sunnudagur, október 28, 2007

Kexrugluð

Hvurslags eiginlega dónaskapur er það að gleyma að segja manni frá tímabreytingunni??? En klukkan varð sem sagt tvisvar sinnum tvö í nótt.

Svona eftir á að líta útskýrir þetta nóttina þó aðeins betur. Tók nefnilega næturbúss heim úr bænum klukkan hálf tvö og var samt komin heim klukkan tvö, þrátt fyrir hálftíma rútuferð, smá extra labb því mér tókst að fara út á vitlausri stöð og svo hálftíma labb heim. Fannst klukkan svo bara vera alls ekki margt þegar ég kom heim (leit nefnilega á vekjaraklukkuna sem var sjálfkrafa búin að endurstilla sig) og glápti á imbann til klukkan þrjú... En fannst ég einmitt vera orðin óvenjulega þreytt á þeim tímapunkti og orkaði varla að kasta fötunum mínum úr rúminu á gólfið áður en ég lagðist niður og steinsofnaði... óvenjulegt miðað við að klukkan var jú bara þrjú. Vaknaði svo klukkan hálf tólf og fannst klukkan ekki vera neitt neitt og kúrði heillengi undir hlýrri sænginni áður en ég sveiflaði mér á fætur. Var einmitt þá búin að pæla í þessu með hvenær ég hefði eiginlega farið heim kvöldið áður, því þetta var eitthvað furðulegt (kveikti þó engan veginn á perunni, hélt að þessir tveir drykkir hefðu kannski bara farið svona svakalega með mig...).

Sat svo fyrir framan tölvuna í góðum gír, og rakst svo fyrir tilviljun á bloggsíðu á netinu þar sem verið var að tala um tímabreytinguna. Sjitt. Ég þarf eitthvað aðeins að endurskipuleggja daginn...

En já, hún Hildur mín kæra var að hringja í mig akkúrat í þessu til þess að kjafta og sagðist m.a. vera að fara að baka svo ég bauð mér í heimsókn til hennar... Ætla að drífa mig af stað, enda smá spölur á áfangastað. Tjá! Hilsen, Anna sem veit ekki hvað klukkan er.

Engin ummæli: