sunnudagur, júní 04, 2006

Ferðasagan



Jæja gott fólk, þá er komið að því! Ég er komin til Gautaborgar og er því vel við hæfi að taka alveg flunkunýja síðu í notkun :)

Ferðasagan? Tjah, nokkuð skrautleg á köflum en allt gekk þó upp að lokum. Og hér kemur hún í mjög styttu máli:

Við Ingi brunuðum suður alveg heilum hálftíma á eftir áætlun sem sumum (Inga) fannst vera nánast algjörlega óviðunandi. Jesúskristur. Við byrjuðum á að skutla vinkonu Inga heim til sín, en hún hafði fengið að fljóta með okkur suður. Síðan var komið að því að skutla mér í heimsókn til hennar Lilju minnar. Frá því er skemmst að segja að við villtumst, og villtumst, og villtumst pínu meira. Við vorum sem sagt á villigötum í rúman klukkutíma og vil ég meina að það hafi frekar verið ökumanninum að kenna heldur en kortalesaranum. Hehemm.

Ég að missa mig í kortalestrinum

En allt tókst þetta þó að lokum og átti ég alveg frábært kvöld með Lilju, þar sem ágæt slúðurskorpa var tekin, ég fékk nýbakaðar vöfflur og pitsu og dvaldist þarna í miklu yfirlæti. Og síðan var hún Lilja mín svo yndisleg að gefa mér stúdentagjöf, og það var bikiní! Og það er alveg sjúklega flott og smellpassar!!! Núna skil ég líka af hverju hún hafði svona mikinn áhuga á rauða bikiníinu mínu um daginn, hahaha. Takktakk Lilja mín :*:D

En einhvern tímann hlaut þó að koma að því að við Ingi þyrftum að fara til Keflavíkur, og fannst okkur klukkan eitt um nótt vera alveg ágætis tími til þess. Í Keflavík gistum við á gistiheimili sem heitir Bed&Breakfast, og mæli ég fastlega með því að fólk skelli sér þangað þegar það þarf gistingu fyrir flug, því þetta er alveg æðislegur staður.


Herbergið okkar Inga í Keflavík

En já. Við Ingi sváfum aðeins um tvo tíma þessa nótt, enda bæði að missa okkur úr spenningi og við þurftum að vakna klukkan fjögur.

Við mættum út á völl klukkan rétt rúmlega fimm og þurftum að standa í ansi langri röð til að komast að innritunarborðinu. Ég var að sjálfsögðu með allt of mikinn farangur, en við Ingi fengum leyfi til þess að vigta bæði hans töskur og mínar töskur í einu sem þýddi að yfirvigtin varð miklu minni en hún annars hefði orðið (nenni ekki að útskýra það reikningsdæmi, þið fattið það eflaust sjálf), en með þessu móti varð yfirvigtin aðeins 5 kíló í stað 10. Og síðan spurði gellan í innrituninni hvað ég væri með sem handfarangur og ég sýndi henni bara fartölvutöskuna mína og myndavélatöskuna mína og var ekkert að vekja athygli á stóra og allt of þunga bakpokanum sem ég var með... hahaha. Þar slapp ég við smá yfirvigtarborgun í viðbót ;)

Við Ingi fengum okkur síðan rándýran morgunmat í fríhöfninni. En Ingi greyið náði þó ekki að borða nema helminginn af beikoninu sínu (ég fékk mér bara skyr sko...) því þá sá ég að fólk átti að fara að hliðinu og vildi að sjálfsögðu ekki fyrir nokkurn mun missa af fluginu svo ég dró Inga hálfgrenjandi úr hungri af stað... En að sjálfsögðu þurftum við að bíða við hliðið svo hann hefði allt eins getað klárað matinn sinn, vúpsí ;)

Ég borða skyrið af áfergju

Flugið var ágætt. Reyndar vorum við Ingi ósýnileg og flugfreyjurnar löbbuðu alltaf fram hjá okkur... nema þegar við föttuðum að það þarf bara að arga og garga á þjónustu og þá komu flugfreyjurnar á hlaupum og færðu okkur allt sem við vildum :D

Við Ingi með allt sem við vildum...

Og já. Hjartað missti úr nokkur slög þegar flugstjórinn tilkynnti að við myndum lenda í Stokkhólmi eftir klukkutíma og 20 mínútur... En þá hafði karlinn bara ruglast á nöfnum og við lentum að lokum nokkuð heil á sál og líkama í Gautaborg 15 mínútum fyrr en áætlað var. Og síðan lenti í ég rifrildi við flugþjóninn um hvort klukkan væri 10:50 (eins og hann vildi halda fram og var margsinnis búinn að tilkynna í kallkerfinu) eða 11:50 (eins og ég vildi halda fram). Ég vann þessar deilur og hann sagðist ætla að muna eftir því næst að það munar tveimur tímum en ekki bara einum. Góður strákur.

Kata systir hans Inga tók á móti okkur á flugvellinum og mér var skutlað í the Central station, það var hreinlega ekki hlustað á mig þegar ég sagðist vel geta tekið bara flugvallarrútuna... en ég var satt best að segja mjög fegin, ég hefði eflaust týnst ;) Ragnar hitti mig síðan á the Central Station. Og ef þið endilega viljið vita það, þá er Ragnar vafalaust fallegasti gaurinn í Gautaborg... bara svo við höfum það á hreinu ;) Við fórum í Odinsgatan (íbúðina) og hann sýndi mér allt þar inni (set inn myndir af íbúðinni seinna) og mér líst bara mjög vel á! Síðan fórum við í skoðunartúr um miðbæinn, og VÁ ÉG ELSKA GAUTABORG!!! Set inn nánari ástarjátningar á Gautaborg síðar.

Í dag er ég síðan búin að dunda mér við eitt og annað, en nánari lýsingar á því koma inn sennilega á morgun. So stay tuned ;)

Svo ég bið að heilsa héðan úr hinni frábæru borg Gautaborg! Ég bið alveg sérstaklega vel að heilsa Friðriki litla brósa og þakka honum kærlega fyrir myndina sem hann gaf mér, ég er strax búin að hengja hana upp á vegg fyrir ofan rúmið mitt :D

Hälsningar, Anna Björk Haraldsdóttir

Engin ummæli: