laugardagur, október 20, 2007

Og svo frystir hér í Köben, brrr

Í tilefni þess að plön kvöldsins fóru útum þúfur og ég sé fram á stórskemmtilegt laugardagskvöld ein heima með gutl í hönd og Britney Spears á fóninum þá ætla ég að skella einni eldsnöggri færslu á ykkur.

Áðan fór ég út í Netto (ekki þar sem ég vinn samt) og sótti björg í bú. Á leiðinni heim ákvað ég að rölta í matvöruverslunina (sem er talsvert mikið dýrari en Netto og kallast Irma, ef einhver skyldi kannast við það) hinum megin við götuna og athuga hvort ég sæi ekki sæta stráka og svoleiðis. Fyrir þá sem ekki vita er Irma búð sem gefur sig út fyrir að vera með mikið af lífrænt ræktuðum vörum. Engir voru gaurarnir í þeirri verslun en ég ákvað að grípa með mér girnilegri papriku fyrst ég var þarna á annað borð. Ég borgaði dýrindin og gekk svo aðeins til hliðar og hagræddi seðlunum í bungandi peningaveskinu (nei þetta var reyndar lygi, mitt peningaveski er sko andstæðan við bungandi, uh, óbungandi, innhverft?) og varð vitni að eftirfarandi samtali hjá næsta kúnna og afgreiðsludömunni:

Kúnni: Já, og svo ætla ég að fá tvo ökologiska (lífrænt ræktaða).
Afgr.dama (starir á kúnnan og lítur svo í kringum sig): Uhhh...
Kúnni: Já, tvo ökoligiska!
Afgr.dama: Uhhh...
Kúnni: Já tvo Cecil cígarettupakka, þeir hljóta að vera ökologiskir líka, er það ekki, HAHAHAHAHA!!!
Afrg.dama (með þreytt gervibros): Uhh já ábyggilega, eh eh eh....

Ég glotti og kom mér út. Skyldi afgreiðsludömuna einum of vel og hló því þetta var ekki ég. Hlakka til að koma mér í háskóla, djísús kræst...

En Britney bíður ekki endalaust, verð að þjóta!
Eigið gott laugardagskvöld ástarpungarnir mínir! Bestu kveðjur, Anna sem kann ekki lengur ensku og tilkynnti einum enskumælandi kúnna hátt og snjallt í dag að það væri ekki korti kúnnans að kenna að kortinu var hafnað, heldur var bara smá svona "systemfæl"...

Engin ummæli: