Fallega fallega Gautaborg
Um daginn hringdi mamma í mig.
Mamma: Hæ, hvað segirðu gott? Hvað ertu að gera?
Anna: Ég er stödd í Norskri sjómannakirkju að horfa á frekar klúra bíómynd...
Mamma: Ha? Ertu að horfa á klámmynd inni í miðri sjómannakirkju?

En það var nú ekki svo gróft, ég var ekkert alveg í miðri kirkjunni, heldur frammi í einhverri kaffiteríu. Og þegar leið á myndin kom í ljós að hún var ekkert svo rosalega gróf, það var bara kynlífsatriðið í byrjuninni sem var gróft...
En messan sem við fórum í áður en við horfðum á myndina var alveg rosalega skemmtileg. Það var sérstaklega gamanað fara með faðirvorið á norsku og segja allt sem söfnuðurinn á að segja á norsku :D Og ég afþakkaði reyndar vínið og oflátuna... en þetta var sem sagt svona ekta messa, bara fyrir okkur Núrjobbarana :)
En við Venla höfðum reyndar ekki tíma til að horfa á alla norsku klámmyndina, heldur þurftum við að drífa okkur í Liseberg til að horfa á Sweden - Paraguay á risaskjá ásamt öllum myndarlegu gaurunum í Gautaborg... Úff, maður minn! ;)
Fyrir þá sem ekki vita, þá erum við Venla ekki neitt afskaplega fótboltalega sinnaðar. Við byrjuðum t.d. á því að rífast um hvort einn hálfleikur er hálftími, fjörtíuogfimm mínútur eða sextíu mínútur... Hmm, en ég hafði samt rétt fyrir mér, vúhú, hann er fjörtíuogfimm mínútur :D
Leikurinn var sýndur á risaskjá
Svíþjóð var oft næstum því búin að skora. Fyrri hálfleikinn fólst aðal skemmtun okkar Venlu í því að hlægja frá okkur allt vit því okkur fannst svo fyndið þegar fólk öskraði og hrópaði og púaði og hvatti... En í seinni hálfleiknum vorum við sko alveg með á nótunum og öll okkar fagnaðar- og sorgaróp komu beint frá hjartanu. Jájá. Og síðan þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum þá skoraði Svíþjóð. Og það var alveg rosalegt! Fólk hrópaði og kallaði og öskraði og grenjaði og faðmaðist og kysstist og stóð frosið og klappaði og skálaði og stappaði og söng...
Ég hins vegar...
- hrópaði bara því þetta þýðir að núna mun Svíþjóð leika fleiri leiki = meiri líkur á fótboltapartíum
- kallaði Sverige því allir hinir kölluðu Sverige
- öskraði ekki neitt
- grenjaði ekki neitt heldur, enda ekki það mikið þjóðarstolt enn sem komið er
- faðmaði ekki neinn, enda enginn sætur strákur sem gerði sig líklega til að faðma mig
- kyssti engan, enda enginn sætur strákur sem gerði sig líklegan til að kyssa mig
- stóð ekki frosin því þetta mark þýddi ekkert svo óskaplega mikið fyrir mig
- klappaði alveg fullt, enda var ég svona frekar glöð yfir að greyin skyldur hafa skorað og áttu það skilið eftir vel spilaðan leik
-skálaði ekki enda ekki með neitt til að skála með
- stappaði ekki, enda algjör óþarfi að ganga berserksgang...
- söng ekki, enda kunni ég ekki þessu sænsku stuðningslög
Jájá. Á laugardaginn var tungumálamaraþon hjá Núrjobburunum. Við fengum m.a. fyrirlestur frá einhverri konu sem kennir við háskóla sem er kenndur við Norðurlöndin og markmiðið er að hafa alltaf nemendur frá öllum Norðurlöndunum. Hún sagði að almennt séð tæki það nemendur sem kæmu til Svíþjóðar frá hinum Norðurlöndunum svona 12-14 daga til að smella í gang með tungumálið og eftir það lægi leiðin beint upp á við. Fólk yrði fljótt alveg altalandi. Og svei mér þá! Þann sama dag (þennan sama laugardag, 13. daginn minn í Svíþjóð) hafði ég nefnilega ákveðið að tala bara sænsku þann daginn, enda farin að skilja flest og geta tjáð mig! Svo ég fylgi greinilega kúrfunni! Og nú tala ég helst bara sænsku, vúhú :D
En já, tungumálakvöldið var alveg rosalega fínt og ég stóð mig vel í að svara öllum spurningum um íslenskuna... ýkti kannski stundum smá og lagaði hlutina svolítið til eftir mínu höfði, en annars gekk það mycket bra ;) Þegar tungumálakvöldið var búið ákvað ég að mig langaði ekki heim, og dró því alla með mér á einhvern skemmtistað. Allir voru að fara að vinna daginn eftir nema ég. Kvöldið fór síðan þannig að ég fór heim, bláedrú, um tólf-leytið á meðan hin drukku frá sér allt vit... Það hefur eflaust verið gaman fyrir þau að vakna eldsnemma til að mæta í vinnu daginn eftir, tíhí.
Í gær (sunnudag) kíkti ég síðan smá á opnunarhátíð "Göteborgtunnel", en Göteborgtunneln er einhver göng fyrir bíla. Þau eru um tveggja kílómetra löng og það tók ekki nema sex heil ár að byggja þau... hmm. Opnunarhátíðin hefur staðið yfir alla helgina. Í gær var eitthvað um lifandi tónlist á svæðinu (ég ELSKA lifandi tónlist) og síðan skellti ég mér á sjóðheitt Salsanámskeið... Alltaf eitthvað að gerast í Gautaborg! Um kvöldið skellti ég mér síðan í Liseberg, en tækið sem ég fór í var svo ógeðslega klikkað að mér varð svo óglatt að ég gat ekki meir... Ha ha.
Ég á opnunarhátíð Göteborg Tunnel
Í dag heimsótti ég bankann og lét virkja debetkortið mitt. Síðan fór ég á Dönsku ræðimannsskrifstofuna ásamt hinum Núrjobburunum og fræddist um starfið þar.
Við Venla fyrir framan Det danske konsulat
Já já, þetta ku vera ég
Eftir heimsóknina á Danska konsúlatið, þá ákváðumvið Núrjobbararnir að skella okkur á "Lilla Villakullan". Lilla Villakullan er kaffihús þar sem þemað er Lína langsokkur, og vá, ég hef bara aldrei á minni ævi séð jafn rosalega kósílegt kaffihús!!! Við skelltum okkur á kökuhlaðborð þar sem maður mátti borða eins mikið og maður vildi fyrir 65 SEK. Ekki amalegt það!!! En já, þetta var alveg æðislegt. Diskarnir þarna voru allir ósamstæðir og við sátum niður í einhverri stofu með ósamstæðum sófum og borðum og fullt af hlutum úr húsinu hennar Línu, t.d. koffortinu hennar og fleiru. Vá, hvað þetta var fullkomið! Og þvílík rólegheitastemning! Jeminn eini!!! Ég hef bara aldrei farið inn á annan eins stað, þetta var engin smá upplifun!
Lilla Villakullan
Við Hannah gripum í tafl
Ég alveg geðveikt einbeitt
Hannah vel einbeitt
Ég þurfti að máta píanóið
Þegar heimsókninni á Lilla Villakullan var lokið, þá fórum við Venla í einhvern lystigarð og nutum lífsins og góða veðursins. Já, sumarið er sko málið! Um að gera að njóta þess sem allra mest og best!
Ég sæt og sæl í Gautaborg
Íslenskir fætur í Gautaborg
Alltaf æðislega fallegt í Gautaborg
Held ég segi þetta nóg í bili :) Morgundagurinn verður síðan skemmtilegur, það get ég sagt ykkur! Knús og kossar, Anna Björk
Engin ummæli:
Skrifa ummæli