sunnudagur, júní 11, 2006

Allt að gerast í Gautaborg!


I am disappearing!!! Og ég er ekki að grínast! Vá, talandi um fínan megrunarkúr, jább, bara að skella sér til útlanda :D Annars fer ég nú alveg að verða hrædd við/um sjálfa mig, mín náttúrulega þyngd hlýtur að vera að nálgast 56,5 kílóin, en hún hefur verið 58 kíló í ca. eitt ár. Við Venla ætlum að kaupa okkur vigt við fyrsta tækifæri, hún finnur það nefnilega líka að hún er eitthvað að léttast. Það er nú samt kannski ekkert skrítið að ég léttist miðað við hvað ég borða ekkert rosalega mikið (sænskur matur er ekki góður...) og hreyfi mig allt of mikið!!! Ó boj. En um leið og mín náttúrulega þyngd verður 55 kíló, þá byrjar formleg fitun. Bara svo við höfum það á hreinu!

Vinnan í dag var alveg biluð. Nenni samt ekki að tala meira um það, segjum bara að ég sé alveg útsprungin (ha ha ha, útkeyrð og sprungin myndar saman orðið útsprungin!).

Annars hef ég ekkert yfir vinnunni að kvarta, annað en að ég verð svo rosalega þreytt í fótunum að ég er alveg ónýt eftir vinnudagana. Og samt á ég alveg geggjað góða skó. En fólk segir að þetta venjist fljótt, og eftir að ég er búin að venjast fótaverkjunum, þá fari ég að finna til í bakinu. Vá ég hlakka til.

Og vinnuskipulagið þarna er alveg GEGGJAÐ! Já, ég má bara taka mér frí þá daga sem ég vil og ég má vinna þá daga sem ég vil! Og ef ég vil ekki vinna neitt, tja, þá vinn ég ekki neitt! En maður fær að sjálfsögðu ekki peninga fyrir það. En annars eru bara nöfn allra sem vinna við þrif á Gothia Towers uppi á töflu og svo skrifa vinnuveitendurnir "A" við einhverja daga sem þýðir að þeir eru að stinga upp á að maður vinni þá daga, og maður getur annað hvort skrifað "ok" eða krassað yfir reitinn, eftir því hvort maður vill vinna eða ekki. Og svo getur maður sjálfur gert punkt á þá daga sem maður vill alveg endilega vinna á! Og ef maður segir nei við uppástungum yfirmannanna, þá er það alveg MINNSTA mál í heimi, það er svo margt fólk þarna sem getur unnið í staðinn fyrir mann! Þetta er svo klikkað flott kerfi að ég er alveg að missa mig yfir því!

Og já. Fyrir 35 SEK (350 ISK) á dag má maður borða eins mikið og maður vill yfir vinnudaginn! Það er meira að segja gert ráð fyrir morgunmat frá klukkan 9:00-9:15 í vinnutímanum (maður mætir til vinnu klukkan 9:00) svo við fáum borgað fyrir þetta korter sem gert er í ráð fyrir í morgunmat! Og síðan er alltaf eldaður hádegismatur, alltaf einhverjir rosalega fínir réttir (sem er reyndar yfirleitt aðeins of flóknir fyrir minn smekk svo ég fæ mér alltaf bara ávexti, brauð og grænmeti nema að það sé eldað eitthvað sem ég borða). Og maður má fara eins oft í hádegismat og maður vill ;) Og borða alveg endalaust mikið. Og síðan tekur fólk sér yfirleitt kaffipásu þegar líða tekur á daginn, og það sem er svo fyndið við það er að þá er ennþá sami matur á borðum og var í hádeginu, svo fólk getur fengið sér hádegismatinn allan daginn! Og við fáum alltaf borgað fyrir matartímana, því við þurfum bara að skila af okkur visst mörgum rúmum og erum á tímakaupi allan daginn, og bara hið allra besta mál ef við höfum tíma fyrir marga matartíma!

Eins er líka hægt að fá ýmislegt að drekka með matnum, já, þú getur ráðið hvort þú færð þér mjólk, vatn, appelsínusafa, epasafa, ananassafa, kaffi, te, léttöl... Já, ég sagði LÉTTÖL!!! Ha ha ha.

Og enn heldur starfsfólkið á hótelinu að ég sé finnsk, því allir Nordjobbararnir koma frá Finnlandi. Og síðan í dag þegar ég var að spjalla við einhvern gaur í lyftunni á minni allra penustu sænsku, þá spurði hann hvort ég væri frá Noregi... Og ein kona sem ég talaði við á ensku í gær, hún spurði hvort ég væri nokkuð Bandarísk, því ég er víst með alveg fullkominn Bandaríkjahreim!! Jájá, og síðan talaði ég líka við einn gest á hótelinu í gær sem kemur frá Bandaríkjunum og hann sagði að ég talaði klikkað góða ensku með alveg fullkomnum hreimi, ég hlyti jú að hafa búið í Bandaríkjunum einhvern tímann... Hmm.

Í gærkvöldi fór ég ásamt Venlu að hitta einhverja Nordjobbara sem komu til landsins í fyrradag og ég hafði ekki hitt áður. Við skelltum okkur á kaffihús og sátum úti í góða veðrinu með kakó og kökur og töluðum og töluðum og töluðum og hlógum og hlógum og hlógum... Vá, ég hef ekki hlegið svona mikið síðan, tja, ég veit ekki hvenær!

Það var reyndar svolítið strembið að ramba á réttan sporvagn til að hoppa inn í á leiðinni á kaffihúsið, því sporvagnaupplýsingamiðstöðin var lokuð og það eru alltaf tveir sporvagnar með sama númeri sem fara á sinnhvorn enda bæjarins svo við vissum aldrei hvaða vagn við áttum að taka þrátt fyrir að vera með sporvagnakort. En eftir að hafa stökkið upp í fjóra vagna og spurt hvort þessi vagn færi til Vasaplatsen, þá fundum við loksins einn sem átti leið þar um.

Ég og Venla í traminu. Sjáið þið hvað ég er að verða brún og sæt? :D


Í sporvagninum settumst við Venla á móti alveg sæmilega myndarlegum gaur. Ég stóðst að sjálfsögðu ekki mátið og fór að spjalla við kauða um daginn og veginn og einhverra hluta vegna, þá á ég mynd af honum? Ha ha, við Venla vorum eitthvað að taka myndir af okkur og fannst mér því tilvalið að smella einni á hann ;) Þegar við Venla komum út úr vaginum á Vasaplatsen þá spurði Venla alveg gáttuð: "Gerirðu þetta alltaf? Að tala við svona bláókunnugt fólk í sporvögnum? Og þetta bara rann út úr þér! Og ÞÚ VARST EKKI EINU SINNI FULL!!!". Tja, ég geri þetta nú ekkert alltaf, bara ef það sitja myndarlegir gaurar á móti mér ;)


Gaurinn í traminu

En já. Ýmislegt skemmtilegt kom svo í ljós þetta kvöld hjá okkur Nordjobburunum. Jújú, ég bý að sjálfsögðu í snjóhúsi á Íslandi og veiði fisk í gegnum vök. Síðan fer ég í skólann í fínu fjöðrunum mínum og pelsinum og skinnunum mínum. Ég er gift víkingi og er búin að vera það síðan ég var þrettán ára. Jájá. En við erum samt svo nútímaleg í snjóhúsinu að við erum með þráðlaust internet, svo kallinn geti nú lesið bloggið mitt á meðan ég er í útlandinu. En af hverju skyldi ég karlinn eftir heima á Íslandi? Jú, hann var alltaf að lemja mig svo ég tók eitt taekwondospark á hann, rotaði hann og hoppaði síðan upp í næstu flugvél...

Við bjuggum líka til flottustu pikköpp-línu sem finnst á þessari jörðu. Við gerðum að sjálfsögðu heilmikið grín að því að ég gæti ekki talað um veðrið eða stjórnmál á sænsku, en ég gæti sko romsað út úr mér öllu sem tengist þrifum á einn eða annan hátt. Ég spurði síðan stelpurnar (það voru bara Nordjobbarastelpur þarna) hvernig í ósköpunum maður segði annars "ryksuga" á ensku, því ég kunni það bara á sænsku. Og ein stelpan svaraði að bragði: "dust-sucker"... Ha ha ha! Þetta hefði allt eins getað komið úr mínum munni! Svo já, eftir það barst talið að Robbie Williams því hann mun vera með tónleika í Ullevi -leikvanginum (þar sem EM í frjálsum íþróttum verður haldið í sumar, nokkur hundruð metra frá íbúðinni minni) dagana 1. og 2. júlí. Og þá varð til þessi flotta pikköpp-lína: "Hey Robbie, do you want come home and look at my dust-sucker?". Verð að prófa þetta við tækifæri ;)

Nordjobbarar (Finnar)

Og enn einu sinni var ég aðalbrandari kvöldsins og hrókur alls fagnaðar (það er búið að gerast ansi oft hér í Svíaveldi...). Ég byrjaði kvöldið nefnilega ansi glæsilega! Jú, sjáið til. Ég var að skoða kökur á kaffihúsinu og gat ekki valið hvað mig langaði í, því mig langaði í allt þarna. Og þá þurfti ég að sjálfsögðu að skoða allar kökurnar gaumgæfilega til að reikna út hvaða köku ég ætti að kaupa til að fá sem mest fyrir peningana mína. Og þarna stóð og ég beygði mig áfram og skoðaði og skoðaði, og síðan leist mér ansi vel á eina og vildi endilega skoða þykktina á henni aðeins betur. Svo ég teygði mig aðeins lengra, en fattaði ekki að það var gler fyrir kökunum og bara BAMM, beint með ennið í glerið!

Og ekki nóg með það, heldur þegar líða tók á kvöldið og klukkan var að verða ellefu, þá var orðið svolítið kalt úti. Allt í einu tók ein stelpan upp teppi og spurði hvort einhver vildi. Ég sagði strax já, enda í pilsi. Síðan spurði ég hvar hún hefði eiginlega fengið þetta teppi. "Ha já, ég er alltaf með teppi með mér því mér er alltaf svo kalt." Það tísti eitthvað í hinum stelpunum, en ég hélt það væri því þeim fyndist þetta svo sniðugt. Eftir smá stund tók ég eftir því að önnur stelpa var líka komin með teppi! Og ég, asninn, spurði með mín bláu augu galopin hvort hún gengi líka alltaf með teppi ár sér! Og þá sprungu þær allar úr hlátri og bentu mér á að það voru teppi á öllum stólbökunum þarna sem fólk gæti notað þegar kólna færi í veðri... Hemm. En ég er samt með brúnt hár sko...

Í kvöld ákváðum við Venla að elda okkur spakk og hagettí. Eða nánara sagt hakk og pastaskrúfur. Maturinn bragðaðist alveg brilljant! Og svei mér þá, við erum alveg jafn miklar apar þegar það kemur að eldamennsku ;) Ha ha.


Eldað í Odinsgatan


Á morgun er svo klárlega planið hjá mér að fara í Liseberg (tívolíið). Þeir sem til þekkja hafa sagt mér að Liseberg sé mun brjálaðra en Tívolíið í Köbenhavn. Gaman gaman :D Og ég er búin að ákveða að fá mér líka frí á þriðjudaginn, svona svo ég geti aðeins hvílt mig eftir erilsama fyrstu viku í Gautaborg.

Segjum þetta gott í bili, en samt er svo margt fleira sem mig langar að segja ykkur :D Geri það bara seinna ;)

Kossar og kveðjur frá Gautaborg, Anna Björk

Engin ummæli: