Í dag er allt gjörsamlega á kafi í snjó hér í Kaupmannahöfn. Snjóbylurinn byrjaði í gær og var lestarkerfið í lamalessi í gærkvöldi. Allavega fannst mér ekki gaman að standa á lestarstöðinni eftir að hafa verið að heiman í 16 klukkutíma (vinna og skóli) og heyra:
"Við mælum EINDREGIÐ með því að fólk ferðist EKKI með S-lestunum, við mælum EINDREGIÐ með því að fólk ferðist EKKI með S-lestunum! Við getum ekki lofað að lestirnar láti sjá sig, og mælum við því með að fólk nýti sér EKKI S-lestirnar."
Og hvernig átti ég þá eiginlega að komast heim? Ég hefði svo sem getað tekið Metro-lest langleiðina heim, en að ganga svo klukkutímaleið í algjörum blindbyl og skítakulda var ekki mjög spennandi tilhugsun. Og strætónetið er ekki mjög þétt þar sem ég á heima, og strætó var því ekki möguleiki.
En eftir rúmlega klukkutíma bið lét lestin mín þó sjá sig og ég komst heim heil og á höldnu seint og um síðir.
Í dag var svo planið að brasa eitthvað í bænum, en ég legg það sko ekki á mig í öllum þessum snjó og hægu lestarkerfi. Ætla ég því að halda mig innandyra og þvo þvott, þrífa, laga til og baka ef Netto á þau hráefni sem mig vantar.
Já, langt er liðið frá seinustu færslu og er það alls ekki leti að kenna, heldur hef ég verið afskaplega upptekin við ýmsa hluti.
Um síðustu helgi var t.d. Baldvin staddur í Köben (á árshátíð Tölvulistans eða eitthvað svoleiðis) og gerðum við okkur margt til dundurs. Við fórum m.a. á skauta og síðan fékk ég líka að fljóta með á djammið með Baldvini og öðrum Tölvulistagæjum. Já, pælið í þessu, ég og níu Tölvulistagæjar! Við fórum sem leið lá á "The Scottish bar" þar sem aldurstakmarkið var reyndar 21 ár, og ég sú eina sem var ekki með aldur til að fara inn.
Dyravörður: Hvað ertu gömul?
Anna: Æh, nítján ára... En það er allt í lagi, ég fer bara heim.
Dyravörður: Nei uss, þú ert ekkert 19 ára. Svona, farðu inn!
Svo ég fór inn. Fyrst var setið að sumbli drykklanga stund, en síðan tók við trylltur dans á gólfinu þar sem tekin voru vægast sagt frumleg dansspor. Má þar til að mynda nefna "Tannburstann", "Plötusnúðinn", "Afgreiðslumanninn" að ógleymdu "Húsinu". Jájá. Alltaf gaman að vera Íslendingur í útlöndum!
Ég fór í bakarí með Baldvini
Baldvin á skautum
Og pósa svo!
Þessa vikuna er ég síðan búin að vera að vinna í þvottahúsinu. Er ég greinilega að gera góða hluti þar, því ég var beðin um að koma og vinna þrjár vikur núna í mars. Sagði ég að sjálfsögðu já við því, enda hef ég ekki efni á að segja nei við nokkurri vinnu. Ætla ég þó ekki að vinna þar meira en bara þessar þrjár vikur, og er ég því að höttunum eftir "betri" vinnu.
Já, ég sagði rumunum. Fyrir þá sem ekki vita, þá snýst danskur framburður afskaplega mikið um að rymja (öðru nafni "Glottal stops"), en það er sem sagt öll þessi stuttu "stopp" inn í miðjum orðum sem Íslendingum eru ekki kennd í dönskukennslu á Íslandi.
Þessi stopp eru sem sagt gerð þannig að maður þarf að vera alveg afslappaður og láta síðan eitthvað í hálsinum nuddast saman, maður er með öðrum orðum að rymja, svona eins og þegar maður er nývaknaður. Síðan þarf maður að skella þessum rumum inn í dönskuna á réttum stöðum, en orð mega aðeins fá þessi Glottal stops ef þau eru Glottalstop-orð og skipta máli í setningunni. Ef þau skipta ekki máli, þá gerir maður ekki Glottal stop.
Þetta er samt ekki jafnflókið og það hljómar. Maður þarf bara að vita hvenær orðin í setningunni skipta máli, og hvort þau eru glottalstop-orð eða ekki. Þetta lærist.
En nú verð ég að fara og gera eitthvað gáfulegt, held ég leiti mér að einhverju hollu og góðu til að baka og gangi svo frá þvotti, fyrst ég er í fríi í vinnunni í dag. Júhú!
Bestu kveðjur, Anna Björk
Engin ummæli:
Skrifa ummæli