Hversu gráðugur er maður eiginlega orðinn þegar maður smyr sér nesti fyrir heilan dag og borðar það allt í hádeginu? Ekki skrítið þótt vigtin fari upp og fjárhagurinn niður...
Í dag er fimmtudagur, og ég er í fríi í fyrsta skipti í heila viku, jájá. Eins gott að þessar aukavaktir skili sér á launaseðilinn minn, slurp! Svo er vinna og skóli á morgun, og svo frí um helgina, mikil gleði! Enda er búið að plana drykkju og dans annað kvöld, og er ég að því tilefni búin að æfa nokkur vel valin dansspor fyrir framan stóra spegilinn minn í allan morgun. Britney klikkar ekki...
Held að ég hafi annars engar stórar fréttir að færa.
Þótt veðrið sé ekki með allra besta móti þessa stundina (mígandi rigning og 8,3 gráður), þá er nú samt sem áður að koma vor og kóngulærnar stækka eftir því sem dagarnir lengjast. Ef þið bara gætuð séð drusluna sem er í dyrakarminum fyrir ofan útidyrnar, ég er viss um að þetta er baneitrað flykki!
Annars stóð ég eina kónguló að verki um daginn þar sem hún sat á vegg og glápti á mig í sturtu. Og það vita nú allir að maður á ekki að stara á ókunnugt kvenfólk í sturtu og fékk kóngulóin því að enda ævi sína undir sólanum á sandalanum mínum. Verra var þó að eiga við RISAkóngulóna sem kom eins og þruma úr heiðskíru lofti út úr loftræstingargatinu fyrir ofan sturtuna í fyrradag og hljóp á fullum hraða eftir kóngulóarvefjum í loftinu og ætlaði nú aldeilis að veita mér félagsskap. Ég hélt nú síður! En þar sem ég næ ekki upp í loft voru góð ráð dýr. Ég hafði svo sem engan sérstakan áhuga á að deila sturtunni með einhverju ógeðslegu kvikindi svo ég tók til minna ráða, skellti mér út úr sturtuklefanum, tók sturtuhausinn af sturtunni og sprautaði vatni af fullum styrk á drusluna. Það er ekki að því að spyrja að kóngulóin flaug í glæsilegum boga niður (og baðaði út öllum öngum í leiðinni, ekkert smá fyndið!) og sogaðist niður í niðurfallaði. Stóð ég síðan í fimm mínútur yfir niðurfallinu og sprautaði sjóðandi vatni ofan í það, svona til þess að vera alveg viss um að kóngulóin myndi ekki skríða upp aftur.
Núnú, eins og sennilega flestir sem hafa búið í útlöndum kannast við, þá vill maður stundum eiga í smá vandræðum með að svissa á milli tungumála ef maður er þreyttur eða illa fyrirkallaður. Reyndar þarf það ekki alltaf að vera til ills, eins og glöggt má sjá á bekknum mínum í skólanum. Þegar ég hendist inn í skólastofuna eftir erfiðan vinnudag rétt áður en tíminn byrjar, þá er rosalega vinsælt að spyrja mig allskonar málfræðispurninga og annarra dönskuspurninga. Sem ég hef nú ekkert á móti, enda elska ég að svara dönskuspurningum! (Nú muna kannski einhverjir eftir því að eina hlutverk mitt í dönskutímunum í MA var að leika orðabók og málfræðibók, því ég hafði hvort sem er ekkert annað að gera...). En nú er smá babb í bátnum, því ég get ekki með nokkru einasta móti stunið út úr mér setningu á ensku eftir að hafa talað dönsku allan daginn í vinnunni. Hef ég því tekið á það ráð að láta allan bekkinn tala á dönsku við mig! Og geng ég meira að segja svo langt í þessum aðferðum mínum, að ég þykist ekki skilja þann sem talar á ensku við mig. Frá því er skemmst að segja að þetta nýtur þvílíkra vinsælda að nú talar enginn ensku lengur, heldur fara öll samskipti í bekknum fram á dönsku, og neitar fólk jafnvel að tala ensku við fólk úr öðrum bekkjum. Er það mál manna að þetta sé hin allra besta æfing og afar sneddí hugmynd hjá mér...
En já, þetta var nú samt ekki það sem ég ætlaði að segja, þetta var nú bara smá svona útúrdúr. Heldur ætlaði ég að segja frá einu góðu dæmi um það hvernig maður verður alveg gjörsamlega ruglaður í hausnum þegar maður þarf að hugsa á útlensku allan daginn:
Um daginn var ég á morgunvakt. Það var nýbúið að opna búðina og engir kúnnar komu í heilar tíu mínútur (hallelúja!). Á meðan ég sat á kassanum í mannlausri versluninni fór ég að pæla í sígarettumaskínunni sem var á kassanum á móti mínum kassa. Já, ég sagði sígarettumaskínu. Það er víst nýbúið að innleiða svaka sígarettukerfi í Nettóið mitt þannig að nú þarf fólk bara að velja bókstaf frá A-P og þá berst sígarettupakkinn til manns í gegnum langt rör í loftinu með tilheyrandi hávaða og látum. Afar sniðugt og hef ég heyrt komment á borð við "geimsígarettur" um þetta kerfi. En já, svo ég víki nú aftur að sögunni, þá sat ég og var að pæla í því hvaða sígarettutengundir væru eiginlega í boði, og komst að því að það eru ekki sömu tegundir og maður fær í búðinni heima í Mývó. Og ég ákvað að nota tækifærið á meðan ég hefði ekkert að gera og æfa mig pínu í dönsku (í hljóði að sjálfsögðu) og ímynda mér þær aðstæður að einhver svakalega sætur gæi (gæji?) kæmi og spyrði mig hvaða sígarettur væri eiginlega hægt að fá á Íslandi.
Ímyndað samtal:
Gaur: Nú, ertu frá Íslandi? Hvaða sígarettur er eiginlega hægt að fá þar? Þær sömu og hér?
Anna: Nei, þar er mest Microsoft, Salem, Prince, Winstone, Capri, Camel og svoleiðis...
Og þar sem það voru enn engir kúnnar í búðinni, þá ákvað ég að æfa þetta samtal aftur, og hafa það svolítið flottara í þetta skiptið.
Ímyndað samtal, betrumbætt útgáfa:
Gaur: Nei í alvörunni? Ertu frá Íslandi? Hehe, flott sígarettugræja sem þið eruð með, ég ætla að fá einn pakka... Eruð þið með sömu sígarettutegundir á Íslandi?
Anna: Nei alls ekki sko! Þar er sko Microsoft langvinsælasta tegundin, en svo er náttúrulega mikið um Winstone og Prince, og síðan er líka Capri og svona...
En eitthvað var samt skrítið við þetta samtal hjá mér. Eftir smá stund fór að rofa til í hausnum á mér, ég meinti náttúrulega Marlboro en ekki Microsoft!!! Já, manni verða oft á allskonar rökhugsunarvillur þegar maður er að einbeita sér að erlendri málfræði... Eins gott að ég er þá búin að æfa mig, áður en sæti gæinn kemur og spyr mig...
Nei, nú gengur þetta ekki lengur. Ætla að skella mér upp í rúm og kúra þar með dönskubækurnar fram á kvöld og borða rúsínur!
Hafið það gott í dag älsklingarnir mínir! Bestu kveðjur, Anna sem selur ekki Marlboro
PS. Niðurstöður úr kommentakeppni aprílmánaðar liggja fyrir og verða úrslitin birt vonandi núna um helgina...
PS2. Ég bið alla bloggara um að afsaka hvað ég kommenta hrikalega sjaldan á síðurnar hjá þeim, ég er bara svo ferlega upptekin að ég hef ekki mikinn tíma til þess að lesa blogg þessa stundina... Eins vil ég biðja alla notendur bloggar.is kerfisins um að afsaka extra vel kommentaleysið hjá mér, en málið er að Opera-vafrinn minn annað hvort a) lætur síðurnar hristast alveg geðveikt hratt upp og niður svo ég get ekki lesið einn einasta staf eða b) birtir engan texta á síðunum. Sumar síður eru þó í lagi, eins og t.d. hjá Elínu og Baldvini og ég get skoðað þær í Opera. En til þess að skoða síðurnar sem falla annað hvort undir flokk a eða b eða bæði a og b þarf ég að ræsa annað hvort Internet Explorer eða FireFox og það tekur næstum því marga daga (ekki mikið ýkt!). En ég geri það samt annað slagið og þá fá þeir sem eru í tenglalistanum hjá mér komment frá mér, klöppum fyrir því! En ég verð að viðurkenna að fjöldinn allur af öðrum bloggar.is síðum sem ég hef fylgst með (en er ekki á tenglalistanum hjá mér) er dottinn út úr mínum blogghring, þ.e. ég skoða þær síður ekki lengur, því ég þoli ekki að nota Explorer og FireFox vegna sljóleika og nenni ekki að nota þá vafra meira en til þess að kíkja á tenglalistann hjá mér. Hvet ég því alla sem eru EKKI á tenglalistanum mínum til þess að skipta yfir á aðrar bloggsíður, svona svo ég geti haldið áfram að fylgjast með... Sorglegt að vera með bloggsíðu en missa lesendur á þennan máta :/ Ég mæli að sjálfsögðu með blogspot kerfinu ;) En já, ætlaði bara að láta ykkur vita af þessu...
fimmtudagur, maí 17, 2007
Jättebra
...sagði
Anna Bj.
-
fimmtudagur, maí 17, 2007
Flokkur: Danmark
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli