Ég held ég sé í vitlausu landi. Ég held allavega að ég sé ekki í Svíþjóð! Og ef ég skyldi nú vera í Svíþjóð, þá gleymdist eitthvað að vara mig við veðrinu hérna... Ó boj. Í dag var alveg skrilljón stiga hiti (mamma segir að það hafi verið 26 gráður í Stokkhólmi um hádegi... Jájá, hún mamma veit meira um veðrið hérna en ég!). 

Svona var veðrið í dag
Annars er næsta mál á dagskrá að kaupa hitamæli. Ég er nefnilega svo mikill Íslendingur að ég er alveg föst í því að á morgnana og á kvöldin eigi að vera svalt og gott. Og þess vegna klæði ég mig alltaf vel og vandlega, alveg eins og ég væri á Íslandi. En nei. Hérna er steikjandi hiti frá klukkan fimm á morgnana (og ábyggilega fyrr) til klukkan 23 á kvöldin, svo að á morgnana er best að spara sér tíma og fara bara strax í pils og hlýrabol, því það er ekki líft að vera í öðrum klæðnaði.

Best að vera bara í bikiníi!
Í dag var gaman. Ég vaknaði klukkan eitt, skrapp útí búð og keypti mér fullt af sólarvarnardóti og fór síðan í Liseberg! Ég var komin þangað um þrjú-leytið en fór aftur heim um sex-leytið því mér var orðið svo óglatt af öllum snúningunum og veltunum og að vera á hvolfi og rússíbönunum og risarólunum og öllu því. En það er allt í lagi þótt ég hafi bara verið þarna í þrjá klukkutíma, því ég keypti mér nefnilega "Guldpas" á 1095 SEK :) Guldpas þýðir það að ég get núna farið í Liseberg hvenær sem ég vil ókeypis og farið í öll tækin sem ég vil, ókeypis! Held að málið sé algjörlega að fara þangað á hverjum einasta degi eftir vinnu og taka eins og eina sallíbunu í stærsta trérússíbana Norðursins... Ég sá reyndar í dag að það voru komnar sprungur í flesta trjádrumbana sem eru í rússíbanabrautinni og fannst það ekki neitt afskaplega traustvekjandi... Hmm. En það var samt alveg ógeðslega gaman :D

Þarna sjáið þið trérússíbanann

Þessar pósur geta drepið mann og annan ;)
Hey, vissuð þið að þegar maður fer út í búð í Gautaborg, þá þarf maður að borga 5 SEK til að fá svona alvöru innkaupavagn? Reyndar fær maður peningana til baka þegar maður skilar vagninum, en þetta er engu að síður mjög furðulegt. "Hey, við skulum stela innkaupavagninum!". Án gríns held ég nú samt að ef einhverjum dytti á annað borð í hug að stela innkaupavagni, þá myndi hann ekki láta 5 SEK stoppa sig í þeirri iðju! En maður má samt fá svona litla körfu sem maður heldur á ókeypis, svo maður er ekki alveg fatlaður er maður er ekki með 5 krónur á sér akkúrat þá stundina.

Þessi er ekki fyrir hjartveika og mömmu... Hann fer oft á hvolf!
Á morgun er svo spáð 25 stiga hita. Planið er að kaupa sér nesti og sænska ástarsögu og skella sér síðan í einhvern lystigarð og sóla sig! Þarf reyndar eitthvað að kíkja í búðir (kaupa hitamæli...) og brasa eitthvað, ef ég nenni. Ég held reyndar að þetta sé ekki spurningin um að "nenna", heldur er eiginlega alveg lífsnauðsynlegt fyrir mig að endurnýja fataskápinn minn! Mín íslensku föt (fóðruðu buxur, þykkar peysur) passa bara því miður ekki við veðurfarið hér! Ohh.

Mér var skipað að vera í bol í flestum tækjunum...
Jæja, má ekki vera að þessu, ég ætla að fara að hlusta á finnska geisladiska...
Kveðjur úr hitanum í Gautaborg og endilega sendið mér kalda strauma! (Ha ha ha). Anna Björk

Ég á framtíðina fyrir mér sem handamódel... ;)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli