru þeirra... (Þetta er ekki meint í fúlustu alvöru). Hann er ákaflega strangur kennari og það má ekkert útaf bera hjá manni. Hann hefur mjög gaman af því að láta nemendur segja allskonar þvælu á dönsku, því flestir nemendurnir hafa afskaplega takmarkaðan grunn í dönsku og vita því ekki hvað þeir eru að segja. En Jan veit að ég skil allt sem hann segir, og lítur því oft á mig þegar hann er búin að láta grunlausa nemendurna segja "Hvar eru nærbuxurnar mínar" og "Hvar er hundaskíturinn". Enda er kannski ekki af ástæðulausu að hann líti alltaf á mig, því ég með allan minn þroska flissa eins og versta gelgja af þessu öllu saman.
Sem sagt, þarna er stutt lýsing á Jan, og kannski ég taki það fram að mér líkar ákaflega vel við manninn og hans kennsluaðferðir.
En samt sem áður veit ég ekki alveg hversu mikið ég hlakka til að fara í næsta tíma. Af hverju? Jú, sjáið til.
Í dag var einhver dönskukennarinn veikur og því rugl í öllum bekkjunum. Vildi það þannig til að ég og nokkrir aðrir úr bekknum mínum lentum hjá kvenkyns dönskukennara sem ég veit ekki hvað heitir á meðan Jan var að kenna öðrum hópi. Þar var afskaplega afslappað andrúmsloft í tímanum og í fyrsta skipti frá því ég byrjaði í KISS fékk ég ekki hjartaáfall af stressi í tímanum, enda strangleikinn ekki í fyrirrúmi hjá þessum kennara. Gekk tíminn stóráfallalaust fyrir sig og ég var í marga staði ánægð með kennarann, en hverjum þykir sinn fugl þó fagrastur (fegurstur?) og líkar mér því aðeins betur við tímana hjá Jan. (Neinei, Jan er ekki fuglinn minn, en ég fann enga betri líkingu...).
Nema hvað, að á meðan ég stóð og beið eftir rútunni eftir tímann lenti ég í hróksamræðum við konu að nafni Verónika og erum við saman í bekk hjá Jan, en lentum í dag saman hjá þessari konu. Ræddum við kennsluaðferðirnar af miklum móð og ákafa og töldum upp kosti og galla hvors kennarans fyrir sig (við töluðum saman á ensku).Vorum við nánast á garginu því okkur var svo mikið niðri fyrir og báðar sammála um að okkur þyki betra að vera með stranga kennarann Jan heldur en konuna sem var ekki jafn ströng. Vorum við í miðju kafi þegar rútan kom og við stigum inn ásamt fjölda manns og stóðum smá stund fremst í rútunni á meðan fólkið var að koma sér fyrir og gerðum við ekkert lát á samræðunum.
Verónika: Já, ég veit ekki, konan var samt alls ekki slæm, en ég held mér líki betur við Jan.
Anna: Já, sko, mér finnst eiginlega MIKLU BETRA að vera ALLTAF á tánum af STRESSI hjá Jan heldur en í rólegheitunum hjá konunni, því maður þorir sko ekki að gera villur hjá Jan!!!
Verónika: Já, alveg sammála, það er sko miklu betra að vera á tánum hjá Jan!!!
(Allt í einu heyrðist karlmannsrödd heyrist úr fremstu sætaröðinni)
Jan: Sælar stúlkur, hvernig gekk tíminn í dag?
Og svo glotti hann. Mikið. Við Verónika fórum í klessu og hóstuðum einhverju út úr okkur. Síðan tróðumst við í gegnum þvöguna og fórum eins aftarlega í strætóinn og við komumst.
Svo nú er spurning, hvað heyrði Jan mikið af þessu samtali okkar?
A) Hann gæti hafa farið inn í rútuna á stoppistöðinni á undan þessari stoppistöð (það eru margar stoppistöðvar þarna með stuttu millibili), og þess vegna aðeins heyrt þessar síðustu setningar.
B) Hann gæti hafa staðið við hliðina á okkur allan tímann á stoppistöðinni og þess vegna heyrt allt saman. Sem er eiginlega betra heldur en kostur A, því í A heyrði hann ekkert nema að það væri gott að hann væri strangur.
Sjitt. Mig grunar að hann verði ansi strangur í næsta tíma...
En nú ætla ég að drífa mig í háttinn. Góða nótt! Danskar kveðjur, Anna sem þarf ekki á enn strangari kennara að halda, öllu má nú ofgera...
miðvikudagur, febrúar 07, 2007
Enn ein langlokan
...sagði
Anna Bj.
-
miðvikudagur, febrúar 07, 2007
Flokkur: Danmark
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli