Jájá, ég skal skella inn einni færslu núna því ég er svo ánægð með lesendur mína, það er svo gaman að sjá hvað teljarinn gjörsamlega rýkur upp og allt að verða vitlaust í kommentunum! Uss, svona á þetta að vera. Hélt ég fengi hjartaáfall þegar ég leit á síðuna mína í dag, allt að gerast!
Ég hef ákveðið að mitt framtíðarstarf mun ekki vera í þvottahúsi (nema þá í skrifstofusæti eða einhverju öðru sæti, ég nenni sko ekki að standa!). Vinnan sem slík er þó ekki slæm, mér finnst alls ekki leiðinlegt að brjóta saman þvott. En þetta er afskaplega erfitt líkamlega, allavega er mér afar illt undir hægra herðablaðinu, er með smá vott af vöðvabólgu og pínu hausverk og þreytan í hnésbótunum alveg að fara með mig.
En þetta er vont en það venst. Þetta er svo sem ekki fyrsta líkamlega vinnan sem ég er í, ég hef jú plantað trjám í gríð og erg á bikiníinu einu saman við afar fjölfarinn veg og ég hef líka þrifið skrilljón hótelherbergi, og það er nú ekkert grín skal ég ykkur segja. Veit ég því af fenginni reynslu að þetta á ekki eftir að gera útaf við mig, en mikið óskaplega er ég fegin að aðeins tveir dagar eru eftir... (Neineinei, ég er alveg gjörsamlega íslenskufötluð! Ég kann ekki lengur að nota framsöguhátt og viðtengingarhátt, pældi heillengi í þessari setningu og komst ekki að niðurstöðu hvort maður segi "að aðeins tveir dagar séu eftir" eða "að aðeins tveir dagar eru eftir"... Hjálp!).
Líkamlegar þjáningar eru samt ekki einu neikvæðu fylgikvillar vinnunnar. Nei, vinnan er nefnilega langt úti í r***gati, sem sagt úti á Drageyri sem er langt í burtu frá Vanlöse. Drageyri er ekki einu sinni í Kaupmannahöfn, heldur lengra í burtu en flugvöllurinn sjálfur! Er því ræs hjá mér klukkan hálf fimm á morgnana svo ég geti mætt stundvíslega klukkan sjö á staðinn. KLÖKKAN HÁLF FIMM gott fólk, það er afar gróft mannréttindabrot. Þeir sem eru afar forvitnir að vita hvernig ég fer eiginlega að því að vera tvo og hálfan tíma á leiðina í vinnuna, þá skiptist tíminn í grófum dráttum svo:
4:30-5:20 Fara á fætur, borða, klæða sig og fleira sem fylgir því að fara á fætur. Athugið að ég hef ekki tíma til að mála mig.
5:20-5:30 Nett panikks-kast, því ég finn ekki húslyklana.
5:30-5:35 Ganga á S-lestarstöðina.
5:35-5:44 Bíða eftir lestinni (um að gera að mæta tímanlega, það er ekki hægt að treysta þessum lestardruslum sem koma ýmist of seint eða of snemma)
5:44-5:46 Sitja í S-lestinni
5:46-5:48 Ganga nokkra metra að Metro-lestarstöðinni og bíða í eina mínútu eða svo
5:48-5:58 Sitja í Metro-lestinni
5:58-6:17 Dunda sér í rúllustigunum og sitja á strætóstöðinni úti í kuldanum og bíða eftir strætónum (þennan tíma er ekki hægt að stytta, því S-lestin sem ég fer í á morgnana gengur aðeins á 20 mínútna fresti og ef ég tæki næstu S-lest myndi ég koma mínútu of seint til að ná strætónum sem gengur aðeins á 20 mínútna fresti)
6:17-6:48 Sitja í strætónum og fá panikks-kast því ég veit ekki hvar ég á að fara út því ég sé ekki á stoppistöðvaskiltin í öllu þessu myrkri
6:48-6:55 Ganga eftir óupplýstri götu með hesthús og hænsnahús og gammeldags hús með stráþökum á báðar hendur
6:55 Mæta í vinnuna, skipta um skó og hefja vinnu á réttum tíma.
Og ég þarf að sjálfsögðu minn átta til níu stunda fegurðarblund á nóttu hverri, og þarf ég því að leggjast til svefns klukkan átta á kvöldin ef vel skal vera. Það er því bannað að hringja í mig/senda mér sms eftir klukkan átta á kvöldin...
Annars hef ég afara ánægjulegar fréttir að færa. Ég er hugsanlega að vinna smá bug á bílveiki minni, því nú get ég lesið Rauðu ástarseríuna bæði í lestunum og í strætó! Ég, sem get ekki einu sinni sent sms í bíl, því þá verður mér óglatt! Heyrirðu þetta mamma?
Og talandi um Rauðu seríuna (ég er að sjálfsögðu með nokkrar slíkar bækur á íslensku hér í Danmörku, hafði þær með að heiman), þá er ég að lesa svo hryllilega fyndna ástarseríubók þessa dagana að ég sit ýmist glottandi eða í niðurbældum hláturskrampa í lestum/strætóum. Það er skárra í strætóum því þá eru ekki margir að horfa framan í mig, en verra í lestunum þar sem það situr alltaf einhver á mót mér. Æ-æ.
En nú er víst kominn háttatími (klukkan er jú orðin átta).
Samt eitt enn! Ég er með smá spurningu sem mér þætti gaman að fá svör við. Hvað er það leiðinlegasta sem þið verðið að gera á hverjum degi? Sem sagt einhver síendurtekin athöfn.
Mitt svar: Ég HATA að þurrka mér eftir sturtu. Það fer ekkert annað eins ferlega mikið í taugarnar á mér! Mér finnst í lagi að blása á mér hárið, en mamma mía hvað mér finnst leiðinlegt að þurrka mér. Sem gerir það að verkum að mér finnst alveg ógeðslega leiðinlegt að fara í sturtu. Einu sinni fannst mér leiðinlegast að bursta tennurnar, en pirra mig þó ekki á því lengur. Uppvask fer ekkert sérstaklega í taugarnar mér. Ekki heldur að þvo þvott, laga til, þrífa, vaska upp eða fara á fætur. Eða fara í vinnuna. En sturtan gæti alveg farið með mig. Einmitt þess vegna er ég með skítugt hár núna og ætla ekki að gera neitt í því, því mér finnst svo leiðinlegt að þurrka mér.
Nei, ég er ekki í neikvæðu skapi í dag, ég bara sá einhversstaðar á netinu að fólk var að tala um hvað því þætti leiðinlegast að gera á hverjum degi. Og fór þá að pæla í því hvað mér fyndist leiðinlegast.
Látið nú ljós ykkar skína, og tjáið ykkur! Ef margir eiga við þetta sturtuvandamál að stríða, væri kannski ráð að stofna stuðningshóp... Einnig er tekið er við nafnlausum kommentum ef fólk vill ekki láta bendla sig við lestur síðunnar.
En ég er farin að sofa, hafið það gott älsklingar! Og hey Baldvin, ég þarf að ná af þér tali á msn við tækifæri! Með öðrum orðum, einhvern tímann þegar ég fer á msn. Sem gerist, tjah, næstum aldrei. Köben Köben... Bestu kveðjur, Anna Björk
miðvikudagur, febrúar 14, 2007
Já en veskan mín! Horfin!
...sagði
Anna Bj.
-
miðvikudagur, febrúar 14, 2007
Flokkur: Danmark
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli