Já, í dag er Sveriges nationaldag (þjóðhátíðardagur Svíþjóðar). Að því tilefni fór ég ásamt hinum Nordjobburunum og Nordjobbfulltrúanum (ég hitti þau öll í fyrsta skipti í gær þegar við fengum okkur vínarbrauð í tilefni af þjóðhátíðardegi Dana) í Liseberg sem er tívolíið hér í Gautaborg. Þar hlustuðum við á hátíðarprógrammið sem samanstóð af æðislegum karlakórssöng, lúðrasveit, skemmtilegum ræðuhöldum og óperusöng. Ræðuhöldin voru svo fyndin að allir sænskumælandi áheyrendur veltust um af hlátri allan tímann. Ég veltist bara stundum um af hlátri, því ég skildi bara suma brandarana :) Ha ha. Og síðan hrópaði ég fjórfalt húrra ásamt allri mannmergðinni fyrir sænska fánanum. Ég held að aldrei hafi verið hrópað fjórfalt húrra fyrir íslenska fánanum á 17. júní, svo þetta var nokkuð spes.
Og svo var þóðsöngurinn sunginn og hann er mjög fallegur (það jafnast samt enginn á við þann íslenska) og að gamni mínu ætla ég að skrifa upp textann af honum hér svo þið getið lesið hann. Ekkert smá flott.
Nationalsången
Du gamla, du fria, du fjällhöga Nord
du tysta, du glädjerika sköna.
Jag hälser dig, vänaste land uppå jord
din sol, din himmel, dina ängder gröna
din sol, din himmel, dina ängder gröna.
Du tronar på minnen från fornstora dar,
då ärat ditt namn flög över jorden.
Jag vet, att du är och du blir, vad du var
Ja, jag vill leva, jag vill dö i Norden
Ja, jag vill leva, jag vill dö i Norden.
Eftir formlega dagskrá fengum við Nordjobbhópurinn okkur smá göngutúr um tívolíið og settumst síðan á grasflöt og töluðum saman. Ég er orðin ansi góð í því að skilja einfaldar setningar og er meira að segja farin að svara ýmsu á sænsku. Og ég er alltaf að læra eitthvað nýtt, það er ekkert smá gaman að læra nýtt tungumál svona á staðnum!
Og síðan settust nokkur af okkur fyrir framan stóra sviðið og hlustuðu á sinfóníuhljómsveit spila nokkur lög. Þetta var algjört klúður hjá grey hljómsveitinni. Hún ætlaði aldrei að geta byrjað þetta almennilega því hljómsveitarstjórnandinn var alltaf að stoppa hana af engri sjáanlegri ástæðu. Og síðan þegar hún loksins byrjaði af einhverri alvöru, þá komu fullt af verkaköllum upp á sviðið með risastórar svartar tréplötur og byrjuðu að reisa vegg fyrir framan hljómsveitina!!! Ég held reyndar að það hafi verið gert því sólin skein svo mikið á fiðlurnar og sellóin og allt það, en svona hiti verður einmitt til þess að hljóðfærin verða fölsk... Ég nennti nú ekki að sitja þarna lengur en í samtals fjörutíu mínútur, því þetta var eiginlega alveg skelfilegt! Svo allir Nordjobbarar ákváðu að fara bara heim til sín.

Ég við Liseberg-innganginn. Sést smá í Gothia Towers fyrir aftan mig
Hey, vissuð þið að það eru ekki nein pósthús í Gautaborg? Neibbs, þau voru lögð niður því enginn notaði þau! Svo núna fer maður víst út í búð eða eitthvað til að senda póstinn sinn... á enn eftir að fatta hvernig það dót virkar, svo mamma og pabbi, þið fáið póstkortið sem ég skrifaði til ykkar í gær bara einhverntímann! Kannski!
Og hey, vissuð þið að það má ekki reykja á NEINUM almennum stöðum hérna? Ekki einu sinni á pöbbunum og næturklúbbunum á kvöldin og á næturna!!! Ég fór á einhvern pöbb í gær með Nordjobbliðinu og þau sögðu mér frá þessu (ekki það að ég hafi eitthvað verið að reykja sko, ha ha, heldur þurfti einn gaurinn að fara út til þess). Vá, þetta er alveg ótrúlegt! Ekki það að ég ætli neitt að kvarta sko ;)
Ég skellti þessari pizzu í ofninn hér á Odinsgatan, og fannst ég ekki geta annað en að skreyta hana smá í tilefni af Sveriges nationaldag...
Þið verðið að afsaka það að myndirnar með þessari færslu voru ekki upp á tíu fiska, en málið er að myndavélin mín var nánast batteríslaus greyið, og vildi þess vegna ekki sýna mér myndefnið á stóra myndavélarskjánum og ég fattaði ekki að nota litla skjáinn og skaut þess vegna bara út í loftið! Ha ha.
Bið að heilsa öllum! Bestu kveðjur, Anna Björk
PS. Kannski er ég í vitlausu landi?? Rakst nefnilega á þetta á förnum vegi í dag:
Engin ummæli:
Skrifa ummæli