Goddag goddag!
Oh, ég trúi þessu ekki! Ég reis úr rekkju klökkan sjö í morgun og skellti mér í sturtu og dúllerí, því ég ætlaði nú aldeilis að brasa margt í bænum áður en ég færi í vinnuna klukkan tvö. Og nú er hann brostinn á með rigningu og leiðindaveðri, og ekki séns að ég nenni niður í bæ. Mamma, pakkinn fer í póst á fimmtudaginn, ég er í fríi þá og þá skiptir engu máli þótt rokið rugli hárinu...
Annars er hitt og þetta búið að gerast frá því seinast. Kannski maður skelli því í punktafærslu, því annars tæki það ykkur allan daginn að lesa það!
- Vinna gengur ljómandi. Ég er samt búin að komast að því að ég get ekki fyrir mitt litla líf sagt "neutralmarinerede kyllingebryster". Ég reyndi að böggla því út úr mér um daginn, gekk ekki vel...
- Ég tók dönskuprófið um daginn í aðra nösina og brilleraði þvílíkt að slíkt hefur vart sést. Er ég því komin áfram á þrep fimm í skólanum, jess. Ekki nema 66% fall í bekknum...
- Er að fara í annað dönskupróf á morgun og hinn, það verður skítlétt.
- Mundi allt í einu eftir því í lestinni einn daginn að lestarkortið mitt hafði runnið út daginn áður. Stökk ég því hið snarasta út úr lestinni áður en ég myndi lenda í vörðunum...
- ...en gleymdi í æsingnum mínum kæra bakpoka í lestinni, takk fyrir pent! Bakpokann hef ég átt frá því í fimmta bekk í grunnskóla og hefur hann verið notaður sem íþróttataska, skólataska, ferðataska, veski og allrahandataska nær dag hvern síðan þá. Bakpokinn kostaði 990 krónur í Rúmfó þarna um árið...
- ...og nú þori ég ekki að hringja niður á lestarstöð ef ske kynni að þeir skyldu hafa fundið pokadrusluna. Ég er nefnilega búin að splæsa í nýju risastóru veski (já, ein að reyna að vera gelluleg) og fengi því samviskubit yfir kaupunum ef bakpokinn myndi koma í leitirnar...
- ...því satt best að segja var ekkert í pokanum sem ekki mátti týnast. Eftirfarandi er listi yfir allt það sem í bakpokanum var: námsefni fyrir þrjár kennslustundir í skólanum, tveir kúlupennar, auð stílabók, vatnsflaska, hálfur pakki af þurru hrökkbrauði (ég veit, ég er svo dugleg að smyrja mér nesti...) og Netto-bolur.
- Mesta tapið var þó án efa í námsefninu, því ég þurfti náttúrulega að læra heima fyrir skólann og svona. En þar sem þetta námsefni er ókeypis, þá skellti ég mér bara í skólann og fékk nýtt námsefni...
- ...en á leiðinni í skólann var strætókerfið í einhverju rugli, svo ég endaði nú næstum því einhversstaðar úti í sveit! Eða ekki kannski alveg, en ég þurfti allavega að labba langa leið til þess að finna skólann minn...
- ...og það tók svo langan tíma að ég var næstum því mætt of seint í vinnuna, en það reddaðist.
- Á laugardaginn fór ég í fimm klukkustunda window-shopping, geri aðrir betur! Þori ekki að ímynda mér hvernig ástandið verður þegar ég loksins fæ útborgað...
- Svo í gær sat ég í rúminu mínu og var að blása á mér hárið á meðan ég lærði dönsku af miklum móð. Vildi ekki betur til en svo að ég dúndraði hárblásaranum mínum í ljósið fyrir ofan rúmið mitt og peran sprakk...
- ...en peran er samt ennþá í heilu lagi, sjúkket! Það hefði verið verra að fá glerbrot yfir allt rúmið...
- ...en nú er ástandið ekki bjart, því það er einhver skrítin pera í ljósinu og ég hef ekki grænan Guðmund um hvar maður fær svona peru...
- ...verð ég því að færa heimalærdóminn úr rúminu og yfir í sjónvarpsstólinn á meðan ég leita að nýrri peru, snökt.
Já, þannig er nú sagan af mínu lífi. Annars er fátt í fréttum. Eitthvað hef ég heyrt að því látið að fólk sakni þess að sjá sjálfsmyndir af mér hér á blogginu. Nú, ástæðan er einföld: Hárið á mér er svo úr sér gengið að ég get ekki einu sinni litið í spegil lengur, og þá er nú mikið sagt! En ég lofa að myndirnar munu dælast inn þegar ég verð búin að láta lagfæra strýið... Þangað til verður þessi mynd að duga:
Þarna er ég rétt rúmlega fjögurra ára. Er eitthvað skrítið þótt gelluyfirhalningin gangi hægt hjá manni þegar þetta var áhugamálið í æsku?
Njótið dagsins, sjálf ætla ég að laga til, stúdera dönsku og fara á kvöldvakt í vinnunni... Adiós! Anna, öðru nafni Ena (vinnan), Ena 1 (skólinn), Ana (þeir sem kunna ekki að skrifa nafnið mitt) og Smukke (útlenskir kallar þegar ég fer í mínípils).
Ps. Allir að taka þátt í könnuninni hér til hliðar...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli