laugardagur, maí 12, 2007

"Det er bare for dårligt!"

Sælt veri fólkið! Ég skelli á ykkur einni færslu hér úr 10,8 gráðunum... Skítakuldi alveg hreint, en miðað við hvað ég hef heyrt frá Fróni í dag, þá er það ég næstum því á Spáni hér!

Óheppnin hefur elt mig á röndum hvað varðar almenningssamgöngur undanfarið.
- Á þriðjudaginn fór ég í vinnuna rigningarblaut í fæturna og fór heim alkóhólblaut í fæturna (ég fékk mér of mikið í aðra tána í orðsins fyllstu merkingu þegar það datt flaska af sterku alkóhóli niður úr hillu í vinnunni og smassaðist við lappirnar á mér svo ég varð rennandi blaut upp á miðja kálfa). Þetta var á kvöldvakt og ég hlakkaði ég ógurlega mikið að komast heim sem fyrst úr blautu sandölunum mínum. En nei, S-lestinni minni var frestað, takk fyrir pent! Og ekki gefið upp hvenær næsta lest yrði á ferðinni, svo ég mátti leggja á mig hálftíma labb heim klukkan ellefu að kvöldi til. Komst ég því ekki í rúmið fyrr en seint og um síðir, og svo var ræs klukkan sex morguninn eftir, því ég átti að mæta í vinnu klukkan átta... Ég var ekki sátt við lestarkerfið þá stundina!
- Já, daginn eftir (á miðvikudaginn) fór ég í skólann strax eftir vinnu. Þar tók ég dönskupróf og var snögg að klára. Íha, ég kæmist snemma heim! En vúps, þegar ég kom út úr skólanum var ég næstum því trömpuð niður af pönkaraklæddum mótmælendum (Ungdomshuset) sem marseruðu upp Nörrebrogade (þar sem skólinn minn er)! Já, gatan var blokkeruð og engir strætóar gátu keyrt! Reyndar verð ég að segja að mér fannst gaman að sjá þessi mótmæli (sem voru friðsamleg), smá svona stemning eftir erfiðan dag. En mér fannst ekki alveg jafn gaman að þurfa að arka alla leið yfir á Nörreportstation, það er nú smá labb! Og ég með byrjunarstig kvefs (og pirruð og með hausverk eftir því) og þrjár orðabækur í poka (var í prófi) auk nýþungu gellutöskunnar minnar (það eru margir hlutir sem maður þarf að nota yfir daginn) og með vöðvabólgu, svo ekki var ég alveg sátt við ástandið þá stundina. En ég hafði ekkert val, svo ég arkaði þessa, tjah, rúmlega tuttugu mínútna leið ásamt fullt af öðru fólki. Á einu ljósinu átti eftirfarandi samtal sér stað á dönsku:
Kona: Ertu búin að labba langt?
Anna: Æi jáhh....
Kona: Þetta er bara svo ömurlegt! Þetta mætti nú alveg fara að verða búið.
Anna: Æi jáhh...
- Núnú, svo daginn eftir (á fimmtudaginn) fór ég aftur í skólann og þá til þess að taka munnlegt próf. Þegar því var lokið ætlaði ég að fara með strætó niður á Nörreportstation og komast heim með lest eins fljótt og auðið var, enda ætlaði ég að ná að læra heima áður en júróvisjón byrjaði. En enginn kom strætóinn! Þannig að ég þurfti að bíta í það súra epli að þurfa að ganga niður á Nörreportstation, sömu leið og daginn áður. Reyndar var veðrið svo dásamlegt að ég hafði svo sem ekkert mikið á móti því, en langaði samt að komast heim sem fyrst. Þegar ég var komin eitthvað áleiðis sá ég af hverju engir strætóar gengu: Gatan var lokuð á parti vegna umferðarslyss. Bíll hafði klesst á mótórhjól og það var verið að mynda slysstaðinn. En mér tókst allavega að missa af lestinni minni og komst ekki heim fyrr en löngu á eftir áætlun. Sem varð til þess að ég náði ekki að klára heimalærdóm fyrir júróvisjón, sem varð til þess að ég fór ekki að sofa fyrr en klukkan eitt um nóttina og þurfti svo að vakna klukkan sex...
- En það er ekki allt búið enn, því að í gær (föstudagur) átti ég að mæta í vinnuna klukkan átta. Ég fór sömu leið og venjulega og tók fyrst S-lest, svo Metro-lest og svo strætó. Hef sem sagt farið þessa leið þúsund sinnum áður rétt fyrir klukkan átta á morgnana. En eitthvað var umferðin erfið þennan dag, svo strætóferðin tók fimmtán mínútur í stað fjögurra mínútna! Það var rigning úti og og kalt og blautt, en þegar ég sá fram á að mæta of seint í vinnuna, þá fór ég fram í og spurði bílstjórann hvort hann mætti nokkuð hleypa mér út á miðri götunni, ég væri nefnilega að verða of sein... Sem betur fer var algjör ljúflingur sem sat við stýrið og hann opnaði fyrir mér og ég spretti allduglega úr spori og stimplaði mig inn til vinnu klukkan tvær mínútur yfir átta... Þá átti ég eftir að telja kassann minn og svona, en það reddaðist og kúnnarnir þurftu ekki að bíða mikið...

Fleira hefur gerst í vikunni. Já gott fólk, ég er búin að fara í klippingu og litun! Þvílík hamingja hér á bæ, og ég get ekki hætt að horfa á sjálfa mig í spegli. Vala þjáningarbróðir minn kom einmitt með góða lýsinguna á ástandinu hér í kommenti: "[...]búin að halda mig inni í 2 daga því ég vil ekki hætta á að fólk fari að grenja við það eitt að sjá hárið á mér[...]". En nú erum við báðar búnar að fara í snurfiseringu, svo fólk getur farið að hætta sér út úr húsi... ;)

Já, svo ég tali pínu um þetta dönskupróf sem ég fór í á miðvikudaginn og fimmtudaginn. Eigum við ekki bara að segja að í því skriflega/hlustunarlega fékk ég hæstu mögulegu einkunn og prófdómarinn í munnlega prófinu kiknaði í hnjánum af hrifningu þegar ég byrjaði að tala dönsku. Ekki amarlegt það... Og fullt hús stiga fyrir mig :)

En oh, ég ætlaði að segja ykkur margt fleira sniðugt, en ég er bara svo þreytt að ég get ekki meir... Ætla að skella mér í sturtu og svo beint í bælið (klukkan er núna hálfátta) svo ég verð sennilega að láta júróvisjón um lönd leiða í kvöld...

Hafið það gott! Bestu kveðjur úr vorveðrinu, Anna panna

Engin ummæli: